Málþing um söfn og ferðaþjónustu 18. nóvember næstkomandi í Safnahúsinu við Hverfisgötu

Safnaráð, Íslandsstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga standa að málþingi um söfn og ferðaþjónustu föstudaginn 18. nóvember næstkomandi kl. 13:00 – 16:00 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Er málþingið haldið í kjölfar (PDF skjal)skýrslu safnaráðs um söfn og ferðaþjónustu sem kom út haustið 2015 og var unnin af Rannsóknasetri í safnafræðum við Háskóla Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

 

Megin niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að verulegur skortur er á að í opinberri stefnumótun sé litið sérstaklega til safna og safntengdrar starfsemi sem mikilvægir þátttakendur í ferðaþjónustu. Niðurstöður Hagfræðistofnunar bentu til þess að umfang safnageirans hafi aukist á síðustu árum, til að mynda hefur safnagestum fjölgað um 90% frá 1996. Ríkisframlög til svokallaðra ferðamannasafna eru yfir milljarður króna á ári en hafa farið lækkandi að raunvirði á síðustu árum. Í fjórum viðhorfskönnunum sem gerðar voru meðal menningarfulltrúa, markaðsstofa, ferðaþjónustuaðila, safna og safntengdrar starfsemi kemur fram, að á sama tíma og söfn eru talin mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu, þá virðist hlutverk og staða safnanna innan greinarinnar veik. Þótt undanfarin ár hafi verið unnið markvert starf í málefnum ferðaþjónustu og safna skortir grundvöll og heildræna yfirsýn þeirra aðila sem koma að samþættingu beggja málaflokka.

Safnaráð hefur unnið að undirbúningi málþingsins um nokkurt skeið en tilgangur þess er að leiða saman nokkra af þeim hagsmunaaðilum sem koma að stefnumótun í þessum málaflokkum, til að mynda sem eigendur safna eða opinberir stefnumótunaraðilar.

Fyrirlesarar koma frá Íslandsstofu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, rannsóknarsetrum háskóla og markaðsstofum landshluta svo fátt sé nefnt.

Málþingið er stutt af Þjóðminjasafni Íslands.

Nánari upplýsingar verða birtar síðar hér á vefnum.