
Í byrjun sumars 25. júní fór fram árlegur samráðsfundur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og fagfélaga safnastarfs í húsakynnum Safnaráðs að Austurstræti 5.
Samráðsfundur er eins til tveggja klukkutíma staðfundur sem boðaður er að jafnaði einu sinni á ári og er til þess fallinn að eiga samtal um málefni safnastarfs. Fundurinn er haldinn samkvæmt 7.gr. safnalaga nr. 141/2011 sem Safnaráð skal boða árlega með menningarráðherra og fulltrúum höfuðsafna ásamt þeim fagfélögum sem koma að starfi þeirra safna sem starfa undir safnalögum. Fyrsti samráðsfundur menningarráðherra og fagfélaga safnastarfs var haldinn í nóvember 2024 og er þetta því annar samráðsfundur.
Eftirfarandi fagfélög og stofnanir fengu fundarboð: Félag fornleifafræðinga, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag íslenskra safnafræðinga, Félag þjóðfræðinga á Íslandi, FÍSOS, Félag íslenskra safna og safnafólks, Íslandsdeild ICOM, Listasafn Íslands auk starfsmannafélags, Listfræðafélag Íslands, Námsbraut í safnafræði við Háskóla Íslands, Náttúruminjasafn Ísland auk starfsmannafélags, NKF-Ísland – Félag norrænna forvarða á Íslandi, Safnaráð, og starfsmenn þess, Sagnfræðingafélag Íslands, SÍM – Samband íslenskra myndlistamanna, Þjóðminjasafn Ísland auk starfsmannafélags.

Logi Einarsson, ráðherra, Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri, Arna Kristín Einarsdóttir, skrifstofustjóri menningar og skapandi greina, Halla Jónsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Vilhelmína Jónsdóttir og Hildur Jörundsdóttir sérfræðingar á skrifstofu menningar og skapandi greina.
Fundarstjóri var Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Safnaráðs og Klara Þórhallsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu Safnaráðs ritaði fundargerð. Fyrir hönd Safnaráðs mættu Vilhjálmur Bjarnason, formaður, Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, varaformaður, Hlynur Hallsson, Guðrún Dröfn Whitehead og Jóhanna Erla Pálmadóttir.

Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Þetta var fyrsti samráðsfundur núverandi ráðherra en annar samráðsfundur sem hefur verið haldinn. Fundurinn var með óformlegri dagskrá en ráðherra opnaði fundinn með erindi. Logi Einarsson, ráðherra hóf fundinn með erindi. Þar lýsti hann yfir ánægju að taka stöðuna á safnageiranum, eiga milliliðalaust samtal við fagfélögin og stofnanir á þessum samráðsfundi. Hann ræddi að ráðuneytið taki stefnumótandi ákvarðanir um umgjörð safnastarfs en hlutist ekki til um einstakar ákvarðanir eða verkefni stofnanna. Lítur svo á að það sé sameiginlegt keppikefli og markmið allra á fundinum að hér þrífist faglegt safnastarf og að umgjörð þess sé eins og best verður á kostið á hverjum tíma. Í erindi sínu stiklaði ráðherra á stóru á ýmsum verkefnum sem eru í vinnslu innan ráðuneytisins.