Stöðuskýrsla safnaráðs um stafræna miðlun safna í menntunarlegum tilgangi

Í takt við tímann? Stafræn miðlun safna í menntunarlegum tilgangi

Nú er komin út stöðuskýrsla safnaráðs, „Í takt við tímann? Stafræn miðlun safna í menntunarlegum tilgangi“

Síðustu mánuði hefur sérfræðihópur á vegum safnaráðs unnið að sérverkefni safnaráðs um menntunarhlutverk safna með áherslu á stafræna miðlun safna og hvernig stafræn miðlun nýtist í fræðslu, en hlutverk hópsins var að skoða hvert hlutverk stafrænnar miðlunar á söfnum væri  Safnaráð taldi þörf á að athuga stöðu þessara mála hjá viðurkenndum söfnum, m.a. vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið á þessu sviði erlendis. Umræða og mótun stefnu um notkun stafrænnar tækni í miðlun er komin lengra á veg í nágrannalöndum okkar og telur safnaráð að bæði sé mikilvægt að læra af þessari umræðu og taka þátt í henni.

Í sérfræðihópinn voru skipuð Þóra Sigurbjörnsdóttir (ritstjóri sérfræðihópsins) kennari og safnafræðingur hjá Hönnunarsafni Íslands, Dr. Anna Lísa Rúnarsdóttir sviðstjóri hjá Þjóðminjasafni Íslands, Ágústa Kristófersdóttir safnafræðingur og forstöðumaður Hafnarborgar, Tryggvi Thayer verkefnastjóri á menntavísindasviði Háskóla Íslands og Sólrún Harðardóttir kennari, tilnefnd af Náttúruminjasafni Íslands, auk Þóru Bjarkar Ólafsdóttur framkvæmdastjóra safnaráðs.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum könnunar sem send var til viðurkenndra safna í mars 2018. Farið er stuttlega yfir atriði sem hafa áhrif á stafræna safnfræðslu og miðlun safna. Þá eru lög um höfundarrétt í tengslum við myndbirtingar á netinu, staða tækninnar í grunnskólum og tengsl við aðalnámskrá skóla rædd. Einnig eru nefnd dæmi um hvernig þessum málum er háttað erlendis, t.d. á Norðurlöndum.

StafrænSkýrslaPrentútgáfa