Forvarnir og viðbragðsáætlanir til verndunar menningarminja hafa verið í brennidepli hjá safnaráði undanfarið. Þar sem Ísland hefur nú staðfest Haag-samning UNESCO frá 1954 um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka felur það í sér skuldbindingu um að öll viðurkennd söfn á Íslandi vinni að forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlana vegna ýmiss konar ógna t.a.m. náttúru- og loftslagsvá.
Safnaráð í samstarfi við Nathalie Jacqueminet forvörð hefur sett af stað fjarnámskeið fyrir söfn til að vera þeim til aðstoðar og ráðgjafar við gerð viðbragðsáætlana. Nú hefur Nathalie unnið leiðarvísi sem hefur það markmið að hjálpa ábyrgðaraðilum viðurkenndra safna að vera í stakk búin að bjarga menningarverðmætum þegar vá skellur á. Neyðarástand getur skapast við mismunandi aðstæður og hafa þær mikil áhrif á viðbragðsaðgerðirnar sem grípa skal til. Atvikið getur átt sér stað við alls konar aðstæður, um miðja nótt, um hávetur, í slæmu veðri eða yfir hátíðir.
Tekið skal fram að leiðarvísirinn fjallar ekki um öryggi fólks, sem á alltaf að vera í forgangi, og öll söfn eiga að hafa öryggishandbók með rýmingaráætlun þar sem lýst er hvernig á að bregðast við hættuástandi eða vá og bjarga fólki úr safninu ef til þess kemur.
Leiðarvísir-viðbragðsáætlun-söfn-skjal1-01-10-2024