Fundargerð 81. fundar safnaráðs – aukafundar

13. maí 2009, kl. 15:00 – 17:00, Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Eiríkur Páll Jörundsson og Rakel Halldórsdóttir.

1. Altaristafla Möðruvallakirkju í Eyjafjarðarsveit. Safnaráði hefur borist erindi frá Gunnari Sólnes lögfræðingi, sem fyrir hönd skjólstæðings síns, Jósefs Guðbjarts Kristjánssonar, eiganda Möðruvallakirkju í Eyjafirði, óskar eftir leyfi til útflutnings altaristöflu kirkjunnar í því skyni að selja hana á uppboði hjá uppboðshúsinu Christies. Safnaráð leitaði umsagna hjá Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands, Fornleifavernd ríkisins og Biskupi Íslands. Fornleifavernd ríkisins, í samráði við þjóðminjavörð, hefur tilkynnt eiganda kirkjunnar um að vinna við friðlýsingu kirkjugripa kirkjunnar sé hafin. Í ljósi fenginna umsagna (munnlegra á þessu stigi) og fyrirhugaðrar friðlýsingar samþykkti safnaráð að stöðva útflutning altaristöflunnar tímabundið með vísan til 4. gr. laga nr. 105/2001 og óska eftir afstöðu menntamálaráðuneytis um málið.

2. Málefni Byggðasafnsins í Görðum.  Safnaráði barst erindi frá starfandi bæjarstjóra Akraneskaupstaðar þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða breytingu á rekstri safnsins með útvistun um rekstur þess og starfsemi.  Umsagnar er jafnframt óskað um drög að verklagsreglum safnsins um útlán gripa og endurskoðaða söfnunarstefnu. Skv. ákvörðun síðasta fundar var fyrrgreindum drögum vísað til forstöðumanna höfuðsafnanna til nánari athugunar. Þá benti safnaráð, skv. ákvörðun síðasta fundar, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar á að eðlilegt væri að leita umsagnar safnaráðs og menntamálaráðuneytis á efnisinnihaldi samningsdraganna. Bréf barst safnaráði frá Akraneskaupstað, dags. 29. apríl 2009, þar sem  umsagnar ráðsins um samningsdrög er óskað. Safnaráð samþykkti á fundi þann 30. apríl sl. að leita umsagna um samningsdrögin hjá fagstofnunum og -félögum. Leitað var umsagna hjá höfuðsöfnum (Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands og Náttúruminjasafni Íslands, Félagi íslenskra safna og safnmanna, Félagi íslenskra safnafræðinga, Íslandsdeild ICOM-alþjóðaráðs safna, Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd ríkisins. Samþykkt var umsögn – fullgerð umsögn verður send Akraneskaupstað 18. maí n.k.

3. Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur er áætlaður skv. fundaáætlun 2009, miðvikudaginn 20. maí n.k.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH