Árleg ferð safnaráðs fór fram í nóvember og fjögur söfn voru heimsótt á Vesturlandi. Það voru Byggðasafnið í Görðum á Akranesi, Byggðasafn Borgarfjarðar, Norska húsið – Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla og Landbúnaðarsafn Íslands. Auk ráðsmanna voru með forstöðumenn höfuðsafnanna þriggja sem sitja fundi safnaráðs stöðu sinnar vegna ásamt starfsfólki skrifstofu safnaráðs sem voru með í för.
Á Akranesi tók forstöðumaður Byggðasafnsins í Görðum, Jón Allansson á móti safnaráði í Stúkuhúsi sem er eitt af mörgum safnhúsum þar. Húsið, sem var upphaflega byggt sem hlaða og fjós um 1916, hefur þjónað margvíslegum tilgangi í gegnum árin og fær mögulega hlutverk sem kaffihús í framtíðinni. Safnaráð fékk að skoða sig um í Bátahúsi sem er endursmíði að gamalli fyrirmynd og geymir báta í safneign safnsins. Þar er einnig unnið að uppsetningu á sýningu um útgerðarsögu Akraness og nærsveita en auk þess verður þar lifandi sýning þar sem unnið verður að viðhaldi og endurgerð á bátum í safneign. Margt fróðlegt og áhugavert var að sjá á grunnsýningu safnsins þar sem sagan er rakin frá litlu sjávarþorpi á 17. öld til nútímalegs kaupstaðar með á áttunda þúsund íbúa.
Því næst lá leiðin til Borgarness þar sem Safnahús Borgarfjarðar var heimsótt. Forstöðumaður menningarmála, Þórunn Kjartansdóttir tók á móti hópnum og sagði frá viðburðarríku starfi sem þar fer fram. Safnið stendur á tímamótum þar sem miklar framkvæmdir eru framundan í húsinu og spennandi tímar framundan þar sem neðri hæð safnsins mun hýsa safnkost og nýjar sýningar líta dagsins ljós.
Safnahúsið hýsir fimm söfn; Héraðsbókasafn og -Skjalasafn, Listasafn, Náttúrugripasafn og Byggðasafn Borgarfjarðar sem var jafnframt eitt fyrst safna til að öðlast formlega viðurkenningu Safnaráðs 2013. Sama ár var grunnsýning Safnahúss opnuð Ævintýri fuglanna sem stendur enn á neðri hæð hússins. Á efri hæðinni er Hallsteinssalur þar sem settar eru upp tímabundnar sýningar, oft listsýningar en einnig byggðasýningar af ýmsum stærðum og gerðum. Þar er einnig að finna Héraðsbókasafn Borgarfjarðar.
Í Stykkishólmi heimsóttum við fyrsta og elsta tvílyfta íbúðarhús Íslands eða Norska húsið svo kallaða við Hafnargötu 5. Húsið, sem var reyst 1832 fyrir Árna Ó. Thorlacius, var byggt úr tilsniðnum viði frá Noregi. Húsið hefur þjónað mörgum í gegnum tíðina og í dag hýsir það Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla.
Í safninu er ný grunnsýning sem ber heitið Hjartastaður – Sjóndeildarhringurinn með augum ungs fólks á Snæfellsnesi frá 1900 og dregur fram sjónarhorn ungs fólks á umhverfi sitt og tengingu þess við átthagana en saga Snæfellsness blandast þar inn í enda ótalmargir utanaðkomandi þættir í sögunni sem höfðu afgerandi áhrif á líf ungmenna á tímabilinu 1900 til samtímans. Í risi er opin safngeymsla með munum frá öllu Snæfellsnesi en þar stendur til að vinna samveru- og sýningarstað fyrir yngstu gesti safnsins.
Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri var síðasti viðkomustaðurinn og þar tók safnstjóri safnsins, Ragnhildur Helga Jónsdóttir, á móti hópnum. Við fengum að leiðsögn um grunnsýning safnsins sem opnaði árið 2014 í Halldórsfjósi á Hvanneyri þar sem Landbúnaðarsafn Íslands er nú til húsa.
Sýningin er á tveimur hæðum og fjallar um vélvæðingu landbúnaðarins frá aldamótum 1900 til 1980. Á sýningunni eru fjöldi verkfæra og véla sem sýna íslenska smíði og einnig þau sem hafa átt stóran þátt í þróun landbúnaðarhátta frá 1880 og fram eftir 20. öldinni.
Safnkosturinn er að mestu í varðveislu Landbúnaðarsafnsins en einnig eru á sýningunni munir frá einstaklingum, Byggðasafni Borgarfjarðar og Þjóðminjasafni Íslands.
Safnaráð þakkar öllum þeim sem tóku svo vel á móti hópnum og veittu innsýn í fjölbreytt starf safna en jafnfræmt ræddu um spennandi framtíðaráform. Það er mikið og gott faglegt starf sem á sér stað í söfnum út um allt land. Sterk tengsl safna og samfélags var áberandi hjá þeim söfnum sem heimsótt voru, bæði í miðlun og sýningum, sem undirstrikar framlag safna til samfélagslegrar umræðu.