Haag samningur UNESCO um vernd menningarverðmæta í stríðsátökum

Ísland staðfesti þann 12. desember 2022 Haag-samning UNESCO frá 1954 um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka. Unnið var að fullgildingu samningsins í samstarfi menningar- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Nú hafa nær öll lönd Evrópu staðfest samninginn.

Í frétt Stjórnarráðsins frá 13. desember 2022 segir:

 „Haag-samningurinn frá 1954 er mikilvægt verkfæri til verndar menningarverðmætum í yfirstandandi stríði í Úkraínu. Hann er fyrsti og umfangsmesti fjölþjóðasamningurinn sem snýr að verndun menningarverðmæta og var gerður í kjölfar seinni heimstyrjaldar þegar ómetanleg menningarverðmæti skemmdust, var stolið eða glötuðust. Gífurlegt tjón hefur orðið á menningarverðmætum í vopnuðum átökum undanfarin ár, t.a.m. í fyrrum Júgóslavíu, í Írak og í Sýrlandi og aukin hætta er á eyðileggingu þeirra vegna þróunar hernaðartækni. Yfirstandandi innrás í Úkraínu er þar ekki undantekning, en fréttir hafa borist af vísvitandi eyðileggingu innrásarliðs á menningarverðmætum.“