Söfn, safnasjóður og COVID-19

UPPFÆRT 22. MARS: Nýjustu fréttir um hertar fjöldatakmarkanir á covid.is  

Hertar takmarkanir á samkomum – mörkin sett við 20 manns. Þessar reglur takar gildi um miðnætti á mánudagskvöld 23. mars. ÞETTA ÞÝÐIR AÐ SÖFN ÞURFA AÐ LOKA.

„Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðari útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu. Viðburðir þar sem fólk kemur saman verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum.“

 

Pósturinn frá 20. mars

Nú stöndum við fram fyrir áskorunum sem við höfum ekki þurft að takast á við áður, bæði hér á Íslandi sem og í öllum heiminum. Það er mikilvægt að við stöndum saman og styðjum hvert annað.

Athugið að  alltaf er hægt að leita til framkvæmdastjóra safnaráðs með spurningar sem brenna á ykkur. Einnig megið þið deila með okkur hinum, ykkar lausnum á þessum krefjandi verkefnum.

 • MENNINGARSTOFNANIR SKIPTA MEGINMÁLI Á TÍMUM SEM ÞESSUM – menningin þjappar okkur saman, nú skiptir máli að vera andlegur stuðningur við samfélagið
 • Eins og málin standa, þá geta sum söfn haldið opið, þrátt fyrir samkomubann sem er hafið. Hægt er að hafa opið, svo framarlega sem söfnin geti tryggt hæfilega fjarlægð á milli fólks og takmarkað fjölda á hverjum tíma (nú eru það 100 manns). Athugið að það fer mikið eftir húsnæðiskosti, starfsmannafjölda og staðsetningu hvers safns. Verum frekar varkárari en hitt. Engin krafa er gerð að halda opið, heldur er þetta ákvörðun hvers safns í samtali við eigendur sína og samfélagið.
 • Fresta ætti flestum viðburðum, nema ef öruggt sé að halda þeim innan þeirra marka sem stjórnvöld setja á hverjum tíma.
 • Nýtum fjölbreyttar miðlunarleiðir til að sýna safnkostinn – nýtum stafræna miðlun með skapandi hætti, nýtum Sarp t.d. vel.
 • Söfn geta nýtt tímann til að sinna innra faglegu starfi og geta jafnvel nýtt tækifærið og miðlað til almennings með stafrænum hætti hvaða fjölbreyttu skemmtilegu verkefni eru í gangi alla daga hjá söfnum.
 • Nú er hvatt til fjarvinnu, þau söfn sem geta það eru hvött til þess (sum söfn hafa ekki möguleikann á því)
 • Safnasjóður. Augljóst er að staðan nú í samfélaginu hefur gríðarleg áhrif á starfsemi safna vegna COVID-19 og mörg söfn þurfa að grípa til ráðstafanna og m.a. fresta verkefnum sem eru í vinnslu eða lengja í verktímanum. Ef til þess kemur að ykkar safn þarf að fresta eða lengja í vinnutíma verkefna sem fengu styrki úr safnasjóði 2019 og svo einnig þau sem verða styrkt 2020 vegna aðstæðna vegna COVID-19, þá munu þau verkefni fá frest. Eingöngu þarf að láta safnaráð vita um frestinn svo hægt sé að halda utanum pappírsflóðið. Tölvupóstur þess efnis dugar í þessu tilviki. Varðandi breytingu á nýtingu styrkja, þá munu þau tilvik koma upp að söfn hafi ekki tækifæri að vinna að verkefnum eins og þau voru skipulögð í upphafi, hvert tilvik verður metið fyrir sig, vonandi finnst viðunandi lausn á öllum þeim tilvikum.
 • Vinnum saman, deilum upplýsingum um hvernig söfnin eru að leysa þau vandamál sem koma upp við þessar aðstæður, margir safnstjórar hafa deilt viðbragðsáætlunum sinna safna, endilega nýtið ykkur eitthvað frá öðrum söfnum og leitum til mannauðsins á öðrum söfnum með ráðleggingar.
 • Verum tillitssöm, margir eru kvíðnir við þessar aðstæður.
 • En munið að hlíta leiðbeiningum stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda í hvívetna. Hlutirnir geta breyst með mjög skömmum fyrirvara, bestu upplýsingar hverju sinni má finna á vefsíðunni https://www.covid.is/ 
 • Sápum og sprittum!

Með kærleikskveðju til ykkar!