Fundargerð 85. fundar safnaráðs

23. september 2009, kl. 13:00 – 14:00, Byggðasafninu að Görðum, Akranesi.

Fundurinn var hluti af vettvangsferð safnaráðs 2009 á Akranes og Borgarnes, sem stóð yfir frá 9:00 – 18:00 sama dag.

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir. Varamenn: Anna Guðný Ásgeirsdóttir, Georg Friðriksson, Eiríkur Páll Jörundsson.  Rakel Halldórsdóttir, frkv.stj. (Halldór Björn Runólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir og Steinunn Ó. Kolbeinsdóttir boðuðu forföll). Sjá ferðaskýrslu vettvangsferðar í viðhengi.

1. Athugasemdir við fundargerð 84. fundar. Fundargerðin verður samþykkt og undirrituð á næsta fundi.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra.

Afrit af svarbréfi menntamálaráðuneytis vegna erindis Söguseturs 1627 til ráðuneytisins, þar sem þess er óskað að ákvörðun safnaráðs varðandi styrkumsókn Byggðasafns Vestmannaeyja í safnasjóð 2009 verði snúið. Fram kemur í svari ráðuneytisins að ákvörðun safnaráðs vegna styrkumsóknar safnsins í safnasjóð 2009 verði að teljast eðlileg og í fullu samræmi við safnalög og úthlutunarreglur ráðsins. Höfundarréttarmál safna: Svar menntamálaráðuneytis vegna umsagnar safnaráðs um nýja gjaldskrá Myndstefs vegna höfundarréttar myndverka. Umfjöllun um málið var frestað til næsta fundar. Coventry-kirkjugler. Í framhaldi af ábendingu til þjóðminjavarðar samþykkti safnaráð að leita umsagna um innflutning kirkjuglersins á fyrri hluta 20. aldar. Leitað var umsagna hjá Listasafni Íslands, Biskupi Íslands og Þjóðminjasafni Íslands. Umsögn barst frá Biskupi Íslands þar sem fram kemur að aðstandendur Coventry-kirkju í Englandi eru sáttir við málalyktir og þar með núverandi staðsetningu glersins. Enn er beðið umsagna frá Listasafni Íslands og Þjóðminjasafni. Umfjöllun verður haldið áfram á næsta fundi.  Farskóli Félags íslenskra safna og safnmanna 16. – 18. september n.k. Farskólinn verður á S-landi, með aðalaðsetur á Hvolsvelli. Á farskólanum mun frkv.stj. kynna breyttar áherslur í úthlutunum úr safnasjóði 2010 í samræmi við ákvörðun 82. safnaráðsfundar þann 15. júní sl. um hækkun verkefnastyrkja til safna á kostnað rekstrarstyrkja. Einnig mun frkv.stj. kynna nýtt rafrænt umsóknareyðublað vegna umsókna í safnasjóð.  Ráðstefnan Nýsköpun og skapandi vinna í höndum ungs fólks, 2.-4. desember n.k. Rósa Gunnarsdóttir, menntasviði menntamálaráðuneytis hefur óskað eftir samstarfi safnaráðs um skipulag og framkvæmd erinda safna á ráðstefnunni sem haldin verður á vegum menntamálaráðuneytis í tilefni af ári nýsköpunar. Að líkindum munu fimm söfn flytja erindi á ráðstefnunni tengt útfærslu á stefnu safnaráðs um menntunarhlutverk safna, sem gefin var út af ráðinu árið 2007. Um er að ræða Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Hönnunarsafn Íslands og Hafnarborg (samstarfsverkefni) og Gljúfrastein – hús skáldsins.

3. Úthlutunarreglur safnasjóðs endurskoðaðar. Verklagsreglur safnaráðs vegna eftirlits með nýtingu styrkja úr safnasjóði hafa verið settar í drög að úthlutunarreglum sjóðsins. Gerðar voru nokkrar athugasemdir við drögin.  Skilagreinar vegna eftirlits með nýtingu styrkja verði á rafrænu formi (sjá næsta lið). Endurskoðaðar úthlutunarreglur verða yfirfarnar á næsta fundi.

4. Rafrænt eyðublað vegna efirlits með nýtingu styrkja úr safnasjóði. Farið var yfir tilboð EC-hugbúnaðar fyrir rafrænt eyðublað vegna eftirlits safnaráðs með nýtingu styrkja úr safnasjóði. Eyðublaðið verður sambærilegt nýju rafrænu eyðublaði vegna umsókna í safnasjóð. Tilboðið var samþykkt.

5. Endurbættar leiðbeiningar vegna stofnskrár safns. Lögð voru fram leiðrétt drög að endurbættum leiðbeiningum vegna stofnskrár safns. Leiðbeiningarnar voru samþykktar.

6. Dreifimiði vegna útflutnings menningarverðmæta. Lögð var fram tillaga hönnuðar að dreifimiða vegna útflutnings menningarverðmæta. Gerðar voru athugasemdir við tillöguna. Frkv.stj. mun koma athugasemdunum áleiðis til hönnuðar. Fjallað verður áfram um málið á næsta fundi.

7. Umsókn Ágústu Edwald um útflutning menningarverðmæta úr fornleifauppgrefti á Hornbrekku, Höfðaströnd. Safnaráði barst umsókn frá Ágústu Edwald þar sem óskað er leyfis til útflutnings menningarverðmæta úr fornleifauppgrefti á Hornbrekku, Höfðaströnd. Umsagna hefur verið óskað frá Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins. Fornleifavernd gerir ekki athugasemdir við útflutning. Þjóðminjasafn Íslands telur rétt að gripirnir verði forskráðir á safn áður en til útflutnings komi, til að tryggja eftirlit. Umsækjanda hefur verið tilkynnt um athugasemdir Þjóðminjasafns. Umfjöllun verður haldið áfram á næsta fundi.

8. Umleitan danska uppboðshússins Bruun Rasmussen, í samstarfi við Sendiráð Danmerkur á Íslandi, um útflutning menningarverðmæta í söluskyni. Í framhaldi af matsdegi danska uppboðshússins Bruun Rasmussen hér á landi, í samstarfi við Sendiráð Danmerkur á Íslandi, hefur sendiráðið fyrir hönd uppboðshússins hafið umleitan um leyfi eigenda valinna verka til útflutnings menningarverðmæta í söluskyni á uppboð hjá uppboðshúsinu erlendis. Safnaráð hefur leitað umsagna hjá Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Þjóðskjalasafni Íslands og Hönnunarsafni Íslands. Safnaráð hefur fengið skoðunartíma hjá Sendiráði Danmerkur þann 24. september kl. 10:00, þar sem sérfræðingar fyrrnefndra umsagnarstofnana munu mæta og skoða þá gripi sem fyrirhugað er að flytja úr landi með tilliti til ákvæða laga nr 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Umfjöllun um málið verður haldið áfram á næsta fundi.

9. Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur safnaráðs skv. fundaáætlun 2009 er 29. október n.k., kl. 15-17.

Önnur mál:

Áætlaður flutningur skrifstofu safnaráðs: Áætlað er að skrifstofa safnaráðs flytjist í Þjóðminjasafn Íslands, Setberg, um næstu áramót.

Framkvæmdastjóri í barnsburðarleyfi: Framkvæmdastjóri mun fara í barnsburðarleyfi í mars 2010 n.k. Unnið er að því að finna staðgengil frkv.stj. í barnsburðarleyfinu.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 14:00/RH

(PDF skjal)Fylgiskjal