Í lok síðasta árs komu út tvær nýjar handbækur, önnur í nóvember og ber heitið “Fyrirbyggjandi forvarsla textílverka” eftir Þórdísi Önnu Baldursdóttur forvörð. Í desember kom út „Handbók um sýningagerð og varðveislu safngripa“ í tveimur hlutum eftir Nathalie Jacqueminet forvörð. Bæði verkefnin fengu styrki úr aðalúthlutun safnasjóðs.
Fjölmörg söfn á Íslandi varðveita myndverk sem gerð eru úr textílefnum og eru þau margvísleg að gerð. Í inngangi handbókarinnar um fyrirbyggjandi forvörslu textílverka segir að lykilatriði sé að huga að ástandi og varðveislu verkanna áður en þau byrja að skemmast.
Þar er meðal annars fjallað um skráningu, eftirlit með ástandi, veikleika í efnum og tækni, meðhöndlun, pökkun og frágang, frystingu, hreinsun, uppsetningu, umhverfi og meðferð textíla í neyðarástandi. Tekin eru dæmi um pökkun og uppsetningu textílverka, þar sem taka þarf tillit til aðstæðna í safngeymslu og sýningarrými.
Í handbók um sýningargerð og varðveislu eftir forvörðinn Nathalie Jacqueminet er farið yfir atriði sem skipta máli í undirbúningsferli sýninga. Handbókin er í tveimur hlutum en í fyrri hlutanum er markmiðið að skoða hvernig hægt er að sýna safngripi á ábyrgan hátt og draga úr hættu á varanlegum skemmdum. Hægt er að sækja handbókina hér.
Í seinni hluta handbókarinnar er um einskonar myndasafn að ræða þar sem höfundur bókarinnar hefur tekið ljósmyndir jafnt og þétt sl. 20 ár með það í huga að nota í fræðslutilgangi til að skoða það sem vel er gert og því sem mætti betur fara eða einfaldega til innblásturs. Það er mikill fengur að þessum handbókum í safnastarfið og mun án efa nýtast fjölbreyttum hópum sem starfa með og meðhöndla safngripi vítt og breitt. Hægt er að sækja handbókina hér.
Á heimasíðu safnaráðs er að finna ógrynni af handbókum og leiðbeiningum fyrir viðurkennd söfn og fólk sem vinnur í faglegu umhverfi safna. Þar er hægt að leita sér upplýsinga um t.m. forvarnir vegna eldgoss, skordýraeftirlit í safnkosti, leiðbeiningar um skráningu svo fátt eitt sé nefnt, en allar leiðbeiningar eru aðgengilegar á heimasíðu safnaráðs eða hægt að sækja í pdf útgáfum hér.