Frá talnaefni Hagstofunnar: safngestum fækkaði um 45% milli 2019 og 2020

Safnaráð safnar upplýsingum um starfsemi viðurkenndra safna á Íslandi og skilar safnaráð þessum upplýsingum til Hagstofu Íslands. Hagstofan vinnur svo frekar úr gögnunum auk þess sem hún safna upplýsingum um aðra safnastarfsemi í árlegri gagnasöfnun. Í fréttinni kemur fram að safngestum safna almennt fækkaði um 45% á milli áranna 2019 og 2020 hjá 112 söfnum og safnastarfsemi og þar af fækkaði erlendum gestum mest. 

Ef skoðuð eru gögnin á bak við fréttina, má sjá að safngestum á viðurkenndum söfnum og höfuðsöfnum fækkaði um 71%, Íslendingum um 52% en erlendum gestum fækkaði um 91%, sem þýðir að áhrifin hafa hlutfallslega verið verri fyrir viðurkennd söfn og höfuðsöfn en alla safnastarfsemi í heild í landinu.

Hafa skal í huga að á bak við þessar tölur eru einungis 33 viðurkennd söfn og höfuðsöfn árið 2019 og 31 safn árið 2020. Safnaráð mun gefa út samanburð á starfsemi viðurkenndra safna árin 2019-2021 í lok ársins 2022.

Frétt Hagstofunnar:

„Safnagestum fækkaði um 45% á milli 2019 og 2020

Gestum safna, setra, sýninga og skyldrar starfsemi fækkaði um 45% á milli áranna 2019 og 2020. Mest fækkaði gestum sögusafna, eða um 54%, og þá listasafna, um 47%. Gestum náttúrusafna fækkaði jafnframt um 29% og gestum dýragarða um 21%. Sé horft til landshluta fækkaði safnagestum mest á Norðurlandi eystra, eða um 79%, og á Vesturlandi, um 66%. Gestum fækkaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi, þar sem þeim fjölgaði um 7%, eða um rúmlega 13 þúsund.

Erlendum safnagestum fækkaði um 84,9% á milli 2019 og 2020 en innlendum um 21,4%. Árið 2020 voru innlendir safnagestir 76,7% af heildarfjölda gesta en erlendir 23,3% og var það í fyrsta sinn síðan 2013 sem innlendir safnagestir voru í meirihluta en á milli 2015-2019 var hlutfall innlendra gesta á bilinu 33-49%. Hlutfallslega fækkaði erlendum gestum mest á listasöfnum, eða um 92,9% og minnst á náttúrusöfnum, um 65,9%. Innlendum gestum fækkaði á öllum tegundum safna nema náttúrusöfnum.

Reglulegum sýningardögum safna yfir sumartímann fækkaði jafnframt á milli ára. Þannig fækkaði þeim söfnum sem höfðu opið 6-7 daga vikunnar að sumri til úr 104 í 98 á meðan að söfnum án reglulegra sýningardaga að sumri til fjölgaði úr 3 í 9.

Um gögnin
Upplýsingar um viðurkennd söfn koma úr skýrslum sem viðurkennd söfn skila safnaráði árlega. Upplýsingum um önnur söfn safnar Hagstofan frá söfnunum sjálfum í árlegri gagnasöfnun.

Alls skiluðu 123 söfn, setur, sýningar, garðar og skyld starfsemi inn upplýsingum um starfsemi sína árið 2020 og hafa þau ekki verið færri síðan 2002. Af þeim skiluðu 112 upplýsingum um fjölda gesta en 115 skiluðu sömu upplýsingum árið áður. Rétt er að nefna að listi Hagstofu Íslands yfir starfandi söfn, setur, sýningar, garða og skylda starfsemi er ekki tæmandi en hann er uppfærður árlega eftir þeim upplýsingum sem aðgengilegar eru í hvert skipti.”

 

Frétt á vef Hagstofu Íslands má finna hér.