Safnablaðið Kvistur er komið út!
Nú er 12. tölublað safnablaðsins Kvists komið út. Í blaðinu má finna fjölbreyttar greinar sem fjalla um faglegt starf safna á Íslandi. Það sem einkennir blaðið í ár eru helst vangaveltur um hlutverk safna í lýðræðisþjóðfélagi á tímum þar sem alþjóðavæðing, skautun og stríð geysa í Evrópu og víðar. Einnig er fjallað um sameiningu safna sem er á áætlun stjórnvalda og ýmsar hugmyndir hafa verið kynntar – hvaða þýðingu hefur það fyrir faglegt starf safna og að hverju skal gæta þegar sameina á söfn? Auk þess er þar fjallað um hlutverk safna innan ferðaþjónustunnar og áhugaverða könnun um viðhorf safnafólks til þessa. Sýning Listasafns Íslands og rannsóknir þeirra á fölsuðum verkum eru gerð skil í blaðinu ásamt svo mörgum öðrum áhugaverðum greinum og viðtölum.
Ritstjóri blaðsins er Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir og í ritstjórn sitja Birna María Ásgeirsdóttir, Ingibjörg Hannesardóttir, Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Þorgerður Þorleifsdóttir. Hægt er að kaupa Kvist í Bóksölu stúdenta, eða með því að hafa samband við ritstjórn.
FÍSOS gefur út safnablaðsins Kvists og hægt er að skoða eintök eldri en eins árs hér.