Fundargerð 84. fundar safnaráðs
27. ágúst 2009, kl. 15:00 – 17:00, Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands
Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, AlmaDís Kristinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.1. Fundargerðir 82. og 83. fundar voru samþykktar og undirritaðar.
2. Skýrsla framkvæmdastjóra.
Ályktun safnaráðs vegna spjalla á menningarlandslagi og nánasta umhverfi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, Laugarnestanga. Farið var yfir málið. Umsögn safnaráðs um nýja gjaldskrá Myndstefs vegna höfundarréttar myndverka. Farið var yfir málið. Auglýst eftir styrkjum í safnasjóð 2010. Safnaráð auglýsti eftir styrkjum í safnasjóð 2010 í júní sl. Auglýst var í helstu fjölmiðlum, Lögbirtingarblaðinu, Sveitarstjórnartíðindum, á vefsíðu safnaráðs og póstlista safnmanna. Í samræmi við ákvörðun 82. safnaráðsfundar, 15. júní sl. kom fram í auglýsingu að aukin áhersla yrði á verkefnastyrki á árinu 2010 á kostnað rekstrarstyrkja. Jafnframt kom fram í auglýsingu, í samræmi við ákvörðun ráðsins, að til að eiga kost á rekstrarstyrk úr safnasjóði skuli rekstrargrundvöllur safns vera tryggður. Styrkir 2009 -umbeðnar upplýsingar. Tvö söfn hafa ekki skilað inn umbeðnum upplýsingum vegna afgreiðslu rekstrarstyrks úr safnasjóði. Íslenski safnadagurinn 2009, sunnudaginn 12. júlí. Kynning íslenska safnadagsins var í höndum safnaráðs eins og undanfarin ár. Kynningin var með hefðbundnum hætti. Söfn stóðu sameiginlega að opnu-auglýsingu um dagskrá safna á safnadaginn, í Morgunblaðinu daginn fyrir safnadaginn. Þá auglýsti safnaráð safnadaginn með lesnum tilkynningum í útvarpi. Einnig var fjallað um daginn í fjölmiðlum (dagbl./útvarp). Varðveisla og öryggi safngripa á landsvísu – samráðsverkefni. Í samræmi við ákvörðun safnaráðs hefur frkv.stj. kallað saman starfshóp sem halda mun utan um samráðsverkefni um úttekt og stefnu hvað varðar varðveisluhúsnæði og aðstöðu safna til varðveislu. Samræmd safngestakönnun – samráðsverkefni. Í samræmi við ákvörðun safnaráðs hefur frkv.stj. kallað saman starfshóp sem halda mun utan um samráðsverkefni um samræmda safngestakönnun á íslenskum söfnum. Ráðstefnan Nýsköpun og skapandi vinna í höndum ungs fólks, 2.-4. desember n.k. Rósa Gunnarsdóttir, menntasviði menntamálaráðuneytis óskaði eftir samstarfi safnaráðs um skipulag og framkvæmd erinda safna á ráðstefnunni sem haldin verður á vegum menntamálaráðuneytis í tilefni af ári nýsköpunar. Að líkindum munu fjögur söfn flytja erindi á ráðstefnunni tengt útfærslu á stefnu safnaráðs um menntunarhlutverk safna, sem gefin var út 2007 af ráðinu. Dreifimiði fyrir inn- og útflutning menningarverðmæta.Dreifimiðinn er í vinnslu, hönnuður vinnur enn að hönnun miðans. Farskóli félags íslenskra safna og safnmanna 2009, 16.-18. september n.k. Frkv.stj. hefur verið beðinn um að flytja erindi um breyttar áherslur í styrkveitingum úr safnasjóði á árinu 2010 á farskóla safnmanna, sem haldinn verður á Hvolsvelli.

3. Úthlutunarreglur safnasjóðs endurskoðaðar. Verklagsreglur safnaráðs vegna eftirlits með nýtingu styrkja úr safnasjóði hafa verið settar í drög að úthlutunarreglum sjóðsins. Gerðar voru nokkrar athugasemdir við drögin.  Skilagreinar vegna eftirlits með nýtingu styrkja verði á rafrænu formi. Leitað hefur verið eftir tilboði vegna þessa hjá EC-hugbúnaði. Tilboðið verður kynnt á næsta fundi. Endurskoðaðar úthlutunarreglur verði yfirfarnar á næsta fundi.

4. Endurbættar leiðbeiningar vegna stofnskrár safns. Frkv.stj. lagði fram drög að  endurbættum leiðbeiningum vegna stofnskrár safns. Gerðar voru nokkrar athugsemdir við drögin. Leiðbeiningarnar verði yfirfarnar á næsta fundi.

5. Upplýsingahefti vegna umsókna í safnasjóð 2010. Frkv.stj. lagði fram drög að upplýsingahefti vegna umsókna í safnasjóð 2010 í samræmi við ákvarðanir ráðsins um áherslur í styrkveitingu 2010. Gerðar voru nokkrar athugasemdir við drögin. Leiðréttingar verða staðfestar með tölvupósti.

6. Rafrænt umsóknareyðublað vegna umsókna í safnasjóð. Frkv.st.j. kynnti nýtt, rafrænt umsóknareyðublað vegna umsókna í safnasjóð, hannað af  EC-hugbúnaði. Hönnunin gefur möguleika á tölfræðilegri úttekt á umsóknum. Verkinu verður skilað af hálfu EC-hugbúnaðar fyrir ágústlok.

7. Tolltjóraembættið – formlegra samstarf. Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörður, hafði samband við frkv.stj. til að ræða hugmynd að nánara samstarfi tollstjóraembættisins og safnaráðs um framkvæmd laga nr. 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og skil menningarverðmæta til annarra landa. Ræddur var möguleiki á samstarfssamningi og einnig námskeiði á vegum safnaráðs fyrir tollverði, varðandi eftirlit með út- og innflutningi menningarverðmæta. Samþykkt var að skoða málið nánar.

8. Coventry-kirkjugler í Áskirkju, Reykjavík og Akureyrarkirkju. Í framhaldi af ábendingu til þjóðminjavarðar samþykkti safnaráð að leita umsagna um innflutning kirkjuglersins á fyrri hluta 20. aldar. Leitað var umsagna hjá Listasafni Íslands, Biskpi Íslands og Þjóðminjasafni Íslands. Umsögn barst frá Biskupi Íslands þar sem fram kemur að aðstandendur Coventry-kirkju í Englandi eru sáttir við málalyktir og þar með núverandi staðsetningu glersins. Beðið er umsagna frá Listasafni Íslands og Þjóðminjasafni. Umfjöllun verður haldið áfram á næsta fundi.

9. Tilnefning í höfundarréttarráð. Í apríl sl. óskaði safnaráð eftir því við menntamálaráðuneyti að fá að tilnefna fulltrúa ráðsins í höfundarréttarráð á vegum ráðuneytisins. Ósk um tilnefningu hefur verið samþykkt af hálfu ráðuneytisins. Samþykkti safnaráð að tilnefna Halldór Björn Runólfsson, safnstjóra Listasafns Íslands í höfundarréttarráð. AlmaDís Kristinsdóttir, sem og aðrir fulltrúar í safnaráði munu verða honum innan handar hvað varðar störf hans vegna setu í höfundarréttarráði.

10. Framlenging á leyfi til útflutnings menningarverðmæta. Safnaráði barst erindi frá Kevin P. Smith, Deputy Director og Chief Curator hjá Haffenreffer Museum of Anthropology, Brown University, Providence, RI, Bandaríkjunum, þar sem óskað er framlengingar á leyfi dags. 5. september 2008, til eins árs, til tímabundins útflutnings menningarverðmæta úr uppgreftri við Gilsbakka í Borgarfirði. Leitað var umsagna hjá Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafni Íslands. Erindið var sent til afgreiðslu Náttúrufræðistofnunar Íslands hvað varðar útflutning minja sem skilgreindar eru sem dýraleifar. Umsagnir Þjóðminjsafns og Fornleifaverndar voru jákvæðar. Framlenging leyfis var heimiluð um eitt ár, eða til ágústloka 2010. Safnaráð undirstrikaði að afla þyrfti nýs leyfis til útflutnings minja sem kynnu að vera grafnar upp eftir að leyfið var veitt í september 2008. Frkv.stj. tilkynnir umsækjanda um það.

11. Næsti fundur, vettvangsferð og önnur mál. Dagsetning næsta fundar og vettvangsferðar safnaráðs 2009 var samþykkt miðvikudaginn 23. september n.k. Samþykkt var að fara á Akranes og Borgarnes í vettvangsferð. Fundað verður á Akranesi. Áætlað er að ferð og fundur standi yfir frá 9-17.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH