Sóttvarnaraðgerðir teknar upp að nýju – söfn mega taka á móti 75% af hámarksfjölda

Þó ekki fleiri en 200 manns í hverju rými

Á miðnætti laugardagsins 24. júlí (aðfaranótt sunnudags) taka í gildi hertar sóttvarnaraðgerðir og gilda til og með 27. ágúst (framlengt um tvær vikur).

Söfn og aðrir opinberir staðir megi taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda og að hámarki 200 manns í hverju rými. Gætt skuli að eins metra nándarreglu og er skylt að bera andlitsgrímu þar sem regluna er ekki hægt að viðhafa.

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 200 manns. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin.
  • Nándarregla verður almennt 1 metri. Börn fædd 2016 og síðar verði undanþegin.
  • Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu og ef loftræsting er ekki viðunandi. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin. Þetta þýðir að söfn sem geta tryggt eins metra fjarlægðarreglu á milli gesta þurfa ekki að krefjast grímunotkunar af gestum.
  • Söfnum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta, að hámarki 200 manns í hverju rými.
  • Minna skal almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir, svo sem munnlega, með merkingum eða skiltum.
  • Tryggja skal góða loftræstingu þar sem umgangur fólks er nokkur og lofta reglulega út.

Athugið: Nú er almennt ekki gefinn út hámarksfjöldi gesta safna, því þarf hvert safn að ákvarða þetta fyrir sig og alltaf er betra að vera varkárari en hitt. En sem dæmi ef miðað er við fyrri reiknireglur og að eins metra nándarregla gildir, þá má ætla að sem hámark megi 10 manns vera á hverja 10 fermetra – og því mætti áætla að 7,5 manns á hverja 10 fermetra gætu fallið undir 75% af hámarksfjölda. Ávallt þarf þó að huga að 200 manna hámarkinu.

Reglugerð nr. 878/2021