Ráðstefna um verndun menningarminja

Cultural Heritage and Cultural Resilience – Nordic-Baltic Conference on Civil Preparedness

Daganna 11.-12. júní sótti Safnaráð ráðstefnu í Stokkhólmi sem bar yfirskriftina Cultural Heritage and Cultural Resilience – Nordic-Baltic Conference on Civil Preparedness sem mætti þýða sem ”Menningararfleifð og menningarlegt viðnám – Norræn-Baltnesk ráðstefna um forvarnir“.

Hér má finna upptöku af fyrirlestrum og umræðum frá fyrsta deginum. 

Forvarnir og  viðbragðsáætlanir til verndunar menningarminja hafa verið í brennidepli hjá norrænum og baltneskum ráðherrum menningarmála, en þeir undirituðu viljayfirlýsingu  þann 3. maí sl.  og heita nánara samstarfi á milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna til að mæta auknum áskorunum í menningarstarfi í vegna aukinnar spennu á alþjóðvettvangi.

Haag-samningur UNESCO um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka frá 1954, er einn mikilvægasti og umfangsmesti fjölþjóðasamningur sem snýr að verndun menningarverðmæta. Þar sem Ísland hefur nú staðfest umræddan samning (sjá nánar hér) er það verkefni viðurkenndra safna á Íslandi að vinna að forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlana vegna ýmiss konar ógna, t.a.m. náttúru- og loftslagsvá.

Frá vinstri: Eric Fugeläng, Baiba Murniece, Kajsa Ravin, Cathrine Mellander Backman, Beate Strøm, Viveka Löndahl og Pirjo Hamari.  Mynd: Gabriella Ericsson (CC BY)

 

Ráðstefnan var haldin í framhaldi af viljayfirlýsingunni þar sem markmiðið var að setja meiri kraft í forvarnir og gerð viðbragðsáætlana til verndunar menningararfs og menningarminja nú sérstaklega þegar viðbúnaðarstig hafa aukist sökum spennu á alþjóðavettvangi og stríðsátaka í Evrópu. Markmið þessarar ráðstefnu var að deila þeirri reynslu sem hefur orðið til á Norðurlöndunum og Eystrasaltríkjunum og auka samstarf menningarstofnana til að standa betur vörð um menningararfleiðina. Fjölmargir sérfræðingar og fulltrúar menningarmála komu saman á ráðstefnunni til að deila þekkingu og reynslu á því sviði.

Forvarnir til verndar menningararfs

Ráðstefnugestir Mynd: Emil Schön (CC BY)

Ráðstefnan, sem stóð yfir í tvo daga, innihélt þétta dagskrá og fjölda áhugaverðra og ólíkra erinda frá ýmsum fræðimönnum og sérfræðingum á sviði forvarna  ásamt reynslusögum af söfnum og frá einstaklingum.

Susanne Thedéen, starfandi forstöðumaður Riksantikvarieämbetet (Minjastofnun Svíþjóðar) opnaði ráðstefnuna. Þar fjallaði hún um hvernig Norðurlöndin og Eystrasaltríki væru tengd, ekki síst í gegnum sameiginlega menningararfleifð okkar.

Parisa Liljestrand, menningarráðherra Svíþjóðar, flutti setningarræðuna og benti  meðal annars á viljayfirlýsinguna fyrrnefndu. Í yfirlýsingunni segir að Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin verði að efla viðbúnað vegna menningararfs og menningarstarfsemi og að miðlun þekkingar og innlendrar sérfræðiþekkinga á milli landanna sé mikilvægur liður í að efla viðbúnað. Þá árétti menningarráðherrann mikilvægi þess að vernda menningararfinn og viðhalda menningarstarfi á krísutímum, nú þegar viðbúnaðarstig hefur aukist.

Menningarfulltrúar frá Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum áttu frumkvæði að ráðstefnunni, sem var haldin á vegum Riksantikvarieämbetet (Minjastofnun Svíþjóðar) ásamt Statens kulturråd (Menningarráði Svíþjóðar), Riksantikvaren Menningarminjastofnuninni Noregs) og Museovirastio (Safna- og minjastofnun Finnlands). Ráðstefnan var haldin með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar en Svíþjóð fer með  formennsku í ráðinu í ár.

Dagskrá með fjölbreyttum áherslum

Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri Safnaráðs tekur þátt í umræðum

Dagskráin spannaði yfirgripsmikið svið  varnar og öryggismála vegna menningarminja. Fyrirlesarar og þátttakendur  komu frá Danmörku, Eistlandi, Færeyjum, Finnlandi, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum.

Til að nefna nokkur dæmi var t.m. danski fræðimaðurinn og núverandi forstöðumaður The Nordic Center for Cultural Heritage and Armed Conflict (CHAC) Norrænu miðstöðvarinnar fyrir menningararfleifð og vopnuð átök, Frederik Rosén, sem fjallaði um „Menningararfleifð og öryggi: Norðurlönd í forystu NATO“ (Cultural heritage and security: A Nordic lead in NATO) og hvernig utanríkisstefnur stjórnvalda fjalla með ólíkum hætti um mikilvægi menningarverðmæta út frá þjóðaröryggismálum.

Listakonan Lusine Djanyan, sem er einnig meðlimur hópsins Pussy Riot, hélt erindið „Einræði og menningarlegt þjóðarmorð“ og Ruth Tiidor, forstöðumaður varðveislu í Þjóðskjalasafni Eistlands, ásamt Marie Lennersand, yfirmanni öryggismála hjá sænka Þjóðskjalasafninu, fluttu erindið Civil Preparedness for achives eða „Forvarnir skjalasafna“.

Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir

Khazar Fatemi, blaða- og heimildagerðakona sem lýsti reynslu sinni og fjölskyldu sinnar á áhrifaríkan hátt þegar fjölskylda hennar sem er af kúrdískum uppruna flúði frá Íran, þar sem menning heimalands hennar spilaði ríkan þátt í að styrkja þau á flóttanum.

Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir annar forstöðumaður Tækniminjasafns Íslands hélt erindi um þann afdrifaríka  dag 18. desember 2020 þegar stór aurskriða féll í Seyðisfirði á fjölmörg hús þar á meðal á safnasvæði Tækniminjasafnsins. Í erindi sínu fjallar Elfa um það vandasama björgunarstarf sem fór fram í kjölfarið og  vinnu við endurreisn safnsins.

Hér má lesa nánar um ráðstefnuna og dagskrá hennar