Úthlutunarboð safnaráðs var haldið í Listasafni Íslands mánudaginn 29. apríl í kjölfar vorfundar höfuðsafna sem héldu saman sinn vorfund.
Í Úthlutunarboðinu var styrkþegum verkefnastyrkja úr safnasjóði 2019 afhent viðurkenningarskjöl og blóm en í mars síðastliðnum úthlutaði mennta- og menningarmálaráðherra að fenginni umsögn safnaráðs alls 113.850.000 kr. úr safnasjóði vegna aðalúthlutunar 2019. Auk 37 rekstrarstyrkja voru veittir 85 verkefnastyrkir alls að upphæð 84.250.000 kr. til 45 aðila.
Úthlutað var úr safnasjóði í fyrsta skipti árið 2002 og því er þetta átjánda árið sem styrkjum er veitt úr safnasjóði. Telst til að heildarúthlutun þessi 18 ár hefur verið 1.604 milljónir króna og styrkirnir samtals 1854 talsins.
Í þessi sautján ár hafa alls verið veittir 1.689 styrkir samtals, 662 rekstrarstyrkir og 1.027 verkefnastyrkir.
Áhersluatriðin í síðustu úthlutun voru
- Samstarfsverkefni, innanlands og utan
- Stafræn miðlun
- Börn og ungmenni
Er mikill samhljómur með þessum áhersluatriðum og með þeirri áherslu sem fyrsti sameiginlegi vorfundur höfuðsafnanna var með, en yfirskrift fundarins var einmitt Barnamenning. Fengust margar góðar verkefnaumsóknir sem tengdust þessum áhersluefnum og endurspeglaðist úthlutunin í því.
Óskar safnaráð styrkþegum til hamingju, sjá má styrkveitingar einstakra styrkþega hér.