Í september fór safnaráð í sína árlegu haustferð og heimsótti Byggðasafnið í Skógum og Sagnheima, náttúru-, og byggðasafn Vestmannaeyja auk annarra safna og sýninga. Hópurinn samanstóð af safnaráði sjálfu, forstöðumönnum höfuðsafnanna auk starfsfólk safnaráðs.
Í Byggðasafninu í Skógum tók forstöðumaður safnsins, Andri Guðmundsson á móti safnaráði og leiddi í gegnum sögu og sýningar safnsins. Byggðasafnið varðveitir og sýnir menningararf Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga en þar kennir ýmissa grasa.
Í sjósóknardeild, er áhugavert gripasafn sem tengist sunnlenskri sjósókn. Eitt af höfuðprýðum safnsins er áttæringurinn Pétursey, byggður 1855 og var í notkun allt til ársins 1946, báturinn er sérstaklega smíðaður fyrir brimlendingar á sandfjörum Suðurlands.
Húsaþorpið er útisýningarsvæði með fjölbreyttum húsakosti fyrri ára, allt frá torfbæjum, kirkju og dæmigerðri skólabyggingu frá upphafi 20. aldar. Einnig var kíkt á bak við tjöldin sem er ekki síður áhugavert fyrir safnafólk að skoða varðveislurými stór og smá.
Því næst var haldið í Herjólf og siglt til Vestmannaeyja þar sem tekið var vel á móti hópnum. Safnaráð heimsótti Sagnheima/Safnahús Vestmannaeyja þar sem Sigurhanna Friðþórsdóttir safnstjóri Sagnheima leiddi okkur um sýningar safnsins ásamt Kára Bjarnasyni forstöðumanni Safnahússins.
Varðveisluhús Sagnheima var einnig skoðað og framtíðarplön safnsins rædd, að auki var fékk hópurinn leiðsögn með Kára Bjarnasyni um Skansann, stafkirkjuna og Landlyst.
Hópurinn skoðaði sig um í gestastofu SeaLife Trust/ Sæheima þar sem munir frá gamla náttúrugripasafninu eru til sýnis. Þar mátti einnig finna heimkynni mjaldra og annarra fiska auk griðastað fyrir slasaða lunda, þar sem lundastofn Vestmannaeyja er til rannsóknar. Að lokum heimsóttum við Eldheima áður en hópurinn hélt af stað í Herjólf og heim á leið.