Listasafn Árnesinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2018

Forseti Íslands afhenti verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 5. júní

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti Listasafni Árnesinga Íslensku safnaverðlaunin 2018 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, þriðjudaginn 5. júní kl.16. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.

Þrjú söfn voru tilnefnd, en ásamt Listasafni Árnesinga voru Grasagarðurinn í Reykjavík og Þjóðminjasafn Íslands fyrir nýtt varðveislu- og rannsóknasetur sitt tilnefnd til safnaverðlaunanna 2018.

Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Í greinargerð valnefndar segir að Listasafn Árnesinga bjóði upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar sem veita gott aðgengi að myndlistararfi þeim sem það varðveitir. Safnið kynnir einstaka listamenn á einka- og samsýningum og hefur verið í samstarfi við önnur söfn um sýningar um árabil. Útgáfur safnsins eru til fyrirmyndar þar sem gefin er út vönduð sýningarskrá í tengslum við hverja sýningu, sem er mikilvæg heimild um starf og sýningar safnsins. Safnið heldur úti markvissu fræðslustarfi þar sem unnið er með mismunandi skólastigum, listamönnum, fræðimönnum og almenningi. Námskeið og smiðjur eru haldnar reglulega fyrir almenning þar sem gefst kostur á að vinna með mismunandi miðla í tengslum við sýningar safnsins. Listasafn Árnesinga var á sínum tíma fyrsta listasafnið utan höfuðborgarsvæðisins sem opið var almenningi og hefur sýnt sig og sannað sem öflugt og framsækið listasafn. Mat valnefndar er að sú áhersla í sýningarhaldi sem fylgir meginmarkmiði Listasafns Árnesinga um að efla áhuga, þekkingu og skilning almennings á sjónlistum sé til fyrirmyndar. Safnið beitir árangursríkum aðferðum í fræðslu með umræðum og uppákomum, sem bera vitni um metnað, fagmennsku og nýsköpun.

Tilkynnt var um tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2018 á Alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí sl. Valnefnd Íslensku safnaverðlaunanna 2018 skipuðu þau Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari (formaður), Rannver H. Hannesson, varðveislustjóri Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Pétur Sörensson, forstöðumaður Safnastofnunar og Þóra Sigurbjörnsdóttir, verkefnastjóri safneignar, Hönnunarsafni Íslands sem tók við af Ólöfu Breiðfjörð, verkefnastjóra Menningarhúsanna í Kópavogi. Fulltrúi Byggðasafns Skagfirðinga sem hlaut verðlaunin 2016 var Sigríður Sigurðardóttir, fyrrum forstöðumaður.

Á mynd: Ingibjörg Áskelsdóttir, ritari FÍSOS, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga og Helga Maureen Gylfadóttir, formaður FÍSOS.