Safnaráð er stjórnsýslunefnd sem starfar eftir safnalögum nr. 141/2011 og er meginhlutverk þess að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu, vinna að stefnumörkun um safnastarf, fjalla um viðurkenningar safna og veita umsagnir um styrkumsóknir í safnasjóð.
Menningarráðherra skipar safnaráð til fjögurra ára í senn.
Í 7. gr. safnalaga eru tilgreind svohljóðandi hlutverk safnaráðs:
- að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu,
- að vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn sem send er ráðherra til samþykktar,
- að fjalla um stofnskrár eða samþykktir safna og staðfesta þær,
- að fjalla um viðurkenningu safna og afturköllun viðurkenningar áður en tillögur þar að lútandi eru sendar ráðherra,
- að setja skilmála um húsnæði safna, þar á meðal staðla um aðgengi og öryggismál þeirra,
- að setja skilmála um staðla fyrir skráningarkerfi safna og viðurkenningu á skráningarkerfum,
- að veita viðkomandi höfuðsafni umsögn um erindi er varða ráðstöfun eða förgun safngripa,
- að leggja mat á þörf fagsviðs eða landsvæðis fyrir sérstakt ábyrgðarsafn og fjalla um tillögu þar að lútandi áður en höfuðsafn sendir hana ráðherra,
- að setja safnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
- að veita umsögn um styrkumsóknir úr safnasjóði,
- að sinna öðrum verkefnum á sviði safnamála samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
Athugið að samkvæmt ákvörðun menningar- og viðskiptaráðuneytisins eru heitin safnaráð og safnasjóður ávallt rituð með litlum upphafsstaf.
Skrifstofa safnaráðs er til húsa í Gimli, Lækjargötu 3 í Reykjavík.