Ný reglugerð – söfn mega taka á móti hámarksfjölda gesta

Tekur gildi frá og með 25. maí

Ný reglugerð nr. 587/2021 um samkomutakmarkanir tekur gildi þriðjudaginn 25. maí og gildir til 16. júní. Þá mega söfn taka á móti leyfilegum hámarksfjölda móttökugetu. Nú er hámarksfjöldi ekki tiltekinn í rekstrarleyfum safna, en biðlað er til safna að sýna skynsemi hvað varðar gestafjölda og fara varlega í sakirnar.

Létt verður á grímuskyldu og hún fellur m.a. niður í verslunum og á vinnustöðum. Einungis er gerð krafa um grímu á sitjandi viðburðum, s.s. leiksýningum, bíósýningum, í kirkjuathöfnum, á íþróttaviðburðum og viðlíka. Má því álykta að grímunotkun sé ekki skylda á söfnum, en auðvitað geta söfn sett strangari reglur ef þurfa þykir. Nota skal grímu ef húsnæði er illa loftræst eða ekki er unnt að tryggja nálægðar­takmörkun, 2 metra. Ekki þarf að skrá niður gesti safna.

Á viðburðum á vegum safna gilda hinar almennu 150 manna samkomutakmarkanir.

Sjá betur frétt á vef stjórnarráðsins: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/05/21/Covid-19-Verulega-dregid-ur-samkomutakmorkunum-fra-25.-mai/

Athugið: fréttin verður uppfærð ef nákvæmari leiðbeiningar koma frá ráðuneytum eða sóttvarnaryfirvöldum.