Áhrif COVID-19 eru mikil á starfsemi safna. Sem dæmi horfast söfn í augu við tekjufall vegna færri gesta, lokanir, breytingar á áætlunum, breytingu á starfshögum og jafnvel fækkun starfsfólk.
Til að gera safnaráði kleift að meta þá erfiðleika sem söfn og starfsfólk standa frammi fyrir, er safnaráð nú í samstarfi við FÍSOS, ICOM á Íslandi og höfuðsöfnin að safna upplýsingum með könnun, COVID-19 og söfn. Tilgangurinn með könnuninni er að afla upplýsinga um hvernig söfn brugðust við þessum óvæntu aðstæðum frá ýmsum sjónarhornum. Hún mun gera safnaráði og samstarfsaðilum kleift að greina hvar skórinn kreppir og afla gagna sem hjálpa þessum aðilum að leita lausna og auka stuðning við söfn, auk þess sem hægt verður að veita upplýsingum til viðeigandi hagsmunaaðila, ríkisstofnana og annarra stofnana.
Meðal annars mun safnaráð nýta þessar upplýsingar til að meta fjárþörf viðurkenndra safna sem undirbúning fyrir aukaúthlutun 2020, því er mikilvægt að sem flest söfn taki þátt.
Hvernig gögnin verða nýtt
Safnaráð er ábyrgðaraðili könnunarinnar og varðveitir öll gögn. Safnaráð nýtir allar upplýsingar úr könnuninni, en samstarfsaðilar fá aðgang að hluta könnunarinnar. Fjárhagsupplýsingar fara eingöngu til safnaráðs. FÍSOS, ICOM og höfuðsöfnin fá ekki aðgang að fjárhagsupplýsingum safnanna sem taka þátt enda er um trúnaðarupplýsingar til safnaráðs að ræða. Allar upplýsingar sem gætu flokkast sem persónugreinanlegar eru eingöngu birtar samstarfsaðilum og safnaráði sem heild, ekki flokkað á einstök söfn. Er þessi könnun gerð í fullu samráði og með samþykkt FÍSOS, ICOM og höfuðsafnanna. Einnig veittu fleiri aðilar aðstoð við gerð könnunarinnar.
Nánari upplýsingar veitir Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs, thora@safnarad.is
Niðurstöður könnunarinnar verða birtar safnmönnum á næstu vikum.