Árlegur samráðsfundur menningarráðherra og fagfélaga safnastarfs

Samkvæmt 7.gr. safnalaga nr. 141/2011 skal Safnaráð boða til samráðsfundar a.m.k. árlega með menningarráðherra og fulltrúum höfuðsafna ásamt þeim fagfélögum sem koma að starfi þeirra safna sem starfa undir safnalögum. Fyrsti samráðsfundur menningar- og viðskiptaráðherra og fagfélaga safnastarfs var haldinn þriðjudaginn 19. nóvember 2024 í húsakynnum Safnaráðs að Austurstræti 5, en Safnaráð semur reglur um fyrirkomulag samráðsfundar, þátttakendur og dagskrá sem ráðherra staðfestir.
Dagskrá samráðsfundar getur verið helgaður fyrirfram ákveðnu efni og þátttakendur hafa þá tök á að senda spurningar eða málefni til umræðu. Þessi fyrsti fundur var ekki helgaður fyrirfram ákveðnum efnistökum heldur opinn fyrir almennar umræður auk þess sem reglur um samráðsfundinn voru kynntar. Góð mæting var á fundinn og ýmis málefni rædd er varða safnastarf í landinu.

Fagfélag og stofnanir sem fengu boð á fundinn voru: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Félag íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS), Íslandsdeild ICOM, Félga fornleifafræðinga, Sagnfræðifélag Íslands, Félag þjóðfræðinga á Íslandi, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Listfræðafélag Íslands, Félag íslenskra safnafræðinga, NKF-Ísland – Félag norrænna forvarða á Íslandi, Námsbraut í safnafræði við HÍ og Samband íslenskra myndlistarmanna – SÍM.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra boðaði forföll, en fyrir hönd hennar mættu Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri menningar- og viðskiparáðuneytisins og Arna Kristín Einarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála. Fundarstjóri var Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Safnaráðs og Klara Þórhallsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu Safnaráðs ritaði fundargerð.  Fyrir hönd Safnaráðs mættu Vilhjálmur Bjarnason, formaður Safnaráðs, Helga Lára Þorsteinsdóttir og Hlynur Hallsson sem sitja í Safnaráði.

Hægt er að lesa fundargerð hér. 

Frá vinstri: Arna Kristín Einarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála og Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri menningar- og viðskiparáðuneytisins ræða við fundargesti. Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Safnaráðs var fundarstjóri.