Fundargerð 89. fundar safnaráðs
10. desember 2009, kl. 15:00 – 17:00, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Jenný Lind Egilsdóttir, Guðný Dóra Gestsdóttir, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir, Rakel Halldórsdóttir.

1. Fundargerð 88. funda var samþykkt og undirrituð.
2. Skýrsla framkvæmdastjóra.
Nýtt safnaráð skipað. Nýtt safnaráð hefur verið skipað. Skipunartíminn er frá 25. nóvember 2009 til 1. nóvember 2013. Áfram sitja í ráðinu, skv. safnalögum nr. 106/2001, forstöðumenn höfuðsafna, en skipan fulltrúa hagsmunasamtaka er breytt. Jenný Lind Egilsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Borgarbyggð, kemur inn fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og Guðný Dóra Gestsdóttir, safnstjóri á Gljúfrasteini – húsi skáldsins og formaður Félags íslenskra safna og safnmanna kemur inn fyrir félagið. Fráfarandi aðalfulltrúar í safnaráði, Sveinn Kristinsson f.h. Samband íslenskra sveitarfélaga og AlmaDís Kristinsdóttir, f.h. Félag íslenskra safna og safnmanna, voru boðaðir á þennan fund. Ályktanir safnaráðs frá síðasta fundi. Fjallað var um ályktanir frá síðasta fundi, sem sendar hafa verið. (Sjá meðf.) Um er að ræða ályktun vegna umhverfisspjalla við Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og ályktun til þingmanna þar sem safnaráð tekur undir álit Ríkisendurskoðunar um að ríkisfjárveitingar til safna verði í meira mæli beint í faglegan farveg, svo sem safnasjóð. Álit þessi koma fram í skýrslunni ?Íslensk muna- og minjasöfn. Meðferð og nýting á ríkisfé.? sem Ríkisendurskoðun sendi Alþingi í maí á þessu ári. Teigarhorns stuldurinn. Farið var yfir málið. HT mun, f.h. Náttúruminjasafns Íslands, kynna sér málið nánar.  Hugsanlegt rán menningarverðmæta úr skipsflaki Pourquoi Pas? Fjallað var stuttlega um málið. Safn Böðvars Kvaran. Þjóðminjavörður hefur svarað fyrirspurn varðandi safn Böðvars Kvaran. Listaverkaeign ríkisbankanna. Samþykkt var að óska eftir áliti Listasafns Íslands á málinu. Safnastefna á sviði þjóðminjavörslu. Þjóðminjasafns Íslands með aðstoð safnaráðs stendur um þessar mundir að samráðsfundum safna um endurskoðun safnastefnu á sviði þjóðminjavörslu. Hafa fundirnir vakið jákvæð viðbrögð safnmanna og fjölmargar gagnlegar athugsemdir og ábendingar komið fram. Gagnavarslan- varðveislusetur fyrir söfn. Formaður og frkv.st.j. áttu fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins Gagnavörslunnar sem kynntu hugmyndir sínar um að koma á fót varðveislusetrum fyrir söfn um landið. Námskeið um rafræna meðferð stjórnsýslumála. Frkv.stj. sótti námskeið um rafræna meðferð stjórnsýslumála á vegum Endurmenntunarstofnunar HÍ, Stofnunar stjórnsýslufræða og forsætisráðuneytisins. Umsóknir í safnasjóð 2010. Fjölmargar umsóknir hafa borist. Enn eru uppi  vandkvæði sem tengjast nýtingu nýs, rafræns umsóknareyðublaðs safnaráðs vegna umsókna í safnasjóð. Ráðstefnan Nýsköpun og skapandi vinna í höndum ungs fólks 2. -4. desember. Ráðstefnan gekk vel. Frkv.stj. stýrði fundi v. erinda safna um safnamál þann 2. desember á ráðstefnunni. Listasafn  Íslands undirbjó sérstakan viðburð vegna heimsóknar ráðstefnugesta á safnið þann 3. desember sem hluta af dagskrá ráðstefnunnar. Samvinna við tollstjóraembættið. Frkv.stj. hefur átt í viðræðum við Tollstjóraembættið um samvinnu um framkvæmd laga nr. 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Tollstjóraembættið vinnur að gerð verklagsreglna hvað varðar útflutning menningarverðmæta og stefnt er að því að gera samstarfssamning milli stofnananna fljótlega á næesta ári. Flutningur skrifstofu safnaráðs. Stefnt er að því að flytja skrifstofu safnaráðs í Setberg, skrifstofuhúsnæði Þjóðminjasafns Íslands, strax eftir áramót.

3. Úthlutunarreglur safnasjóðs – endurskoðun. Farið var yfir athugasemdir við úthlutunarreglurnar. Verða þær staðfestar með tölvupósti.

4. Dreifimiði vegna útflutnings menningarverðmæta. Farið var yfir nýja tillögu hönnuðar, í samræmi við aths. ráðsmanna frá síðasta fundi.  Gerðar voru nokkrar athugasemdir við orðalag á miðanum en hönnunin samþykkt. Samþykkt var að gefa miðann einnig út á ensku. Frkv.stj .var falið að vinna verkefnið áfram.

5. Fjölmiðlavöktun safnamála. Samþykkt var á 88. fundi ráðsins að leggjast í verkefnið. Farið var yfir tilboð um fjölmiðlavöktun í prentmiðlum og ljósvakamiðlum. Samþykkt var að skoða ákveða þætti tilboðsins nánar.. Fjölmiðlavöktun verður greidd af safnaráði og í boði fyrir þau söfn sem skráð eru á upplýsingasíðu safnaráðs um safnastarf í landinu www.safnarad.is/safnastarf.

6. Samræmd safngestakönnun. Skv. fyrri ákvörðun safnaráðs hefur frkv.stj. sett á fót starfshóp um verkefni tengt samræmdri safngestakönnun safna um landið, byggt á fyrirmynd frá Kulturarvsstyrelsen í Danmörku. Starfshópurinn hefur leitað tilboðs í rafræna könnun hjá fyrirtækinu Outcome.is. Farið var yfir tilboðið og samþykkt að taka því með fyrirvara um smávægilegar breytingar. Frkv.stj. var falið að vinna málið áfram.

7. Kirkjugler úr Coventry-kirkju. Í frh. af samþykktri fyrirspurn safnaráðs frá síðasta fundi hafa upplýsingar borist frá Sigurði Jónssyni, sóknarpresti í Áskirkju, varðandi lausagler úr Coventry-kirkju sem varðveitt er í Áskirkju. Varðveitt eru tvö lausagler frá Coventry í kirkjunni en fyrirhugað er að setja annað upp í safnaðarsal kirkjunnar. Eitt lausagler er ekki áformað að nýta. Samþykkt var að leita álits fagstjóra munasafns Þjóðminjasafns Íslands á því hvort ástæða væri til að tryggja varðveita glerið á Þjóðminjasafninu, þó þannig að Áskirkja hafi tryggt aðgengi að gripnum.

8. Höfundarréttarmál safna – 1) Drög að frumvarpi til breytinga á höfundalögum. 2) Samningur HÍ við Fjölís. Málinu var frestað til næsta fundar.

9. Umsókn Ágústu Edwald um útflutning menningarverðmæta úr fornleifauppgrefti á Hornbrekku, Höfðaströnd. Safnaráði barst umsókn frá Ágústu Edwald þar sem óskað er leyfis til útflutnings menningarverðmæta úr fornleifauppgrefti á Hornbrekku, Höfðaströnd. Umsagna hefur verið óskað frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins. Fornleifavernd gerði ekki athugasemdir við útflutning. Þjóðminjasafn Íslands taldi rétt að gripirnir væru forskráðir á safn áður en til útflutnings komi, til að tryggja eftirlit. Umsækjanda var tilkynnt um athugasemdir Þjóðminjasafns. Málið var borið undir mennta- og menningarmálaráðuneyti sem taldi eðlilegt að gripirnir verði forskráðir til að tryggja eftirlit, séu fordæmi fyrir slíku. Þjóðminjasafn Íslands ákvarðar skráningu gripanna. Gripirnir hafa verið forskráðir á safn og leyfi hefur verið gefið út.

10. Umsókn um útflutning beinasýna úr fornleifauppgrefti í Reykholti, Borgarfirði, í rannsóknarskyni. Safnaráði barst umsókn frá Guðrúnu Sveinbjarnardóttur um útflutning tveggja beinasýna úr fornleifauppgrefti í Reykholti, Borgarfirði, í rannsóknarskyni. Óskað var eftir umsögnum frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins. Umsagnir án athugasemda hafa borist. Leyfi hefur verið afgreitt.

11. Umsókn Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um framlengingu á leyfi til útflutnings textílleifa í rannsóknarskyni. Safnaráði barst umsókn frá Guðrúnu Sveinbjarnardóttur þar sem óskað er framlengingar á leyfi til tímabundins útflutnings textílleifa úr fornleifauppgrefti í Reykholti, í rannsóknarskyni. Umsagna var óskað frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisns. Umsagnir hafa borist og ekki eru gerðar athugasemdir við framlengingu. Framlengt leyfi hefur verið afgreitt.

12. Umsókn Íslandsbanka um leyf til tímabundins útflutnings verks eftir Guðmund frá Miðdal á sýningu erlendis. Safnaráði barst umsókn frá Íslandsbanka þar sem óskað er leyfis til tímabundins útflutnings verks eftir Guðmund frá Miðdal á sýningu erlendis. Umsagnar var óskað frá Listasafni Íslands. Leyfi verður afgreitt þegar umsögn hefur borist, séu ekki gerðar athugasemdir við útflutninginn. Safnaráð samþykkti að gert yrði sérstakt eyðublað fyrir umsagnir höfuðsafna, merkt safnaráði, vegna fjölda slíkra umsagna.

13. Umsókn Fornleifastofnunar Íslands um tímabundinn útflutning menningarverðmæta til forvörslu erlendis. Safnaráði barst umsókn frá Guðrúnu Öldu Gísladóttur hjá Fornleifastofnun Íslands þar sem óskað er leyfis til tímabundins útflutnings menningarverðmæta úr fjórum fornleifauppgröftum Fornleifastofnunar til forvörslu erlendis. Umsagna var óskað frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins. Þjóðminjasafn Íslands gerði athugasemdir við útflutning og taldi umrædda gripi vera afar merka og suma þess eðlis að þeir ættu varla sína líka á íslenskum söfnum. Af þeim sökum og með tilliti til öryggis telur safnið eðlilegra að gripirnir verði forvarðir á Íslandi, þar sem slík aðstaða er fyrir hendi og býður fram aðstöðu Þjóðminjasafns samkvæmt nánara samkomulagi. Í ljósi umsagnar Þjóðminjasafns og mikilvægis gripanna samþykkti safnaráð að hafna beiðni um útflutning og mælast til þess að gripirnir yrðu forvarðir á Íslandi.

14. Umsókn eiganda Möðruvallakirkju í Eyjafjarðarsveit um útflutning altaristöflu kirkjunnar. Safnaráði barst afrit af bréfi lögmanns eiganda Möðruvallakirkju til Fornleifaverndar ríkisins, dags. 18. nóvember 2009. Í bréfinu kemur fram að í frh. af bréfi safnaráðs til menntamálaráðuneytis dags. 14. maí 2009, þar sem safnaráð stöðvaði útflutning altaristöflu kirkjunnar tímabundið með vísan til heimildar í 4. gr. laga nr. 105/2001, svaraði ráðuneytið með bréfi til safnaráðs dags. 20. júlí. Ljóst er að það bréf hefur aldrei borist safnaráði af óljósum ástæðum. Í umræddu bréfi ráðuneytisins kemur fram að það er lagt í hendur safnaráðs að taka beiðni um útflutning altaristöflunnar til meðferðar og úrlausnar. Safnaráð fjallaði um málið og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að heimila útflutning altaristöflunnar. Er sú niðurstaða byggð á umsögnum sérfræðinga um altarisbríkina, sem telja hana vera einstaka og hafa ótvítrætt gildi fyrir íslenska listasögu, þjóðmenningu og kirkju. Þá telur safnaráð ljóst að friðlýsing alstarisbríkurinnar sé þegar fyrir hendi, eins og fram hefur komið eftir athugun og er staðfest í í bréfi Fornleifaverndar og þjóðminjavaröar til lögmanns eiganda Möðruvalla, dags. 15. júlí 2009. Samþykkt var að heimila ekki útflutning altarisbríkurinnar, með vísan til heimildar í 4. gr. laga nr. 105/2001.

15. Næsti fundur og önnur mál. Boðað verður til næsta fundar á nýju ári. Frkv.stj. mun gera tillögu að fundaráætlun ársins 2010. Samþykkt var að færa fundartímann í hádegið (kl. 12-14) á fimmtudögum.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH

__________

(Sent með tölvupósti 4. desember 2009).

Ályktun safnaráðs vegna jarðrasks og spjalla í Laugarnesi, í nánasta umhverfi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar.

Á fundi safnaráðs þann 29. október sl. fjallaði safnaráð um málefni Listasafns Sigurjóns Ólafssonar hvað varðar spjöll og jarðrask í nánasta umhverfi safnsins í Laugarnesi. Safnaráð ályktaði einnig um málið á fundi ráðsins þann 15. júní sl. og kom þá fram að ráðið telur áríðandi að Reykjavíkurborg og allir hlutaðeigandi fagaðilar stöðvi spjöll, ekki síst rask á fornminjum, sem unnin hafa verið í nágrenni við Laugarnestanga 65 (Listasafn Sigurjóns Ólafssonar) og stuðli að endurheimt fyrri ásýndar svæðisins sem fyrst. Þá kom fram að ráðið telur mikilvægt að farið verði að tillögu Fornleifaverndar ríkisins um að gerð verði verndaráætlun fyrir Laugarnes, þar sem samhengi náttúru- og fornminja, sem og listræns gildis svæðisins verður virt og verndun mörkuð til framtíðar.

Safnaráð ítrekar ofangreint álit sitt og bendir jafnframt á að verði óeðlilega miklar tafir á afgreiðslu hlutaðeigandi fagaðila á málinu, megi vísa því til umfjöllunar hjá Umboðsmanni Alþingis.

Virðingarfyllst,
f.h. safnaráðs,

Margrét Hallgrímsdóttir,
formaður safnaráðs og þjóðminjavörður

Rakel Halldórsdóttir,
framkvæmdastjóri safnaráðs

Sent:
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkurborgar
Guðný Gerður Gunnarsdóttir, borgarminjavörður Reykjavík
Eiríkur Þorláksson, sérfræðingur, mennta- og menningarmálaráðuneyti
Ellý Katrín Guðmundsdóttir, staðgengill sviðstjóra framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins
Birgitta Spur, forstöðumaður Listasafns Sigurjóns Ólafssonar