Íslensku safnaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum s.l. sunnudag og var það Menningarmiðstöð Þingeyinga sem hlaut verðlaunin fyrir nýja grunnsýningu í Safnahúsinu á Húsavík.
Í umsögn valnefndar segir:
Uppsetning sýningarinnar er þaulhugsuð og aðlaðandi. Sýningarrýmið er haganlega nýtt þannig að sýningargripir og textar vekja forvitni gesta. Sérkennum svæðisins og náttúrunýtingu eru gerð góð skil og á textaspjöldum eru frásagnir heimafólks sem gefa trúverðuga mynd og bregða ljósi á sögu svæðisins á tímabilinu 1850-1950. Að baki sýningarinnar liggur hugmyndavinna hóps einstaklinga sem koma úr ýmsum áttum og leggja til verkefnisins reynslu á sviði ólíkra fræðigreina, lista og hönnunar. Sú vinna skilaði sér í fjölbreyttri og ferskri nálgun og fleiri sjónarhornum en oft sjást í sýningum af þessum toga.
Það er mat dómnefndar að með sýningunni Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum sé sleginn nýr og hressilegur tónn í sýningargerð safna. Um leið og hefðbundnir rammar hafa verið víkkaðir út þá byggir sýningin á traustum grunni sem hefur myndast fyrir tilstuðlan ötuls söfnunarstarfs í rúm sextíu ár.