Ný reglugerð – Breyttar reglur fyrir söfn

20 manns í hverju sóttvarnahólfi - starfsmenn og börn eldri en 2015 meðtalin.

Safnaráð vekur athygli á nýrri reglugerð nr. 440/2021 um samkomutakmarkanir.

20 manna fjöldatakmarkanir taka gildi frá og með 15. apríl og áætlað að gildi í 3 vikur, til 5. maí nk. Líkt og áður falla söfn undir önnur opinber rými þegar kemur að skilgreiningu. Í nýrri reglugerð um takmörkun á samkomum stendur í 3. gr. Fjöldatakmörkun: „Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi svo sem söfnum, að ekki séu á sama tíma fleiri en 20 einstaklingar í sama rými.“

Ef aðstæður og húsnæði leyfa geta söfn sett upp sóttvarnarhólf og þá tekið á móti fleiri gestum. Hvert skilgreint hólf þarf að vera greinilega aðskilið. Þau þurfa að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli hólfa. Sjá leiðbeiningar Embættis landlæknis um rými utanhúss og innandyra vegna COVID-19 https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item43695/Leidbeiningar-um-rymi-utanhuss-og-innandyra-vegna-COVID-19-

  • Hámarksfjöldi einstaklinga í sama rými eru 20 einstaklingar, starfsmenn meðtaldir.
  • Börn fædd 2015 og síðar teljast ekki með í hámarksfjölda eða nálægðartakmörkunum.
  • Grímuskylda er fyrir alla fædd 2005 og eldri.
  • Nálægðartakmörk verða tveir metrar á milli ótengdra aðila.
  • Þar sem ekki er hægt að viðhafa nálægðarmörk er skylt að andlitsgríma verði notuð.
  • Tryggja skal að blöndun einstaklinga verði ekki á milli hólfa, hvorki í inngangi/útgangi, salernisaðstöðu, veitingasölu eða annarri þjónustu og að fyllstu sóttvarnaráðstafana sé gætt.

Sóttvarnir:

  • Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti.
  • Minna skal almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir, svo sem munnlega, með merkingum eða skiltum.
  • Tryggja skal góða loftræstingu þar sem umgangur fólks er nokkur og lofta reglulega út.