Stefnumörkun um safnastarf – samþykkt 2021
Stefnumörkun um safnastarf var samþykkt í júní 2021 af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu ráðsins en stefnumörkunin var unnin í samstarfi safnaráðs og höfuðsafnanna þriggja, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 er eitt hlutverk safnaráðs að vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn og skal samþykkt af ráðherra.
Í upphafi árs 2019 var settur á laggirnar stýrihópur til að fara yfir stefnumörkunina og í desember 2020 var Stefnumörkun um safnastarf tilbúin og send ráðherra til samþykktar.
Í stýrihópnum sátu:
- Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, fyrir hönd Listasafns Íslands
- Helga Lára Þorsteinsdóttir, safnstjóri RÚV og fulltrúi í safnaráði, fyrir hönd safnaráðs
- Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands
- Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands
- Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs, fyrir hönd safnaráðs
Safnaráð og höfuðsöfnin hafa unnið að stefnumörkuninni undir stjórn ráðgjafarfyrirtækisins Sjá sem hefur haft umsjón með verkþáttum stefnumörkunarinnar f.h. safnaráðs og í góðu samstarfi við fagaðila í safnastarfi, m.a. safnstjóra viðurkenndra safna og ríkissafna, sem og aðra hagaðila í safnastarfi.
Leiðarljós Stefnumörkunar um safnastarf eru:
- Það er sameiginleg ábyrgð samfélagsins að vernda menningar- og náttúruarf landsins, stuðla aðfaglegri umgengni og tryggja jafnt aðgengi að arfinum.
- Söfn taka virkan þátt í samfélagslegri umræðu, þau taka af skarið og skapa samtal um samfélagslegamikilvæg mál. Sterk tengsl safna, safnkosts og samfélags fela í sér drifkraft og verðmætasköpun.
- Söfn hafa mikilvæga stöðu þegar kemur að fræðslu, skilningi og vitund um menningar- og náttúruarfinn. Þar gegnir mannauður safna lykilhlutverki.
- Söfn eiga í öflugu samstarfi sín á milli og við fjölbreytta aðila, bæði innanlands og utan.
- Söfn varðveita frumheimildir um menningu, sögu og náttúru landsins og veita aðgang að þeim tilframdráttar í rannsóknum, fyrir þekkingaröflun og til ánægju.
- Söfn eru samfélagslega ábyrg, þau huga að sjálfbærni á öllum sviðum safnastarfs og eru vettvangurnýsköpunar.
- Söfn starfa eftir siðareglum ICOM, alþjóðaráðs safna
Við gerð stefnumörkunarinnar fór fram ítarleg gagnaöflun og greiningarvinna en við stefnumótunina var horft til innri vinnu og gagna, lagasetninga sem og sambærilegra stefna hjá öðrum innlendum og erlendum menningarstofnunum. Stefnumörkun um safnastarf mun nýtast safnageiranum, ráðuneytum, stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, safnaráði, höfuðsöfnum og öllum söfnum, bæði viðurkenndum sem og annarri safnastarfsemi en síðast en ekki síst eigendum safna.
Safnaráð vill þakka öllum þeim fjölmörgu sem tóku þátt í umræðum, rýnifundum og í könnunum um stefnumörkunina og við hlökkum til að eiga áframhaldandi gott samtal um næstu skref, þ.m.t. aðgerðaráætlun og hvernig stefnumörkunin getur nýst söfnum í landinu og stuðningsstofnunum þeirra.
Safnarad_StefnumorkunSafnastarf_April21_Vef
Listasafn Íslands - Samræmd safnastefna listasafna
Listasafn Íslands, höfuðsafn á sviði myndlistar, skal samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 og myndlistarlögum nr. 64/2012, veita öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðla að samvinnu listasafna og vinna að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar.
„Tilgangur og hlutverk stefnunnar er að skerpa á sameiginlegri sýn listasafna þannig að stjórnendur þeirra stefni allir í sömu átt. Listasöfn á Íslandi byggja á sambærilegum grunni. Þau eiga það sameiginlegt að eiga og varðveita skráða safneign sem er sýnd að einhverju leyti og þau leggja öll áherslu á að halda reglulega nýjar sýningar. Sérstaða listasafna liggur helst í fjölda sérsýninga á hverju ári, ólíkri sérhæfingu mannauðs og ýmiss konar sérstöðu varðandi söfnunarstefnu eða safnkost. Listasöfn eru því fjölbreytt og í því felast tækifæri til samvinnu, samnýtingar og öflugs flæðis upplýsinga og þekkingarmiðlunar. Safnastefna á sviði myndlistar skapar jafnframt grundvöll til meira samstarfs, en í því felst mikill styrkur fyrir listasöfnin og verkefni þeirra. Með því að horfa til samræmdrar safnastefnu á sviði myndlistar geta einstök listasöfn sett sér skýrari stefnu í eigin starfi, sérstaða hvers listasafns verður augljósari og verkaskipting getur orðið skýrari.“ (um hlutverk stefnunnar, af vefsíðu hennar).
Sjá hér:
Samræmd safnastefna
Þjóðminjasafn Íslands - Safnastefna á sviði menningarminja
Þjóðminjasafn Íslands gaf út Safnastefnu á sviði menningarminja árið 2017 og var það þriðja útgáfa stefnunnar. Stefnunni er ætlað að vera leiðarljós fyrir starfsemi menningarminjasafna í landinu og stuðla að fagmennsku og framgangi safnastarfs. Þjóðminjasafninu ber samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 og lögum um Þjóðminjasafn Ísland nr. 140/2011 að koma að gerð samræmdar safnastefnu á sviði menningarminja.
Sjá hér: Safnastefna á sviði menningarminja
Minjastofnun Íslands - Menningararfurinn - stefna um varðveislu og aðgengi
Stefnumörkun um safnastarf er önnur tveggja stefna um menningararf sem var samþykkt í júní 2021 en einnig var samþykkt stefnan „Menningararfurinn – stefna um varðveislu og aðgengi“ sem var unnin undir forystu Minjastofnunar Íslands og samkvæmt ákvæðum laga um menningarminjar. Framkvæmdastjóri safnaráðs sat í stýrihóp þeirrar stefnu fyrir hönd ráðsins.
https://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/menningararfurinn-stefna-um-vardveislu-og-adgengi
Undirbúningsvinna við stefnumörkun 2013 - 2015
Undirbúningsvinna við stefnumörkun safnaráðs og höfuðsafnanna var unnin á árunum 2013–2015. Starfshópur vann að drögum að stefnumótun safnaráðs og höfuðsafnanna en samkvæmt safnalögum er það hlutverk safnaráðs að vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn, sem send er ráðherra til samþykktar. Í starfshópnum voru Anna Lísa Rúnarsdóttir frá Þjóðminjasafni Íslands, Rakel Pétursdóttir frá Listasafni Íslands, Sigurjón Baldur Hafsteinsson frá námsbraut í safnafræði við Háskóla Íslands, og Haraldur Þór Egilsson, fulltrúi safnaráðs, sem jafnframt var formaður hópsins. Starfsmaður hópsins var framkvæmdastjóri safnaráðs. Hópurinn hafði samráð við safnmenn víða um land og aðra hagsmunaaðila um áherslur stefnunnar. Í leit sinni að innblæstri skoðaði starfshópurinn skýrslur og stefnumótun fjölmargra aðila og hér á síðunni má finna tengla á hluta efnisins. Hópurinn skilaði tillögum til safnaráðs í apríl 2014 og síðan var unnið áfram með þær innan safnaráðs og í samstarfi við höfuðsöfnin. Tillaga að stefnumótun safnaráðs var samþykkt í september 2015 og send mennta- og menningarmálaráðuneytinu til skoðunar.
Höfuðsöfnin vinna nú að stefnumörkun hvert á sínu sérsviði, sem safnaráð kemur einnig að.
Þjóðminjasafn Íslands hefur unnið Safnastefnu á sviði menningarminja og kom hún út árið 2017. Er það þriðja útgáfa safnastefnu á sviði menningarminja sem kemur út á vegum safnsins.
Lesefni varðandi stefnumörkun á sviði safnastarf: