Samningur Myndstefs og safna um myndbirtingu höfundavarinna verka

Vinnuhópur á vegum Listasafns Íslands hefur ásamt Myndstefi, höfundaréttarsamtökum myndhöfunda unnið að gerð samnings um myndbirtingu höfundaréttarvarinna verka úr safnkosti viðurkenndra safna og ríkissafna. Við undirritun hans munu söfn fá leyfi til að birta ljósmyndir á veflægri safnmunaskrá af safnkosti í höfundarétti. Með þessu stóreykst aðgengi almennings og skóla að upplýsingum úr safnmunaskrám. Fimmtudaginn 20. desember síðastliðinn undirrituðu Listasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands undir fyrstu samninga við Myndstef um birtingu höfundaréttarvarins efnis að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Aðgengi skóla og almennings að upplýsingum úr safnmunaskrám listasafna á netinu hefur til þessa nær eingöngu einskorðast við textaupplýsingar en nú er mögulegt að birta ljósmynd af verkum (stafræn birting) ásamt textaupplýsingum. Með þessum nýja samningi verður því íslensk sjónlist gerð mun aðgengilegri til kennslu og fyrir almenning.

Samningurinn er saminn með allar gerðir viðurkenndra safna í huga því almennt heyrir alltaf einhver hluti safnkosts undir höfundarétt eins og tiltekinn er í höfundalögum nr. 73/1972. Öll söfn sem hafa öðlast viðurkenningu safnaráðs eða eru í eigu íslenska ríkisins og starfa eftir lögum geta gengið til samninga við Myndstef. Viðkomandi safn greiðir árlegt gjald til Myndstefs og skuldbindur sig til að gæta sæmdarréttar við skráningar og merkingar samkvæmt lögum um höfundarétt. Óheimilt verður að nota ljósmyndir sem birtast úr safnmunaskránum af höfundaréttarvörðu efni í fjárhagslegu skyni. Myndir eru vatnsmerktar en nú sem áður, þarf að hafa samband við viðkomandi safn og kaupa leyfi til slíkra nota og greiða höfundarétt af notkun í samræmi við samninga.

Í vinnuhópnum sátu Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands, Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs, Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar og Ragnar Th. Sigurðsson formaður Myndstefs.

Safnmunir Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands eru skráðir á www.sarpur.is

Myndir eru af vef Myndstefs, sjá: https://myndstef.is/safnasamningar-undirritadir/