
Forvarnir og viðbragðsáætlanir gegna lykilhlutverki við að tryggja menningararf okkar til framtíðar og því er mikilvægt að á hverju safni sé til viðbragðsáætlun sem segir til um hvernig brugðist verður við aðsteðjandi vá svo afstýra megi áföllum.
Allar menningarstofnanir eiga að undirbúa viðbragðsáætlanir við hættuástandi. Þar á meðal viðurkennd söfn á Íslandi sem eiga að vinna að forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlana fyrir hvert safn og skila til Safnaráðs.Safnaráð hefur í samstarfi við Nathalie Jacqueminet forvörð sett af stað fjarnámskeið viðurkenndum söfnum til stuðnings og ráðgjafar í þeirri vinnu.
Fyrirkomulag fjarnámskeiða 2025-26
Öllum viðurkenndum söfnum verður boðið að taka þátt í fjarnámskeiði en hvert námskeið er fjögur skipti, klukkustund í senn. Söfnum er skipt upp í hópa eftir landshlutum og í hverjum safna-hópi eru 3-8 söfn. Safnahópum er skipt upp eftir landshlutum, bæði til að söfn geti leitað stuðnings hvert hjá öðru og unnið saman að forvörnum vegna áhættu sem getur verið bundin við ákveðið landsvæði. Það mætti segja að þetta sé eins og skyndihjálparnámskeið fyrir safnkostinn, en á námskeiðinu verður farið yfir alla helstu grundvallarþætti sem viðbragðsáætlun þarf að innihalda og söfn hafa kost á að fá ráðleggingar og aðstoð frá sérfræðingi. Í lok námskeiðsins eru söfnin komin með viðbragðsáætlun og áhættumat í hendurnar, sem svo skal endurskoða og uppfæra árlega.
Hvað felst í viðbragðsáætlun?
- Upplýsingar um almannavarnarstig: Á öllum stigum viðbragðsáætlunar og við skipulagningu björgunar er ráðlagt að nota sama litakóða og Almannavarnir.
- Símboðatré: Listi yfir mikilvæga tengiliði og viðbragðsaðila t.d. hjá slökkviliði, flutningafyrirtæki, pípulagningafólki, forvörðum eða annarra sérhæfðra aðila.
- Byggingaruppdrættir af húsnæði ásamt rýmingaráætlun.
- Viðbragðsaðgerðir eftir tegund atvika.
- Listi yfir búnað og birgðir auk neyðarkistu.
- Forgangslisti og leiðbeiningar um björgun safngripa.
- Tilkynningar um tjón og upplýsingar um meðhöndlun gripa eftir tegundum atviks.
Hægt er að nálgast ýtarlegan Leiðarvísir um gerð viðbragðsáætlunar fyrir viðurkennd söfn sem Nathalie Jacqueminet hefur útbúið fyrir ábyrgðaraðila viðurkenndra safna.
Einnig er hægt að sækja sniðmát fyrir viðbragðsáætlun sem gefur góða mynd af hvernig slík áætlun eigi að líta út og hvaða upplýsingar þurfi að koma þar fram, einnig er hér gátlisti safna fyrir samskipti við viðbragðsaðila þar er að finna gagnlegar ábendingar.
Ástæðan fyrir því að kallað er eftir viðbragðsáætlunum er fyrst og fremst sú að ábyrgðaraðilar viðurkenndra safna séu í stakk búnir til að bjarga menningarverðmætum ef vá skellur á. Auk þess hefur Ísland nú staðfest Haag-samning UNESCO frá 1954 um verndun menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka sem felur í sér skuldbindingu um að allar menningarstofnanir á Íslandi og þar með talin öll viðurkennd söfn, vinni að forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlana vegna ýmiss konar ógna t.a.m. náttúru- og loftslagsvá.