Neyðarstyrkur til Tækniminjasafnsins

 

Tækniminjasafn Íslands á Seyðisfirði er að miklu leyti stórskemmt eftir að aurskriða féll á stóran hluta húsakosts safnsins laugardaginn 19. desember síðastliðinn. Gerðist þetta í kjölfar fordæmalausrar úrhellingsrigningar á svæðinu í hartnær eina viku. Safnið, sem fékk viðurkenningu árið 2014, sérhæfir sig í söfnun og varðveislu tækniminja og er margt í þeim safnkosti einstakt.

Safnaráð samþykkti að verja einni milljón króna í neyðaraðstoð vegna ástandsins á safninu, einhvers konar fyrstu hjálp, og byggist sú aðstoð á eftirlitshlutverki safnaráðs og því fé sem þar er bundið. Stór hluti eftirlitshlutverks safnaráðs er eftirlit með húsakosti safns, aðbúnaði safnkosts, varðveislu gripa og reiknar ráðið með því að féð yrði nýtt í fyrstu viðbrögð á næstu vikum og að féð yrði nýtt í að koma sérfróðum aðilum á staðinn, borga fyrir gistingu og uppihald, kostnað við vinnu þeirra og kostnað við búnað og tæki ef þörf þykir.

Hófst vinna við hreinsun og björgun á safnkostinum um miðjan janúar og er það samvinnuverkefni heimamanna á Seyðisfirði, Tækniminjasafnsins, Þjóðskjalasafnsins, safnaráðs og er það undir verkstjórn Þjóðminjasafns Íslands. Mörg söfn hafa góðfúslega lánað sérfræðinga sína til að taka þátt í hreinsunar- og björgunarstörfum.

Eftirfarandi samþykkt má finna í fundargerð 200. safnaráðsfundar:

Til samþykktar á milli safnaráðsfunda – 21. desember 2020

Safnaráð samþykkti þann 21. desember 2020 með öllum greiddum atkvæðum að verja allt að einni milljón króna í neyðaraðstoð vegna Tækniminjasafns Íslands, en safnið stórskemmdist í aurflóði laugardaginn 19. desember 2020 og stærsti hluti safnkostsins grófst undir aur. Byggist sú aðstoð á eftirlitshlutverki safnaráðs og því fé sem þar er bundið. Stór hluti eftirlitshlutverks safnaráðs er eftirlit með húsakosti safns, aðbúnaði safnkosts, varðveislu gripa og reiknar ráðið með því að féð yrði nýtt í fyrstu viðbrögð á næstu vikum og að féð yrði nýtt í að koma sérfróðum aðilum á staðinn, borga fyrir gistingu og uppihald, kostnað við vinnu þeirra og kostnað við búnað og tæki ef þörf þykir. Aðstoðin yrði skipulögð og unnin með eftirlitsnefnd safnaráðs og í samstarfi við Bláa skjöldinn og jafnvel fleiri aðila á borð við Almannavarnir, Þjóðminjasafnið og Minjastofnun ef svo ber undir.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og  Dómsmálaráðuneytið hafa sett upp upplýsingasíðu á vefsvæðinu island.is vegna hamfaranna. Þar er að finna upplýsingar um verkefni á vegum stjórnvalda og ýmissa stofnana, sem þegar eru í framkvæmd og eru fyrirhuguð vegna hamfaranna:

https://island.is/seydisfjordur