Ný reglugerð – rýmri takmarkanir fyrir söfn frá 8. febrúar

Ný reglugerð um samkomutakmarkanir  tekur gildi mánudaginn 8. febrúar. Nú verður leyfður hámarksfjöldi gesta í söfnum 150 manns með hliðsjón af fermetrafjölda.

Í reglugerð nr. 123/2021 segir: „söfnum, svo sem bóka- og skjalasöfnum, listasöfnum, minjasöfnum, náttúrugripasöfnum og tæknisöfnum, heimilt að taka við fimm gestum á hverja 10 m², þó að hámarki 150 gestum í rými að því gefnu að uppfyllt séu skilyrði um grímunotkun og 2ja metra fjarlægðartakmörk.“

Þetta þýðir að lágmarksstærð þess rýmis sem hámarksfjöldi gesta, 150 manns, megi vera í á hverjum tíma, er 300 m² (fermetrar). Ef rýmið er minna, þarf safnið að reikna út hve margir mega vera í hverju sóttvarnarrými.

Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti. Auk þess skal minna almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir, svo sem munnlega, með merkingum eða skiltum.

Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, meðal annars við afgreiðslukassa og innkaupakerrur í verslunum.

Ákvæði um fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu taka ekki til barna sem fædd eru 2005 og síðar.

Nálægðartakmörk verða tveir metrar á milli ótengdra aðila.

Sjá frétt af vef stjórnarráðsins: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/02/05/COVID-19-Varfaernar-tilslakanir-a-samkomutakmorkunum-fra-8.-februar/