Listasafn Einars Jónssonar sameinast Listasafni Íslands

Nú um áramótin voru Listasafn Einars Jónssonar og Listasafn Íslands formlega sameinuð með það að leiðarljósi að efla starfsemi og þjónustu við almenning og ná þannig betri nýtingu opinberra fjármuna. Starf safnstjóra Listasafns Einars Jónssonar var lagt niður, en tveir starfsmenn í fullu starfi færðust yfir til Listasafns Íslands auk starfsfólks í móttöku, þá fær fyrrum stjórn safnsins nýtt hlutverk við að halda utan um afsteypusjóð Listasafns Einars Jónssonar og vera Listasafni Íslands til ráðgjafar. Við sameininguna verður Listasafn Einars Jónssonar ekki lengur viðurkennt safn, heldur fellur undir Listasafn Íslands sem er höfuðsafn.

Síðastliðið ár hefur verið unnið að þessari sameiningu og hefur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið leitt þá vinnu. Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra segir:

„Það er fagnaðarefni að hið sameinaða safn geti tekið á móti fleiri gestum með því að fjölga þeim klukkustundum sem menningarverðmæti þjóðarinnar eru til sýnis. Sameiningin býður einnig upp á að forvarsla verður bætt, innviði styrkjast með sameiginlegum rekstri, kynningar- og fræðslustarf mun eflast og er í raun hafið líkt og dagskrá safnsins ber vott um. Einnig er stefnt af því að bæta aðgengi út í höggmyndagarðinn úr safninu og ná þannig enn betur til þeirra þúsunda gesta sem heimsækja garðinn á ári hverju,”.

Listasafn Einars Jónssonar / Mynd frá um 1923. — Ljósmynd/L. Albert

Safnið var gjöf Einars til íslenska ríkisins og listasafn Einars Jónssonar var vígt á Jónsmessudag 24. júní árið 1923 og átti því aldarafmæli fyrir skömmu. Safnhúsið sem heitir Hnitbjörg, var fyrsta byggingin sem var reist sérstaklega sem safnhús yfir íslenska list hér á landi. Safnhúsið er teiknað af Einari sjálfum ásamt Einari Erlendssyni húsameistara og við safnið stendur höggmyndagarður sem geymir fjölda bronsafteypa af verkum Einars.

„Það er mikill hugur í okkur að sameina þessi tvö söfn. Ég er viss um að söfnin muni bæði eflast og að myndlistin nái sterkari rödd út í samfélagið“, segir Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands.

 

Þann 6. janúar síðastliðin var þessum sameiningaráfanga fagnað og boðið var til þrettándagleði í safninu. 

„Við viljum ná betur til almennings og nemenda á öllum aldri en söfnin þurfa líka að vera spennandi kostur fyrir erlenda gesti. Með auknum stuðningi náum við að lengja opnunartíma á Listasafni Einars Jónssonar og getum þá tekið á móti fleiri gestum á safnið en á torgið fyrir framan Hallgrímskirkju koma tvær milljónir ferðamanna á hverju ári – steinsnar frá þessari þjóðargersemi sem safnið er. Verk Einars eru forvitnileg og safnið er einstakur staður sem gefur innsýn inn í annan heim” segir Ingibjörg Jóhannsdóttir.