Safnaráð auglýsir eftir umsóknum fyrir aðalúthlutun safnasjóðs 2020

Umsóknarfrestur er til 13. desember 2019 kl. 16.00.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir úr aðalúthlutun safnasjóðs 2020.
Umsóknarfrestur er til kl. 16.00 föstudaginn 13. desember 2019.

Frá og með aðalúthlutun safnasjóðs 2020 verður sú breyting á að úthlutun úr sjóðnum er óskipt. Fallið er frá notkun hugtakanna „rekstrar- og verkefnastyrkir“ og þess í stað verða veittir styrkir úr safnasjóði í ákveðnum flokkum. Styrkir í aðalúthlutun safnasjóðs eru annað hvort til eins árs eða til 2-3 ára og eru þá kallaðir Öndvegisstyrkir til aðgreiningar. Einungis viðurkennd söfn geta sótt um Öndvegisstyrki úr safnasjóði.

Þess má geta að fjármagn í safnasjóði hækkar verulega frá og með árinu 2020 samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 en gert er ráð fyrir að rúmlega 200 milljónum króna verði úthlutað úr safnasjóði á því ári.

Styrkir til eins árs

Viðurkennd söfn geta sótt um styrki til eins árs auk þess sem önnur söfn, höfuðsöfn, safnvísar, setur og sýningar geta sótt um úthlutun úr safnasjóði í samstarfi við viðurkennd söfn, þar sem viðurkennda safnið er ábyrgðaraðili. Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla faglegt safnastarf, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær.

Sótt er um einn aðalflokk styrks í styrkumsókn. Styrkflokkarnir eru níu talsins, við mat á umsóknum í öllum flokkum nema einum er fylgt eftir reglum um verkefnastyrki sem fram koma í safnalögum nr. 141/2011 og úthlutunarreglum safnasjóðs nr. 551/2016. Í einum flokki, Efling grunnstarfsemi er fylgt eftir umsóknar- og úthlutunarreglum um rekstrarstyrki sem fram koma í safnalögum nr. 141/2011 og úthlutunareglum safnasjóðs nr. 551/2016.

Styrkir til 2-3 ára – Öndvegisstyrkir

Öndvegisstyrkir eru nýr flokkur styrkja sem úthlutað er til 2-3 ára með fyrirvara um fjármögnun sjóðsins. Einungis viðurkennd söfn geta sótt um Öndvegisstyrki úr safnasjóði.

Ekki er sjálfkrafa gerð tillaga um styrk til allra umsækjenda sem uppfylla skilyrði laga um viðurkennd söfn heldur munu upphæðir og fjöldi styrkja ráðast af ráðstöfunarfé sjóðsins, fjölda og gæðum umsókna.

Hægt er að sækja um allt að 10-15 milljónir króna sem dreift er yfir styrktímann. Gerðar eru kröfur um greinargóðar og vel undirbúnar umsóknir og um framlag umsækjanda. Þá er krafa um staðfestingu á öðrum styrktaraðilum og í hverju styrkur þeirra felst (t.d. fjárframlag, vinnuframlag og til hvaða hluta verkefnis styrkurinn rennur). Þá ber að geta safnasjóðs sem styrktaraðila.

 

ATHUGIÐ:

  • Sótt er um alla styrki í gegnum umsóknavef safnaráðs, umsóknir í vinnslu og sendar umsóknir má finna á Mínum síðum.
  • Ekki er sjálfkrafa gerð tillaga um styrk til allra umsækjenda sem eru styrkhæfir, heldur munu upphæðir og fjöldi styrkja ráðast af ráðstöfunarfé sjóðsins og fjölda og gæðum umsókna.
  • Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur eru ekki teknar til greina.
  • Safnaráð fer yfir allar umsóknir í safnasjóð og metur þær með faglegum hætti með hliðsjón af safnalögum nr. 141/2011, úthlutunarreglum safnasjóðs nr. 551/2016 og verklagsreglum safnaráðs.