RáðStefna og málþing um málefni safna

Stefnumótunarvinna í menningarmálum og styrkjaumhverfi listasafna

Í nóvember sl. fór fram bæði ráðstefna og málþing sem haldin voru í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Báðir viðburðir fjölluðu um mikilvæg málefni í safnastarfi, þar hélt Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri Safnaráðs erindi fyrir hönd Safnaráðs ásamt fjölda annarra áhugaverðra fyrirlesara. Hægt er að hlýða á upptökur af viðburðunum og finna tengla og dagskrá hér fyrir neðan, en þetta var annarsvegar  Málþing um styrkjaumhverfi listasafna á Íslandi og hinsvegar RáðStefna: Stefnumótun í menningargeiranum

Listasafn Reykjavíkur stendur reglulega fyrir ráðstefnum þar sem áhersla er lögð á að ræða fagleg málefni safna og safnafólks. Þann 14. nóvember var efnt til RáðStefnu um stefnumótun í menningargeiranum og hvernig slík stefnumótunarvinna nýtist í safnastarfi. Ráðstefnan var samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur, Borgarsögusafns Reykjavíkur, Meistaranámsbraut í menningarstjórnun Háskólans á Bifröst með stuðningi úr safnasjóði.

Tilefnið var að nýverið hafa margar menningarstofnanir endurnýjað stefnu sína með breyttum áherslum til næstu ára og ráðstefnunni ætlað að rýna þá stefnumótunarvinnu og hvernig hún nýtist í safnastarfi. Ýmsum spurningum varðandi stefnumótunarvinnu var varpað fram og umræður um hvað eigi heima í stefnu safna. Söfn greina tækifæri og áskoranir framtíðar í kviku og síbreytilegu menningarumhverfi þegar teikna á upp stefnumótun. Rýna þarf eldri stefnur og gera stöðumat á hvað hefur áunnist og horfa til margra markmiða á heildrænan hátt.

Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Safnaráðs
Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Safnaráðs

Á ráðstefnunni voru fyrirlesarar og þátttakendur frá viðurkenndum söfnum á landsvísu og fulltrúar úr menningarlífi borgarinnar, þ.á.m. Njörður Sigurjónsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Guðbrandur Benedikstsson, safnstjóri Borgarsögusafnsins, Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafns Íslands, Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands og Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Safnaráðs.

Hér má finna upptöku frá ráðstefnunni

Þann 21. nóvember fór fram Málþing um styrkjaumhverfi listasafna á Íslandi í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Verkefnið var samstarfsverkefni Listasafns ASÍ ásamt Samtökum listasafna á Íslandi með stuðningi úr safnasjóði. Markmiðið var að kortleggja styrkjakerfin sem standa íslenskum listasöfnum til boða og bera saman við nágrannaríki. Viðurkennd listasöfn á Íslandi eru 14 auk Listasafns Íslands sem er höfuðsafn, en það er á fjárlögum ríkisisn og getur t.m. ekki sótt um ríkisstyrki á sama hátt og hin söfnin. Listasöfnin eru afar ólík að gerð og stærð, sum í eigu sveitafélaga og önnur eru sjálfseignarstofnanir, sum þeirra eru aðeins með einn sýningarsal og einn starfsmann en önnur með fjölmennara starfsfólk og marga sýningasali í jafnvel nokkrum byggingum. Því getur verið mikill aðstöðumunur í starfsemi listasafna og var máþinginu ætlað að vera vettvangur til að ræða það á breiðum grunni, hvað hefur tekist vel en hverju mætti hugsanlega breyta eða bæta.

Dagskráin byggðist upp af stuttum örerindum þar sem ólík sjónarmið mismunandi félaga og hagsmunaaðila voru dregin fram og svo lengri framsögum sem veittu innsýn í styrkjaumhverfi nágrannalanda, að endingu fóru fram pallborðsumræður. Fundarstjóri var Erling Jóhannesson en opnunarávarp hélt menningarráðherra, Lilja Alfreðsdóttir og einnig formaður Samtaka listasafna á Íslandi, Aldís Arnardóttir. Fjölmörg örerindi voru flutt, m.a. frá Landshlutasamtökum – Sigursteinn Sigurðsson, Reykjavíkurborg – Arnfríður S. Valdimarsdóttir, SÍM – Sambandi íslenskra myndlistarmanna – Hlynur Helgason, Ísafjarðarbæ – Gylfi Ólafsson, Myndlistarráði – Ásdís Spanó, Listasöfnunum – Helga Þórsdóttir, Safnaráði – Þóra Björk Ólafsdóttir, Menningarmálaráðuneytinu – Hildur Jörundsdóttir, einkageiranum – Börkur Arnarson og Myndlistarmiðstöð – Auður Jörundsdóttir. Nánar um dagskrá málþingsins er að finna hér.

Hér má finna upptöku af málþinginu.