Fundargerð 80. fundar safnaráðs

30. apríl 2009, kl. 15:00 – 17:00, Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, Eiríkur Páll Jörundsson og Rakel Halldórsdóttir.

1. Fundargerðir 77. og 79. fundar voru samþykktar og undirritaðar.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Íslenski bærinn dregur erindi sitt til baka. Hannes Lárusson, forsvarsmaður Íslenska bæjarins dró erindi stofnunarinnar til baka en óskað hafði verið eftir mati safnaráð á styrkhæfi stofnunarinnra með tilliti til stofnstyrks skv. 11. gr. safnalaga nr. 106/2001.  Umbeðnar upplýsingar vegna styrkveitinga 2009 úr safnasjóði hafa borist frá flestum, eða 10 af 14, söfnum sem beðin voru um að skila inn viðbótarupplýsingum áður en til afgreiðslu rekstrarstyrks kæmi.  Styrkir vegna Endurmenntunarnámskeiðs safnmanna 2009. Nokkur söfn hafa óskað eftir styrk vegna Endurmenntunarnámskeiðs safnmanna 2009, en styrkir vegna námskeiðsins verða greiddir söfnum gegn umsóknum skv. ákvörðun safnaráðs á 77. fundi þann 12. febrúar 2009. Uppbygging meistaranáms í safnafræði við Háskóla Íslands.  Skv. upplýsingum frá HÍ hafa 10 manns skráð sig í meistaranám í safnafræði fyrir haustið 2009. Safnaráð hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu námsins, en framkvæmdastjóri ráðsins hefur stýrt starfshópi um verkefnið. HÍ mun halda ráðstefnu til kynningar á náminu þann 23. maí n.k. Höfundarréttarmál safna. Rætt var um bága stöðu höfundarréttarmála á sviði safnastarfs, en höfundarréttarlöggjöfin setur töluverðar hindranir á nýtingu myndefnis af söfnum í fræðsluskyni. HBR kannaði stöðu málsins við Knút Bruun, formann Myndstefs. Knútur vill semja sameiginlega við íslensk söfn. Frkv.stj. var falið að athuga með möguleika á aðkomu safnaráðs að höfundarréttarráði menntamálaráðuneytis og óska eftir fundi ráðsins með höfundarréttarnefnd. Skv. óformlegum upplýsingum frá fulltrúa menntamálaráðuneytis er líklegt að ráðið muni fá að tilnefna fulltrúa sinn í höfundarréttarráð. Ósk um framlengingu á leyfi til útflutnings menningarverðmæta. Borist hefur bréf frá John M. Steinberg, University of Massachusetts, Boston, þar sem óskað er framlengingar á leyfi safnaráðs til útflutnings menningarverðmæta (leyfi dags. 5. september 2008, gildir til 15. september 2009). Óskað hefur verið umsagna frá Fornleifavernd ríkisins og forvörðum Þjóðminjasafns Íslands. Umsagnir hafa borist. Samþykkt var að heimila framlengingu á leyfi til útflurtnings, um eitt ár.

3. Þróun styrkveitinga úr safnasjóði – úthlutunarreglur safnasjóðs endurskoðaðar. Í frh. af  ákvörðun síðasta fundar áttu MH og RH fund með Nikulás Úlfari Mássyni, forstöðumanni Húsafriðunarnefndar ríkisins og Guðmundi Magnússyni, formanni Fornleifasjóðs. Rætt var um möguleikann á því að samræma úthlutunarreglur safnasjóðs, húsafriðunarsjóðs og fornleifasjóðs hvað varðar möguleika aðila sem hljóta styrki á fjárlögum til styrkja úr sjóðunum. Þá fór safnaráð yfir úthlutunarreglur ráðsins með tilliti til breytinga. Málið verður tekið aftur upp á næsta fundi.

4. Stjórnsýsluúttekt á fjárveitingum ríkisins til muna- og minjasafna sem ekki eru í eigu ríkisins. Í framhaldi af ósk safnaráðs á athugun Ríkisendurskoðunar á fjárveitingum til safnamála á fjárlögum (sbr. fundargerð 73. safnaráðsfundar, 1. september 2008) hefur Ríkisendurskoðun hafið stjórnsýsluúttekt á fjárveitingum ríkisins til stofnana í safnastarfi, sem ekki eru í eigu ríkisins. Frkv.stj. og formaður hafa hitt fulltrúa Ríkisendurskoðunar á fundum og veitt ítarlegar upplýsingar um málið. Safnaráð fagnar þessum áfanga og telur hann mikilvægt skref í þá átt að faglegum viðmiðum verði í auknum mæli beitt við ákvarðanir um fjárveitingar ríkisins til safnamála. Hefur ráðið talið of stóran hlut fjármagns til safnamála vera veittan framhjá safnaráði/safnasjóði, án áherslu á faglega umfjöllun, forgangsröðun og eftirlit.

5. Dreifimiði vegna inn- og útflutnings menningarverðmæta. Hildigunnur Gunnarsdóttir, hönnuður, hefur gert tillögu að hönnun dreifimiðanna. Samstarfsaðilar safnaráðs um verkefnið eru tollstjóraembættið og íslenska UNESCO nefndin.Farið var yfir tillöguna og gerðar athugasemdir við hana. frkv.stj. mun vinna áfram að málinu.

6. Bréf frá Níels Hafstein, Safnasafninu, vegna úthlutunar úr safnasjóði 2009. Safnaráði barst bréf til fulltrúa ráðsins (dags. 2. mars 2009) frá Níels Hafstein, forstöðumanni Safnasafnsins, Svalbarðseyri, þar sem farið er fram á hækkun á rekstrarstyrk 2009 til Safnasafnsins. Safnasafnið hlaut 1,6 millj. kr. rekstrarstyrk úr sjóðnum á árinu 2009, eða um 50% hækkun frá fyrra ári. Afgreiðsla rekstrastyrks var háð því að  nánari upplýsingar bærust safnaráði um launagreiðslur vegna faglegs safnastarfs en safnið féll ekki að fyrirfram kynntri reikniaðferð safnaráðs til útreiknings á upphæð rekstrarstyrkja. Safnaráði bárust jafnframt umbeðnar upplýsingar frá safninu (skv. bréfi dags. 26. mars 2009) auk tilkynningar um ósk safnsins um lögfræðilega athugun menntamálaráðuneytis á styrkveitingu til safnsins. Niðurstaða lögfræðilegrar athugunar menntamálaráðuneytis á úthlutun safnaráðs til Safnasafnsins leiddi, skv. bréfi ráðuneytisins, dags. 20. apríl 2009, í ljós að ekki verði annað séð en að vinnubrögð safnaráðs við ákvörðun styrkja 2009 séu í fullu samræmi við 10. gr. safnalaga og úthlutunarreglur safnasjóðs.  Samþykkt var svar til safnasafnsins þar sem endurskoðun styrkveitingar er hafnað með vísan til niðurstöðu ráðuneytisins. Skv. upplýsingum frá menntamálaráðuneyti hefur Safnasafnið hlotið 71.951.733 kr. í stofnstyrki úr ríkissjóði á árunum 2005-2009. Sé upphæðin framreiknuð skv. verðlagsforsendum fjárlaga er um að ræða 89.385.988 kr. Auk þessa hefur Safnasafnið hlotið 18.900.000 kr. rekstrar- og verkefnaframlög úr safnasjóði frá árinu 2002 (rekstrarstyrkur 2009 meðtalinn).

7. Safnafræði við Háskóla Íslands – ráðstefna 23. maí n.k. Erindi barst frá Sigurjóni B. Hafsteinssyni, lektori í safnafræði við HÍ þar sem óskað var eftir samstarfi og styrk úr safnasjóði til að flytja til landsins frummælenda á ráðstefnu um safnafræði þann 23. maí n.k. Safnaráð taldi ráðinu ekki mögulegt að verða við beiðni um fjárstyrk lögum samkvæmt en staðfesti faglegt samstarf um ráðstefnuna, en formaður og framkvæmdastjóri ráðsins munu báðir flytja erindi á ráðstefnunni.

8. Málefni Byggðasafnsins í Görðum.  Safnaráði barst erindi frá starfandi bæjarstjóra Akraneskaupstaðar þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða breytingu á rekstri safnsins með útvistun um rekstur þess og starfsemi.  Umsagnar er jafnframt óskað um drög að verklagsreglum safnsins um útlán gripa og endurskoðaða söfnunarstefnu. Skv. ákvörðun síðasta fundar var fyrrgreindum drögum vísað til forstöðumanna höfuðsafnanna til nánari athugunar. Þá benti safnaráð, skv. ákvörðun síðasta fundar, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar á að eðlilegt væri að leita umsagnar safnaráðs og menntamálaráðuneytis á efnisinnihaldi samningsdraganna. Bréf barst safnaráði frá Akraneskaupstað, dags. 29. apríl 2009, þar sem  umsagnar ráðsins um samningsdrög er óskað. Safnaráð samþykkti að leita umsagna um samningsdrögin hjá fagstofnunum og -félögum. Umfjöllun um málið verður haldið áfram á næsta fundi. SK tók ekki þátt í ákvörðunum um málið.

9. Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur er áætlaður skv. fundaáætlun 2009, miðvikudaginn 20. maí n.k.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH