Greinargerð um mat á ánægju umsækjenda

niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir í apríl 2015

Í lok apríl 2015 var könnunin lögð fyrir þann 51 aðila sem hlaut styrk úr safnasjóði 2015. Alls svöruðu 39 aðilar og var svarhlutfallið því 76%, sem telst viðunandi.

Niðurstöðurnar sýna að viðskiptavinum sjóðsins finnst almennt auðvelt að fylla út umsókn í sjóðinn og skilja leiðbeiningar með umsóknareyðublaði.

Bæta þarf úr miðlun upplýsinga um stöðu umsókna eftir að þeim hefur verið skilað en þar telur meira en helmingur svarenda að aðgengi að upplýsingum sé erfitt eða í meðallagi.

Eins og málum er háttað nú fá umsækjendur póst þar sem fram kemur hvenær tillaga um úthlutun verður í síðasta lagi afgreidd frá safnaráði til mennta- og menningarmálaráðherra. Birta mætti fréttir á heimasíðu safnaráðs og á póstlista safnmanna eða á sérstökum póstlista fyrir umsækjendur af framvindu matsferlisins ásamt upplýsingum um hvenær tillagan fer frá ráðinu til ráðherra.

Verkefnastyrkir.

Fimmtíu og níu prósent telja matskerfi safnaráðs nægilega gagnsætt en 33% telja það ekki nægilega gagnsætt, bendir þetta til þess að kynna þurfi fyrirkomulag matsferlis betur. Það mætti til dæmis gera með upplýsingapósti til umsækjenda um matsferlið eða breytingum á kynningarefni sjóðsins þar sem mat og einkunnagjöf fá meira vægi en nú er.

Spurt var hvort æskilegra væri að veittir væru færri en hærri styrkir eða fleiri og lægri. Rúm 50% telja að styrkirnir ættu að vera færri og hærri en 25% að þeir ættu að vera fleiri og lægri. Í athugasemdum svarenda kemur fram að svarendur eru sáttir við núverandi fyrirkomulag þar sem bæði eru veittir háir og lágir styrkir úr sjóðnum.

Tæp 60% svarenda telja að setja ætti þak á fjölda umsókna frá hverjum umsækjenda. Flestir þeirra sem álíta að setja ætti þak á fjölda umsókna telja að hver umsækjandi ætti aðeins að geta sent inn 2-4 umsóknir.

Tuttugu og sex prósent svarenda telja að safnasjóður eigi að nýta sér ákvæði í 2. gr. úthlutunarreglna sjóðsins þar sem segir:  Safnaráð getur ákveðið hvort sjóðurinn leggi áherslu á ákveðna þætti safnastarfs í úthlutun verkefnastyrkja hvers árs og skal slík ákvörðun kynnt með auglýsingu í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Af þeim tíu svarendum sem telja að beita eigi þessu ákvæði úthlutunarrelgna telur helmingur að hlutfallið eigi að vera á bilinu 20-40% af úthlutunarfé sem ætlað er í verkefnastyrki.

Spurt var hversu hátt hlutfall styrkveitinga úr sjóðnum ætti að renna til annara en viðurkenndra safna. Sjötíu og þrjú prósent aðspurðra töldu að hlutfallið ætti að vera minna en 20% af heildarupphæð verkefnastyrkja. Rétt er að benda á að 87% svarenda voru fulltrúar viðurkenndra safna. Átján prósent töldu að aðeins ætti að meta gæði umsókna. Síðustu tvö ár hafa gæði umsókna aðeins verið metin og niðurstaðan er sú að árið 2014, þegar 13% styrkþega voru aðilar að söfnum sem ekki teljast til viðurkenndra safna, komu 10% af þeirri upphæð sem úthlutað var í verkefnastyrki í þeirra hlut. Á árinu 2015 var hlutfallið 16% styrkþega á móti 17% af þeirri upphæð sem úthlutað var í verkefnastyrki.

Í almennum athugasemdum kom fram að einn aðili vildi fá meira pláss til útskýringa í umsóknum og fannst erfitt að þurfa að vera stuttorður. Einn aðili vildi fá að vita hvers vegna umsókn væri hafnað og annar vildi að söfnin réðu sjálf í hvaða verkefni þau nýttu styrkinn í stað þess að safnaráð gerði tillögu, byggða á samræmdu gæðamati umsókna, um hvaða verkefni ætti að styrkja .

Rekstrarstykir

Þau viðurkenndu söfn sem tóku þátt í könnuninni voru spurð út í viðhorf til rekstrarstyrkja úr safnasjóði. Rétt tæp 60% telja fyrirkomulagið gott á meðan rúm 40% telja það slæmt. Sama hlutfall lítilla og stórra safna eða um 65% telja fyrirkomulagið gott eins og það er. Þó ber að hafa í huga að stóru söfnin, með rekstrarfé yfir 40 milljónum á ári, eru aðeins sex á meðan litlu söfnin, með rekstrarfé undir 20 milljónum eru 17. Þetta gefur þó vísbendingu um að almennt séu söfnin sátt við núverandi fyrirkomulag

Tæp 80% telja æskilegt að samið væri um rekstrarstyrki til lengri tíma en eins árs í senn og 60% telja að miða eigi upphæð rekstrarstyrks við umfang starfseminnar. Þá telja 80% að rekstrarstyrkir eigi að hækka í takti við auknar rekstrartekjur, að sjóðurinn eigi að auka framlög í takti við auknar rekstrartekjur viðkomandi safns. Þegar þessar spurningar eru skoðaðar út frá stærð safna kemur í ljós að meira fylgi er við þessa aðferðafræði eftir því sem safnið er stærra. Um 50% lítilla safna telja að miða eigi við umfang starfseminnar á meðan rúm 80% stærri safna eru á þeirri skoðun. Fimmtíu og sjö prósent lítilla safna telja að rekstrarstyrkur eigi að hækka í takt við auknar rekstrartekjur á meðan öll stærri söfnin eru á þeirri skoðun.

Það kemur á óvart hversu lítið svarendur höfðu að segja um fyrirkomulag rekstrarstyrkja í ljósi þess að þeim gafst hér tækifæri til að tjá skoðun sína í skjóli nafnleyndar.

Niðurstaða

Almennt virðast viðskiptavinir sjóðsins ánægðir með umsóknarferlið og úthlutunina. Viðurkennd söfn hafa áhuga á að geta gert samaninga um rekstrarstyrki til lengri tíma og helmingur minni safna og öll stærri söfn telja að miða eigi við umfang reksturs við ákvörðun á upphæð rekstrarstyrks. Almennt eru umsækjendur ekki hlynntir því safnasjóður leggi áherslu á ákveðna þætti safnastarfs í úthlutun verkefnastyrkja.

Heilt á litið má sjóðurinn vel við una, gera má breytingar til að auka gagnsæi og upplýsingagjöf auk þess að halda áfram vinnu við breytingar á úthlutun rekstrarstyrkja úr sjóðnum.