Íslensku safnaverðlaunin 2012

Tilnefnd söfn

Í tilefni alþjóðlega safnadagsins 18. maí er tilkynnt um tilnefningar til Safnverðlaunanna 2012.

Safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár safni sem þykir hafa skarað fram úr eða hafa á eftirtektarverðan hátt unnið úr þeim áskorunum sem söfn standa frammi fyrir. Þrjú söfn hljóta tilnefningu til verðlaunanna en þau hafa verið veitt að Bessastöðum á íslenska safnadaginn, sem í ár verður þann 8. júlí.
Dómnefnd hefur nú tilnefnt eftirtalin söfn og verkefni til Safnaverðlaunanna 2012: Byggðasafn Suður-Þingeyinga, fyrir endurnýjun á grunnsýningu í Safnahúsinu á Húsavík, Listasafn Einars Jónssonar fyrir innihaldsríka heimasíðu vel tengda hlutverki safnsins og markmiðum, Rannsókna- og varðveislusviði Þjóðminjasafns Íslands, fyrir Handbók um varðveislu safnkosts.

Íslandsdeild ICOM (Alþjóðarás safna) og Félag íslenskra safna og safnmanna standa saman að verðlaununum. Þau verða nú veitt í áttunda sinn en síðast fékk Nýlistasafnið í Reykjavík viðurkenninguna meðal annars fyrir útgáfu, miðlun og skráningu sérstæðrar safneignar.
Dómnefnd er skipuð af félögunum auk þess sem safnið sem síðast hlaut verðlaunin á fulltrúa í nefndinni. Auglýst er eftir tillögum frá almenningi og í ár bárust meira en fjörtíu tillögur. Umsögn dómefndar um söfnin þrjú er ítarleg og vel rökstudd.

Úr umsögn dómnefndar um verkefnin þrjú:
Byggðasafn Suður-Þingeyinga, Menningarmiðstöð Þingeyinga fyrir endurnýjun á grunnsýningu í Safnahúsinu á Húsavík.
Grunnsýningin Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum var opnuð í Byggðasafni Suður-Þingeyinga í Safnahúsinu á Húsavík í júní 2010. Opnun sýningarinnar markaði endapunkt umfangsmikilla breytinga á Safnahúsinu. Í stað hefðbundinnar aðgreiningar á menningu og náttúru er valin sú leið að draga upp mynd af sögu byggðarinnar í samspili manns og náttúru. Menningarminjar og náttúrugripir eru settir í nýtt og spennandi samhengi. Niðurstaðan er athyglisverð og eðlileg.
Fjallað er um lokatímabil „gamla bændasamfélagsins“. Laxá, með bæjum meðfram ánni frá upptökum til sjávar, rennur eins og lífæð gegnum sýninguna, tengir hana saman og skerpir áhersluna á samspil og gagnkvæm áhrif manns og náttúru þar sem sérkennum svæðisins og náttúrunýtingu eru gerð góð skil. Staðbundnum sérkennum og náttúruaðstæðum er komið á framfæri og á textaspjöldum eru frásagnir heimafólks sem bregða ljósi á lífsbaráttu og sjálfsþurft alþýðunnar á tímabilinu 1850-1950. Grunnstefið er gefið með skiptingu viðfangsefnisins í steinaríki, jurtaríki og dýraríki í stórum sýningarskápum samkvæmt gamalli hefð.
Uppsetning sýningarinnar er þaulhugsuð og aðlaðandi. Sýningarrýmið er haganlega nýtt og má auðveldlega skipta út hlutum sýningarinnar án endurhönnunar. Í miðju sýningarsalarins eru eyjar þar sem sýningargripir og ítarlegir textar fjalla um valda þætti mannlífs. Út frá aðalsal sýningarinnar eru minni herbergi sem vekja forvitni gesta. Fjallað er um ákveðið þema í hverju þeirra. Þar, eins og í öðrum hlutum sýningarinnar, er manngerðum hlutum og náttúrugripum fléttað saman ásamt ljósmyndum og öðru myndefni. Sérstakt herbergi, ætlað börnum, er tileinkað náttúruvættum.
Að baki sýningunni liggur hugmyndavinna hóps ólíkra einstaklinga sem eru þekktir fyrir að troða óhefðbundnar slóðir í sköpun og túlkun. Sú vinna skilaði sér í fjölbreyttri og ferskri nálgun og fleiri sjónarhornum en oft sjást í sýningum af þessum toga. Til fyrirmyndar er að allir sýningartextar eru þýddir á ensku, ekki aðeins ágrip eins og oft er. Þýðingin er vönduð og hvergi hnökra að finna. Sýningarskráin er einkar glæsileg og vel unnin, prýdd fjölda fallegra mynda og gerir hugmyndafræðinni að baki sýningunni mjög góð skil.

Listasafn Einars Jónssonar fyrir innihaldsríka heimasíðu vel tengda hlutverki safnsins og markmiðum
Einar Jónsson myndhöggvari átti frumkvæði að því að íslenska ríkið byggði safn yfir verk hans á Skólavörðuholti. Listasafn Einars Jónssonar var opnað almenningi árið 1923 og á sér því tæplega 90 ára sögu. Hugmynd Einars var sú að safnið og verkin í því mynduðu heildarverk þar sem hvert verk er hlekkur í heildarupplifun fyrir áhorfandann.
Á 9. áratugi 20. aldar var höggmyndagarði bætt við safnið og verk Einars gerð aðgengileg á lóð þess. Þá var safninu einnig breytt töluvert. Á síðustu árum hefur verið unnið að því innan Listasafns Einars Jónssonar að koma safninu að innan í upprunalegt horf. Um er að ræða umfangsmikið verkefni sem unnið er í áföngum samhliða því að gera safnið sjálft og list Einars aðgengilega almenningi. Þetta er mikil áskorun fyrir safnið þar sem húsið er friðað og erfitt umgengis auk þess sem erfðaskrá Einars leggur línurnar í mörgum málum.
Ný heimasíða safnsins, www.lej.is, er áfangi í þeirri viðleitni að gera byggingu og list Einars aðgengilega á áhugaverðan hátt og góð mynd er gefin af sögu safnsins sjálfs sem er tengd hugmyndafræði listamannsins. Á heimasíðunni er mikið efni birt og gert er ráð fyrir áframhaldandi þróun. Ýmsar heimildir um Einar og list hans eru gerðar aðgengilegar og þannig er lærðum og leikum gefin innsýn í hugarheim listamannsins og ferilinn á bak við verkin í safninu og í garðinum. Í textum og myndbandsupptökum er teflt saman fræðandi lýsingum listfræðings á nokkrum af helstu verkum Einars og hugrenningum almennra safngesta tengdum upplifun af sömu verkum. Á sama hátt eru á síðunni birtar myndbandsupptökur úr turníbúð Einars og Önnu eiginkonu hans sem ætlað er að auka aðgengi almennings að þeim hluta safnbyggingarinnar.
Vefsíðan er afar aðgengileg og auðveld í notkun. Hún er fallega hönnuð og vel unnin og textar eru bæði á íslensku og ensku. Síðan er góður inngangur og kynning á safninu.

Rannsókna- og varðveislusvið Þjóðminjasafns Íslands fyrir Handbók um varðveislu safnkosts.
Starfsemi safna hverfist um varðveislu og rannsóknir á fjölbreyttum safnkosti sem m.a. inniheldur listaverk, forngripi, bækur, náttúrugripi, ljósmyndir og handrit frá öllum tímabilum Íslandssögunnar. Með fyrirbyggjandi forvörslu er leitast við að hægja á eðlilegri hrörnun safngripa og þannig koma í veg fyrir óafturkræfar skemmdir. Þar skiptir máli, rétt meðhöndlun gripa og góður umbúnaður. Einnig nákvæmt eftirlit með umhverfi gripanna, hvort heldur er í safngeymslum eða sýningarsölum. Auk stýringar á ljósmagni, hitastigi og rakastigi þurfa að vera til staðar viðbragðsáætlanir sem tryggja rétt viðbrögð og öryggi safnkosts í óvæntum aðstæðum sem geta skapast af völdum náttúru.
Öll söfn þurfa markvisst að beita þessum aðferðum fyrirbyggjandi forvörslu til þess að verja safnkostinn skemmdum. Forvarslan á Rannsókna- og varðveislusviði Þjóðminjasafns Íslands hefur um árabil staðið að því að auka þekkingu safnmanna á aðferðum fyrirbyggjandi forvörslu og mikilvægi réttrar meðhöndlunar safngripa. Grettistaki hefur verið lyft. Á síðustu árum hafa jarðskjálftar og eldgos endurtekið ógnað menningararfi þjóðarinnar og um leið sýnt fram á mikilvægi vel undirbúinna viðbragðsáætlana og samvinnu safnmanna við björgun og hreinsun. Við þær aðstæður hefur vel komið í ljós mikilvægi fyrirbyggjandi forvörslu við að tryggja öryggi safnkostsins. Þar hefur forvarslan hjá Þjóðminjasafni Íslands gegnt leiðbeinandi og leiðandi hlutverki og starfið allt verið unnið undir öflugri forystu starfsmanna hennar.
Handbók um varðveislu safnkosts er gott dæmi um viðleitni forvarða Þjóðminjasafnsins til þess að miðla af þekkingu sinni og þannig tryggja langtímavarðveislu og öryggi safnkosts þjóðarinnar. Þessi útáfa er því þýðingarmikil fyrir öll söfn á landinu. Bókin byggir á íslenskum aðstæðum og er hluti bókarinnar frumsaminn en forverðir og ýmsir sérfræðingar hafa þýtt og staðfært annað. Handbókin er gefin út rafrænt og gert ráð fyrir að hægt verði að bæta við frekari upplýsingum auk þess sem þar er fjöldi tengla á ítarefni á veraldarvefnum sem auka verulega gildi bókarinnar. Einnig er markmið aðstandenda að bókin sé aðgengileg. Þetta er mikilvægt því almenningur, félög, fyrirtæki og stofnanir aðrar en söfn varðveita stóran hluta menningararfsins. Handbók um varðveislu safnkosts er unnin að frumkvæði forvörslunnar á Þjóðminjasafni Íslands og í góðri samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands og Landsbókasafn –Háskólabókasafn. Hér er um að ræða afar gott dæmi um árangursríka samvinnu sérfræðinga sem starfa að fyrirbyggjandi forvörslu hjá opinberum varðveislustofnunum.
Handbókin um varðveislu safnkosts er aðgengileg á vef Þjóðminjasafns Íslands á slóðinni: www.thjodminjasafn.is/minjar-og-rannsoknir/forvarsla/handbaekur/