Stefnumörkun um safnastarf  – samþykkt 2021

Stefnumörkun um safnastarf var samþykkt í júní 2021 af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu ráðsins en stefnumörkunin var unnin í samstarfi safnaráðs og höfuðsafnanna þriggja, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 er eitt hlutverk safnaráðs að vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn og skal samþykkt af ráðherra.

Í upphafi árs 2019 var settur á laggirnar stýrihópur til að fara yfir stefnumörkunina og í desember 2020 var Stefnumörkun um safnastarf tilbúin og send ráðherra til samþykktar.
Í stýrihópnum sátu:

  • Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, fyrir hönd Listasafns Íslands
  • Helga Lára Þorsteinsdóttir, safnstjóri RÚV og fulltrúi í safnaráði, fyrir hönd safnaráðs
  • Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands
  • Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands
  • Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs, fyrir hönd safnaráðs

Safnaráð og höfuðsöfnin hafa unnið að stefnumörkuninni undir stjórn ráðgjafarfyrirtækisins Sjá sem hefur haft umsjón með verkþáttum stefnumörkunarinnar f.h. safnaráðs og í góðu samstarfi við fagaðila í safnastarfi, m.a. safnstjóra viðurkenndra safna og ríkissafna, sem og aðra hagaðila í safnastarfi.

Leiðarljós Stefnumörkunar um safnastarf eru:

  • Það er sameiginleg ábyrgð samfélagsins að vernda menningar- og náttúruarf landsins, stuðla aðfaglegri umgengni og tryggja jafnt aðgengi að arfinum.
  • Söfn taka virkan þátt í samfélagslegri umræðu, þau taka af skarið og skapa samtal um samfélagslegamikilvæg mál. Sterk tengsl safna, safnkosts og samfélags fela í sér drifkraft og verðmætasköpun.
  • Söfn hafa mikilvæga stöðu þegar kemur að fræðslu, skilningi og vitund um menningar- og náttúruarfinn. Þar gegnir mannauður safna lykilhlutverki.
  • Söfn eiga í öflugu samstarfi sín á milli og við fjölbreytta aðila, bæði innanlands og utan.
  • Söfn varðveita frumheimildir um menningu, sögu og náttúru landsins og veita aðgang að þeim tilframdráttar í rannsóknum, fyrir þekkingaröflun og til ánægju.
  • Söfn eru samfélagslega ábyrg, þau huga að sjálfbærni á öllum sviðum safnastarfs og eru vettvangurnýsköpunar.
  • Söfn starfa eftir siðareglum ICOM, alþjóðaráðs safna

Við gerð stefnumörkunarinnar fór fram ítarleg gagnaöflun og greiningarvinna en við stefnumótunina var horft til innri vinnu og gagna, lagasetninga sem og sambærilegra stefna hjá öðrum innlendum og erlendum menningarstofnunum. Stefnumörkun um safnastarf mun nýtast safnageiranum, ráðuneytum, stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, safnaráði, höfuðsöfnum og öllum söfnum, bæði viðurkenndum sem og annarri safnastarfsemi en síðast en ekki síst eigendum safna.

Safnaráð vill þakka öllum þeim fjölmörgu sem tóku þátt í umræðum, rýnifundum og í könnunum um stefnumörkunina og við hlökkum til að eiga áframhaldandi gott samtal um næstu skref, þ.m.t. aðgerðaráætlun og hvernig stefnumörkunin getur nýst söfnum í landinu og stuðningsstofnunum þeirra.

Safnarad_StefnumorkunSafnastarf_April21_Vef