Farskóli FÍSOS 2024 á Akureyri

Hvert er erindið? Umbreyting í safnastarfi

Farskóli safnafólks í ár bar yfirskriftina Hvert er erindið? Umbreyting í safnastarfi og fór fram dagana 2.-4. október á Akureyri. Fagráðstefna safnafólks er bæði vettvangur fyrir umræður um það sem ber hæst í safnastarfi, en líka tækifæri til endurmenntunar. Á þessum 36. Farskóla FÍSOS var þétt og fjölbreytt dagskrá í boði.

Starfsfólk safna er ávallt að leita leiða til að mæta nýjum áskorunum í síbreytilegu samfélagi og finna leiðir til að tryggja aðgengi almennings að menningararfinum. Umhverfi safna hefur tekið miklum breytingum síðastliðin ár og má þar nefna nýjan veruleika tækninnar sem er fyrirferðamikil í samtíma okkar. En í því eru líka fólgin ný tækifæri sem þarft er að skoða og skilja hvað felst í þeim nýjungum, t.d. hvernig getur gervigreind nýst í safnastarfi? Þetta var eitt af þeim umfjöllunarefnum sem var á dagskrá Farskólans að þessu sinni í þeim fjölmörgu erindum, vinnustofum, pallborði og faghópum sem boðið var upp á. Ekki má gleyma frábærri skemmtun og skoðunarferðum um söfn Akureyrar.

Aðal dagskrá Farskólans fór fram í Hofi og á meðal fyrstu erinda var Dagrún Ósk Jónsdóttir starfsmaður FÍSOS með erindið Safnasóknin – hver er sýn safnafólks. Þar fjallaði Dagrún m.a. um verkefnið Safnasóknin 2024 sem snýr að því hvernig eigi að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem fer fram á söfnum en á árinu voru haldnir fjórir vinnufundir sem fóru fram víðsvegar um landið. Safnafólki úr hverjum landshluta var boðið á fundina til skrafs og ráðagerða og þær umræður og hugmyndir sem komu fram á fundunum fór Dagrún yfir á fyrirlestri sínum og í framhaldinu var stofnaður hagsmunahópur safna.

Harpa Þórsdóttir Þjóðminjavörður

Á pallborði með safnstjórum höfuðsafnna var rætt um hlutverk höfuðsafnanna og hvert safnastarf stefnir, strax þar á eftir fór fram Aðalfundur FÍSOS.

Einn stærsti samþykkti sáttmáli heims, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, var kynntur af formanni félags Sameinuðu þjóðanna, Evu Harðardóttur og safnafólk vakið til umhugsunar um hnattræna borgaravitund. Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Safnaráðs fór yfir Aðgerðaráætlun Safnaráðs og hvernig fjölmargar aðgerðir tengjast

Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri Safnaráðs

Heimsmarkmiðunum á bæði beinan og óbeinan hátt. Sverrir Heiðar Davíðsson, hugbúnaðarverkfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur leiddi safnafólk í sannleika um gervigreind og hvað felst í þeim lausnum sem gervigreind gæti orðið fyrir safnastarf. Nýr Sarpur- tilhlaup að nýjum Sarpi nefndist fyrirlestur Ágústu Kristófersdóttur sem safnafólk býður spennt eftir að prufa og Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor í safnafræðum við HÍ velti fyrir sér hugtakinu inngildingu í erindi sínu Inngilding: Draumurinn og veruleikinn.

MOI – sjálfsmat fyrir söfn var kynnt af Klöru Þórhallsdóttur, sérfræðingi hjá Safnaráði, en um er að ræða hagnýtt verkfæri fyrir söfn til að fara í sjálfsmatsvinnu og er að finna á vef Safnaráðs. Stafræn andlitsgreining ljósmynda er ein af þeim meiriháttar tækniframförum sem söfn geta nýtt sér og Hörður Geirsson safnvörður ljósmynda á Minjasafninu á Akureyri ræddi um möguleikana þar á sviði ljósmyndasafna. Í erindinu Skýjaborgir framtíðar ræddi Þóra Sigríður Ingólfsdóttir safnstjóri Kvikmyndasafns Íslands ásamt Gunnþóru Halldórsdóttir verkefnastjóri varðveislu um safnskostinn sem er vandasamt verk að varðveita, enda spannar safnkosturinn ólík tæknitímabil í sögunni sem krefjast margvíslegarar úrlausnar. Ragnheiður Vignisdóttir sagði frá verkefninu Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi hjá Listasafni Íslands og með því fylgdi útgáfa námsefnis sem er mikilvæg brú í skólakerfið.

Spjall fundur um viðbragðsáætlanir í Listasafninu á Akureyri

Svo margt fleira áhugavert var á boðstólnum fyrir utan allar vinnustofurnar sem fóru fram víðsvegar í bænum þar sem safnafólk gat ráðið ráðum sínum um fjölmörg fagsvið safnastarfsins.

Safnaráð, ásamt Nathalie Jacqueminet og Björk Hólm, hélt vinnustofu og kynningu á viðbragðsáætlunum safna og nýútgefnum leiðbeiningum. Þar var rætt um ýmsar hliðar viðbragðsáætlanagerðar enda marglaga umræða sem kemur öllum sviðum safnastarfsins við.

Þátttakendur vinnustofunnar um viðbragðsáætlanir safna ræða málin

Söfn á Akureyri voru að sjálfsögðu heimsótt þ.á.m. Minjasafnið á Akureyri, Iðnaðarsafnið, Flugsafn Íslands, Listasafnið á Akureyri og flr. Hægt er að skoða dagskrána í heild hér.

Það er óhætt að segja að metnaðarfullur Farskóli er að baki með 17 erindum og 19 vinnustofum og þátttakendur hafi notið góðs af fjölbreyttninni og öruggt að nýjar hugmyndir hafi orðið til um hvernig söfnin geti tekist á við síbreytilegt samfélag sem þau lifa og hrærast í. Á söfnum lærum við um okkur sjálf, hvaðan við komum og úr hvaða jarðvegi við erum mótuð. Söfnin segja líka frá samtíma sínum en á sama tíma og spegla þau fortíðina, þau geta líka verið eins og kort fyrir framtíðina því söfn eru góður vettvangur til að tengja saman alla hópa samfélagsins.

Í safnaheiminum starfar áhugasamt og metnaðarfult fólk. Hópur safnafólks víðsvegar af landinu stilltu sér upp í Flugsafni Íslands