Fundargerð 86. fundar safnaráðs – aukafundar

7. október 2009, kl. 15:00 – 17:00, Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.

1. Höfundarréttarmál safna. Fjallað var um nýja gjaldskrá Myndstefs. HBR, ADK og RH áttu fund með Knúti Bruun, formanni Myndstefs og öðrum fulltrúum samtakanna þann 5. október þar sem fulltrúar Myndstefs kynntu hina nýju gjaldskrá og umræður urðu um gildi hennar og mögulega samninga safna við Myndstef. Samþykkt var að óska eftir fundi með fulltrúa menntamálaráðuneytis til að ræða málefni tengd hinni nýju gjaldskrá. Þá var samþykkt að í framhaldi yrði útbúið bréf til mrn þar sem leitað yrði samstarfs um samninga safna við Myndstef þar sem leitað yrði leiða til að tryggja almennt aðgengi að menningararfi Íslendinga og óhindraða kynningu íslenskrar myndlistar af hálfu safna. Samþykkt var að fá Erlu B. Árnadóttur, lögfr. til að fara yfir efni bréfsins.

2. Bruun Rasmussen – útflutningur menningarverðmæta í söluskyni. Farið var yfir umsagnir frá sérfræðingum Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Hönnunarsafns Íslands um þá gripi sem danska uppboðshúsið Bruun Rasmussen fyrirhugar að flytja úr landi í sölusyni. Með tilvísun í lög nr. 105/2001 um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa telur safnaráð að ekki skuli veitt leyfi til útflutnings á því eintaki Þorláksbiblíu sem skoðað var. Í ljósi umsagna sérfræðinga fellur sá gripur að mati safnaráðs undir 4. gr. laganna þar sem um er a ð ræða minjar sem teljast til þjóðardýrgripa og hafa sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu. Sérfræðingar leggjast ekki gegn útflutningi annarra gripa sem skoðaðir voru. Samþykkt var að senda Sendiráði Danmerkur á Íslandi bréf þessa efnis og benda jafnframt á að í samræmi við fyrrgreind lög skulu eigendur þeirra gripa sem fyrirhugað er að flytja úr landi senda formlega beiðni til safnaráðs þar um. Þá var samþykkt að senda mennta- og menningarmálaráðuneyti bréf þar sem safnaráð hvetur til þess að stjórnvöld tryggi eignarhald og varðveislu umræddrar Þorláksbiblíu á Landsbókasafni. Ráðuneytinu, auk utanríkisráðuneyti, verði jafnframt send gögn málsins til upplýsingar. Eyðublað vegna útflutnings menningarverðmæta sem hefur verið birt á vefsíðu safnaráðs í tengslum við málið var samþykkt af ráðinu. Samþykkt var að leita upplýsinga hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti um ákvæði laga nr. 105/2001 hvað varðar skil á menningarverðmætum, en ekki liggja fyrir upplýsingar sem gefa ástæðu til nokkurs gruns um að erlend verk meðal þeirra sem skoðuð voru hafi verið flutt til landsins með ólögmætum hætti.

3. Flugsafn Íslands – fyrirhugaðar breytingar á eignarhaldi. Fjallað var um fyrirætlanir Akureyrarbæjar um að eignast 30% hlut í Flugsafni Íslands. Skv. drögum að afsali er ekki gert ráð fyrir því að neinar rekstrarlegar skuldbindingar af hálfu bæjarins fylgi eignarhlutnum. Samþykkt var að skoða málið nánar og óska eftir meiri upplýsingum um tilefni og ástæður fyrirhugaðra breytinga á eignarhaldi safnsins.

4. Bókasafn Böðvars Kvaran. Tilefni umfjöllunar var að erfingjar Böðvars Kvaran fyrirhuga að selja bókasafn hans úr landi. Leitað hefur verið álits hjá lögfræðingum mennta- og menningarmálaráðuneytis um það hvernig túlka skuli ákvæði laga nr. 105/2001 í slíku tilfelli hvað varðar verðgildisákvæði. Samþykkt var að ganga á eftir svari ráðuneytisins. Fylgst verður áfram með málinu.

5. Næsti fundur og önnur mál.

Önnur mál:

Pourquoi Pas? MH kynnti upplýsingar um meint lögbrot tengt flaki Pourquoi Pas? en talið er að franskir og írskir aðilar hafi kafað niður að flakinu, sem er friðlýst af Fornleifavernd ríkisins, og flutt erlendis á brott með sér gripi. Fornleifavernd ríkisins er að kanna hvort þessar upplýsingar reynast réttar. Samþykkt var að fylgjast með málinu með tilliti til endurheimta minjanna skv. ákvæðum laga nr. 105/2001.

Næsti fundur er áætlaður skv. fundaáætlun 2009, fimmtudaginn 29. október n.k., kl. 15-17.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH