Listasafn Einars Jónssonar hlýtur viðurkenningu

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hefur tekið til umfjöllunar tillögu safnaráðs frá 21. október 2021 um viðurkenningu safna samkvæmt safnalögum nr. 141/2011.

Ráðherra veitti að tillögu ráðsins Listasafni Einars Jónssonar viðurkenningu.

Listasafn Einars Jónssonar er í senn rótgróið og forvitnilegt listasafn frumkvöðuls í íslenskri myndlist. Safnið er staðsett í þriggja hæða alfriðuðu húsi á Skólavörðuholti umleikið viðamiklum höggmyndagarði. Frá sjónarhóli byggingarlistar er safnhúsið Hnitbjörg sveipað ævintýrablæ og er einstök perla í miðborg Reykjavíkur. Sýningarrými safnsins eru magnþrungin og söguleg. Listasafn Einars Jónssonar er fyrsta listasafn landsins sem opnað var almenningi í eigin húsnæði árið 1923. Safnið hýsir vinnustofur myndhöggvarans frá fyrri tíð ásamt fyrstu þakíbúð Reykjavíkur sem áður var hluti af heimili Einars og Önnu og er nú varðveitt sem slíkt.

Safnaráð óskar Listasafni Einars Jónssonar til hamingju með viðurkenninguna.