Farskóli FÍSOS er árleg ráðstefna safna og safnmanna. Þetta árið fór farskólinn fram í Hollandi þar sem tæplega 120 farskólagestir lögðu leið sína til Amsterdam daganna 10.-13. október. Ráðstefnan er skipulögð af Félagi íslenskra safna og safnafólks. Á þessum ráðstefnum er lögð rík áhersla á að veita mikilvæga starfsþróun og símenntun fyrir fagið, skapa vettvang til fræðslu-, þekkingar- og tengslamyndunar.
Dagskráin var afar vel skipulögð og voru 29 söfn heimsótt, enda af nógu að taka í safnaflórunni í Hollandi, þar af 35 málstofur og vinnustofur sem sérfræðingar á sínu sviði stýrðu umræðum og voru til viðtals. Flest safnanna voru staðsett í Amsterdam, en einnig gátu þátttakendur valið um að heimsækja Amersfoort eða Utrecht, seinni daginn var hægt að velja um að heimsækja söfn í Leiden, den Haag eða Rotterdam. Tveir aðalfyrirlesarar fluttu erindi á Rijksmuseum í Amsterdam. Það var annars vegar Harm Stevens, forvörður og sýningarstjóri í sagnfræðideild og hins vegar Annemies Broekgaarden, deildarstjóri miðlunar og fræðslu en bæði erindin voru mjög áhugaverð á sínu sviði.
Söfnin voru afar fjölbreytt, þetta voru borgarsögusöfn, listasöfn, járnbrautarsafn, klukkusafn, vísindasafn, mannfræðisafn svo nokkur séu nefnd. Einnig voru framúrstefnuleg varðveislurými skoðuð þar sem safneignir ólíkra safna eru varðveitt í húsnæðum sem eru sérstaklega hönnuð og byggð fyrir varðveislu safnminja og óhætt að segja að hafi veitt mörgum safnmönnunum innblástur.
Óhætt að segja að ráðstefnugestir hafi farið heim fullir af hagnýtum og góðum hugmyndum eftir fjölbreyttar heimsóknir og erindi sérfræðinga, og undirstrikaði hversu mikilvægt það er fyrir safnafólk á Íslandi að læra af erlendum kollegum og kynna sér starfshætti þeirra.
Árshátíð safnafólks var á sínum stað í dagskrá farskólans með tilheyrandi dans og gleði og fór fram á ráðstefnuhótelinu Mövenpick Hotel Amsterdam City Centre. Farskólastjórn á heiður skilinn fyrir vel skipulagðan og afar áhugaverðan og innihaldsríkan farskóla.