Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands unnu að beiðni safnaráðs rannsókn á samspili safna og ferðaþjónustu á árinu og hafa nú skilað skýrslu með niðurstöðum rannsóknarinnar. Megin markmið rannsóknarinnar er að greina stöðu og hagræn áhrif menningartengdrar ferðaþjónustu, með áherslu á söfn og safntengda starfsemi, og að framkvæma viðhorfskannanir meðal hagsmunaaðila á sviði safna og ferðaþjónustu. Í skýrslunni er horft til þriggja þátta; samspil safna og ferðaþjónustu í opinberum gögnum, hagræns framlags safna og safntengdrar starfsemi og loks viðhorfa hagsmunaaðila (menningarfulltrúar, markaðsstofur, aðilar í ferðaþjónustu og söfn og safntengd starfsemi). Rannsóknin varpar ljósi á stöðu og tækifæri til frekari þróunar á sviði safnamála og ferðaþjónustu. Einnig dregur hún fram megin þætti sem eru mikilvægir við árangursríka framkvæmd á safntengdri starfsemi í tengslum við ferðaþjónustu og bendir á vöntun á þekkingu og skilningi meðal hagsmunaaðila. Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur um leiðir til frekari þróunar á samspili safna og ferðaþjónustu á komandi árum.
Megin niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að verulegur skortur er á að í opinberri stefnumótun sé litið sérstaklega til safna og safntengdrar starfsemi sem mikilvægir þátttakendur í ferðaþjónustu. Niðurstöður Hagfræðistofnunar benda til þess að umfang safnageirans hafi aukist á síðustu árum, til að mynda hefur safnagestum fjölgað um 90% frá 1996. Ríkisframlög til svokallaðra ferðamannasafna eru yfir milljarður króna á ári en hafa farið lækkandi að raunvirði á síðustu árum. Í fjórum viðhorfskönnunum sem gerðar voru meðal menningarfulltrúa, markaðsstofa, ferðaþjónustuaðila, safna og safntengdrar starfsemi kemur fram, að á sama tíma og söfn eru talin mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu, þá virðist hlutverk og staða safnanna innan greinarinnar veik. Ferðaþjónustuaðilar virðast ekki nýta fjölbreytni íslenskra safna heldur beina heimsóknum sínum til fárra aðila. Þá mega söfn bæta ýmsa þætti í starfsemi sinni til að koma betur til móts við vaxandi straum ferðafólks. Þótt undanfarin ár hafi verið unnið markvert starf í málefnum ferðaþjónustu og safna skortir grundvöll og heildræna yfirsýn þeirra aðila sem koma að samþættingu beggja málaflokka.
Rannsóknin er sérstaklega miðuð að því að gagnast eftirfarandi aðilum:
- Safnaráð
- Opinberir aðilar eins og ráðuneyti og sveitarstjórnir
- Stofnanir í ferðaþjónustu eins og Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála
- Samtök hagsmunaðila í ferðaþjónustu s.s. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Ferðamálasamtök Íslands.
- Íslandsstofa og markaðsstofur landshlutanna
- Söfn og safntengd starfsemi (safnvísar, sýningar og setur)
- Samtök á sviði menningar- og safnamála
- Aðilar í ferðaþjónustu á borð við fyrirtæki í ferðaþjónustu og leiðsögumenn
- Fræða- og menntastofnanir og nemendur
Skýrsluna má nálgast hér