Alþjóðasamtökin Blái skjöldurinn

Ársþings og ráðstefna í Rúmeníu 9-12 september 2024

Safnaráð sótti ársþing og ráðstefnu alþjóðasamtaka Bláa skjaldarins daganna 9.-12. september sl. Ráðstefnan var haldin í Búkarest í Rúmeníu í samstarfi við Minjastofnun Rúmeníu (the Romanian National Institute for Heritage) en yfirskrift hennar var Shielding the Past: 70 years of the Hague Convention í tilefni af 70 ára afmæli Haag-samnings UNESCO frá 1954 um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka.

Alþjóðasamtök Bláa skjaldarins eiga rætur sínar að rekja til Haag-sáttmálans frá 1954 en það eru alþjóðasamtök safna (ICOM), menningarminjastaða (ICOMOS), skjalasafna (ICA) og bókasafna (IFLA) sem komu að stofnun Bláa skjaldarins 1996. Um er að ræða frjáls félagasamtök sem vinna að verndun menningararfs sem er í hættu vegna náttúruhamfara og stríðsátaka. Samtökin samanstanda af landsnefndum og svo alþjóðlegri stjórn sem er kosin af öllum landsnefndum.

Landsnefndir Bláa skjaldarins eru víða um heim og eru nú starfandi 34 nefndir í jafnmörgum löndum og þar fyrir utan eru 9 landsnefndir í undirbúningi. Á Íslandi var landsnefnd Bláa skjaldarins stofnuð 2014 á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október. Helstu markmið með stofnun félagsins, er að auka fagþekkingu þeirra sem starfa á menningarstofnunum, um vernd menningararfsins með tilliti til þeirra vár sem kann að steðja að honum, en þar má nefna fjölmargar náttúruvár eins og aurskriður, flóð, jarðskjálfta og öskufall vegna eldgosa sem dæmi. Allt eru þetta vágestir sem þekkjast vel hér á landi og því er mikilvægt að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum til verndunar menningarminja.

Á þessu afmælisári Haag-sáttmálans frá 1954 var áhersla lögð á þessari ráðstefnu á uppbyggingu Bláa skjaldarins í austurhluta Evrópu og hvetja til stofnunar nýrra nefnda og skapa þeim tækifæri og vettvang til að læra af hvor annarri. Formaður alþjóðasamtaka Bláa skjaldarins, Peter Stone, opnaði ráðstefnuna og ræddi um mikilvægi menningarminja og gildi þeirra fyrir samfélög. Hann sagði að menningarverðmæti veiti áþreifanlegar og óáþreifanlegar tengingar við fortíðina sem eru mikilvægar til að skapa vitund fyrir bæði einstaklinga og sjálfsmynd samfélaga, en líka þörfina fyrir að tilheyra auk vellíðunar og reisnar. Fyrst og fremst skal þó ávallt vernda fólk fyrst, en engu að síður eru menningarverðmæti samofin velferð fólks og eru samfélögum mikilvæg og því afar brýnt að þau séu vernduð.

Heiðar Lind Hansson, fagstjóri Þjóðskjalasafnsins og formaður Bláa skjaldarins á Íslandi

Heiðar Lind Hansson, fagstjóri gagnaskila og eftirlits Þjóðskjalasafnsins og formaður Bláa skjaldarins á Íslandi sagði frá starfsemi landsdeildarinnar á Íslandi og hvaða áherslur og verkefni væru framundan. Í öðru erindi fjallaði Heiðar um viðbrögð Þjóðskjalasafnsins vegna eldsumbrota á Reykjanesi og björgunaraðgerðum í Grindavík, þegar starfsmenn Þjóðskjalasafnsins björguðu skjalasafni sveitarfélagsins. Björgunin gekk vonum framar þrátt fyrir að engar viðbragðsáætlanir væru til staðar, en nú eru viðbragðsáætlanir í undirbúningi hjá Þjóðskjalasafninu sem og öðrum menningarstofnunum á Íslandi.

Merki Bláa skjaldarins

Landsnefndir víða um heim voru með stuttar kynningar þar sem fjallað var um formið á starfseminni í hverju landi fyrir sig og hvað væri á döfinni. Einnig sögðu landsnefndir frá þeim menningarverðmætum, bæði áþreifanlegum og óáþreifanlegum, sem eru í sínu landi og hvort menningarverðmætin séu merkt með skildi Bláa skjaldarins eða hvort þau séu sérstaklega vernduð af Haag-sáttmálanum frá 1954.

Vinnuhópur í Mogosoaia höllinni

Á ráðstefnunni var einnig heilsdags vinnustofa í Mogosoaia höllinni, þar sem meginmarkmiðið var að skoða hvernig mætti útfæra og framkvæma inntak sáttmálans, með sérstakri áherslu á að gera áhættumat ef til átaka kæmi. Farið var í einskonar hlutverkaleik þar sem ítarlegt handrit var lagt fyrir hópinn og úrvinnsla fór fram í hópavinnu á svæðinu sem var kynnt í lok dags. Hóparnir áttu að ræða og skoða t.d. hvaða menningarverðmæti væru á staðnum, hvaða minjar eru mikilvægar fyrir staðinn og fyrir hverjum eru þær mikilvægar auk þess að gera áhættumat með tilliti til starfsfólks. Því næst var staðurinn grandlega skoðaður og velt vöngum yfir hversu flókið það yrði að vernda svæðið út frá áhættumati, og hvaða hópar myndu gegna því hlutverki, svo fátt eitt sé nefnt. Þarna urðu til líflegar umræður og vangaveltur, sem var góð æfing í að hugsa um viðbragðsáætlanir út frá mismunandi sjónarhornum.

Ráðstefnunni lauk með framlagi mismunandi landsnefnda þar sem landsnefndir frá Bandaríkjunum, Svíðþjóð, Belgíu, Þýskalandi og Frakklandi komu saman í pallborðsumræðum og ræddu um hvernig nýjar landsnefndir gætu fótað sig í félagskipan og vinnubrögðum, út frá reynslu í sínum landsnefndum.

Hér má sjá frekari upplýsingar og myndir frá ráðstefnunni.