Íslensku safnaverðlaunin afhent 2020

Þjóðminjasafn Íslands hlaut safnaverðlaunin 2020

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Þjóðminjasafni Íslands Íslensku safnaverðlaunin 2020 við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu mánudaginn 18. maí kl. 16.00. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.

Einnig voru fimm verkefni tilnefnd en þau voru Borgarsögusafn Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur, Náttúruminjasafn íslands og sameiginlega Minjasafns Austurlands, Tækniminjasafn Austurlands, Sjóminjasafn Austurlands og Gunnarsstofnun.

Þjóðminjasafn Íslands hlaut verðlaunin fyrir varðveislu- og rannsóknarsetur í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnskosts. Var það mat valnefndar að þessi verkefni séu mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, tók við verðlaununum fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands.Verðlaunin eru veitt annað hvert ár fyrir framúrskarandi starfsemi á sviði safna. Að verðlaunaveitingunni standa Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS)