Hlutverk og tilgangur safnasjóðs er að efla starfsemi safna með styrkjum. Viðurkennd söfn önnur en söfn í eigu ríkisins geta sótt um rekstrarstyrki til að efla starfsemi sína og öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn. Mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs.

Fjallað er um safnasjóð í safnalögum nr. 141/2011 en þar segir um hlutverk og tilgang sjóðsins:

VI. kafli. Safnasjóður.

21. gr. Hlutverk og skipulag. Hlutverk safnasjóðs er að efla starfsemi safna sem undir lög þessi falla. Í þeim tilgangi getur sjóðurinn styrkt rekstur og skilgreind verkefni viðurkenndra safna, samstarfsverkefni slíkra safna innbyrðis og önnur verkefni. Sjóðnum er heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla faglegt safnastarf, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær. Safnasjóði er heimilt að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé sínu í styrki til að efla rekstur viðurkenndra safna. Tekjur safnasjóðs eru: a. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum, b. önnur framlög.

22. gr. Styrkveitingar.
Styrkir úr safnasjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins, sbr. i-lið 2. mgr. 7. gr. Viðurkennd söfn önnur en söfn í eigu ríkisins geta sótt um rekstrarstyrki til sjóðsins til að efla starfsemi sína. Öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn. Skal hið viðurkennda safn vera aðalumsækjandi og ábyrgðaraðili verkefnisins. Höfuðsöfn og önnur söfn sem eru rekin af ríkinu geta átt aðild að slíkum verkefnum. Safnasjóður getur veitt styrki til alþjóðlegra verkefna sem viðurkennd söfn eru þátttakendur í. Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, hafi verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.

Ráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs.