Fundargerð 79. fundar safnaráðs

2. apríl 2009, kl. 15:00 – 17:00, Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.

1. Fundargerð 76. og 78. fundar var samþykkt og undirrituð. Lítilsháttar athugasemd var gerð við fundargerð 77. fundar og verður hún samþykkt og undirrituð á næsta fundi ráðsins.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Úthlutun úr safnasjóði 2009. Farið var yfir úthlutun úr safnasjóði 2009 og bréf vegna afgreiðslu umsókna kynnt. Farið var yfir viðbrögð við úthlutun svo sem umræður á Safnlistanum í kjölfar úthlutunar og bréf frá Safnasafninu. Styrkir vegna Endurmenntunarnámskeiðs safnmanna 2009. Safnaráð hefur kynnt styrki v. námskeiðsins en þeir verða greiddir söfnum skv. ákvörðun ráðsins á 77. fundi þann 12. febrúar 2009. Umsókn um útflutning menningarverðmæta. Safnaráði barst umsókn frá Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, þar sem óskað var leyfis til tímabundins útflutnings krítarpípubrota úr fornleifauppgreftrinum í Reykholti, til London, Englandi í rannsóknarskyni. Leitað var umsagna hjá Fornleifavernd ríkisins og forvörðum Þjóðminjasafns Íslands. Umsagnir beggja voru jákvæðar. Útflutningur skv. umsókn var heimilaður. Safnaráði bárust frá viðskiptanefnd Alþingis, óskir um umsagnir við frumvarp til laga um listaverk í eigu Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis og Tillögu til þingsályktunar um breytingu á eignarhaldi og varðveislu listaverka ríkisbankanna. Safnaráð veitti báðum erindunum umsagnir. Nefndarlaun til fulltrúa hagsmunasamtaka í safnaráði. Fulltrúar hagsmunasamtaka í safnaráði (fulltrúar Félags íslenskra safna og safnmanna og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga) hljóta nefndarlaun fyrir setu í ráðinu. Skv. upplýsingum frá menntamálaráðuneyti eiga nefndarlaun v. fundarsetu fulltrúanna í maí 2007 til desember 2008 að vera greidd. Fulltrúar höfuðsafnanna (Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands) eru lögbundnir fulltrúar í ráðinu og eiga því ekki rétt á nefndarlaunum fyrir setu sína. Dreifimiði vegna inn- og útflutnings menningarverðmæta. Hildigunnur Gunnarsdóttir, hönnuður, vinnur að gerð dreifimiðanna. Samstarfsaðilar safnaráðs um verkefnið eru tollstjóraembættið og íslenska UNESCO nefndin. Uppbygging meistaranáms í safnafræði við Háskóla Íslands. Sigurjón B. Hafsteinsson var ráðinn lektor í safnafræði í janúar 2009. Hefur hann að mestu tekið yfir vinnu við undirbúning námsins af starfshópi um verkefnið, sem framkvæmdastjóri safnaráðs stýrði. Kynning námsins er hafin og gerður hefur verið kynningarbæklingur um það sem dreift hefur verið til safna um landið. Háskóli Íslands áætlar að halda ráðstefnu til kynningar á náminu þann 23. maí n.k. Höfundarréttarmál safna. Rætt var um bága stöðu höfundarréttarmála á sviði safnastarfs, en höfundarréttarlöggjöfin setur töluverðar hindranir á nýtingu myndefnis af söfnum í fræðsluskyni. HBR mun kanna stöðu málsins nánar við Knút Bruun, formann Myndstefs. Frkv.stj. var falið að athuga með möguleika á aðkomu safnaráðs að höfundarréttarráði og óska eftir fundi ráðsins með höfundarréttarnefnd. HERITAGENET. Safnaráð er samstarfsaðili að ERANET verkefninu HERITAGENET, sem Fornleifavernd ríkisins stýrir fyrir Íslands hönd. Aðrir samstarfsaðilar eru RANNÍS, Húsafriðunarnefnd og menntamálaráðuneytið. Um er að ræða samevrópskt rannsóknarverkefni sem hefur það að markmiði að mynda tengslanet, miðla þekkingu og efla árangur í verndun menningararfsins (tangible heritage). MH og RH hafa setið í starfshópi um verkefnið fyrir hönd safnaráðs. Ósk um framlengingu á leyfi til útflutnings menningarverðmæta. Borist hefur bréf frá John M. Steinberg, University of Massachusetts, Boston, þar sem óskað er framlengingar á leyfi safnaráðs til útflutnings menningarverðmæta (leyfi dags. 5. september 2008, gildir til 15. september 2009). Óskað hefur verið umsagna frá Fornleifavernd ríkisins og forvörðum Þjóðminjasafns Íslands. Umsagnir hafa ekki borist.

3. Þróun styrkveitinga úr safnasjóði. MH og RH áttu fund með Eiríki Þorlákssyni og Karítas Gunnarsdóttur, menntamálaráðuneyti, þar sem rædd var stefna í þróun styrkveitinga úr safnasjóði. Safnaráð telur eðlilegt að styrkveitingar úr sjóðnum verði í samræmi við ákvæði væntanlegra safnalaga, en í þeim birtist stefna menntamálaráðuneytis. Töldu allir aðilar mikilvægt að undirstrika ákvæði safnalaga sem kveða á um það skilyrði að safn hafi tryggðan fjárhagsgrundvöll án aðkomu safnasjóðs. Jafnframt var rætt um styrkveitingar ríkis til safna almennt og leiðir til aukins jafnræðis hvað þær varðar. Safnaráð mun leggja til samræmdar úthlutunarreglur við húsafriðunarsjóð og fornleifasjóð að því leyti.

4. Stjórnsýsluúttekt á fjárveitingum ríkisins til muna- og minjasafna sem ekki eru í eigu ríkisins. Í framhaldi af ósk safnaráðs á athugun Ríkisendurskoðunar á fjárveitingum til safnamála á fjárlögum (sbr. fundargerð 73. safnaráðsfundar, 1. september 2008) hefur Ríkisendurskoðun hafið stjórnsýsluúttekt á fjárveitingum ríkisins til stofnana í safnastarfi, sem ekki eru í eigu ríkisins. Frkv.stj. og formaður hafa hitt fulltrúa Ríkisendurskoðunar á fundum og veitt ítarlegar upplýsingar um málið. Safnaráð fagnar þessum áfanga og telur hann mikilvægt skref í þá átt að faglegum viðmiðum verði í auknum mæli beitt við ákvarðanir um fjárveitingar ríkisins til safnamála. Hefur ráðið talið of stóran hlut fjármagns til safnamála vera veittan framhjá safnaráði/safnasjóði, án áherslu á faglega umfjöllun, forgangsröðun og eftirlit. Í framhaldi af umræðunni var rætt um mikilvægi eftirlits með úthlutunum og samþykkt að gera drög að gátlista í samráði við Ríkisendurskoðun til að auðvelda ráðinu framkvæmd slíks eftirlits.

5. Styrkir 2009 – umbeðnar upplýsingar. Skv. ákvörðun safnaráðs var afgreiðsla styrkja úr safnasjóði til 14 safna af 54 háð því að safnið sendi ráðinu ítarlegri upplýsingar um ákveðinn þátt starfseminnar. Umbeðnar upplýsingar hafa borist frá 10 söfnum af 14.

6. Ráðstefna á vegum menntamálaráðuneytis: Nýsköpun og skapandi vinna í höndum ungs fólks. Safnaráði barst ósk frá Rósu Gunnarsdóttur, sérfræðingi í nýsköpun á menntasviði menntamálaráðuneytis, þar sem óskað er samstarfs um samnorræna ráðstefnu um Nýsköpun og skapandi vinnu í höndum ungs fólks í tilefni af  Evrópsku ári nýsköpunar og sköpunar 2009. Ráðstefnan  verður haldin 2.-4. desember 2009. Óskar Rósa eftir því að safnaráð haldi utan um erindi frá söfnum sem kynni fræðslustarf sitt í framhaldi af gerð sameiginlegrar stefnu safna um fræðslumál á söfnum ?Fræðsla fyrir alla?, sem gefin var út af safnaráði 2007. Safnaráð fagnaði þessu skrefi í átt að nánari tengingu hins hefðbundna menntakerfis við hið óhefðbundna, sem söfnin teljast hluti af og  samþykkti samstarf um ráðstefnuna. Var frkv.stj. falin framkvæmd.

7. Bréf frá Níels Hafstein, Safnasafninu, vegna úthlutunar úr safnasjóði 2009. Safnaráði barst bréf til fulltrúa ráðsins (dags. 2. mars 2009) frá Níels Hafstein, forstöðumanni Safnasafnsins, Svalbarðseyri, þar sem farið er fram á hækkun á rekstrarstyrk 2009 til Safnasafnsins. Safnasafnið hlaut 1,6 millj. kr. rekstrarstyrk úr sjóðnum á árinu 2009, eða um 50% hækkun frá fyrra ári. Afgreiðsla rekstrastyrks var háð því að  nánari upplýsingar bærust safnaráði um launagreiðslur vegna faglegs safnastarfs en safnið féll ekki að fyrirfram kynntri reikniaðferð safnaráðs til útreiknings á upphæð rekstrarstyrkja. Safnaráði bárust jafnframt umbeðnar upplýsingar frá safninu (skv. bréfi dags. 26. mars 2009) auk tilkynningar um ósk safnsins um lögfræðilega athugun menntamálaráðuneytis á styrkveitingu til safnsins. Umræður fóru fram um efni bréfanna. Lýstu fulltrúar safnaráðs furðu sinni á ummælum í bréfunum og ómaklegum, persónulegum ávirðingum á fulltrúa ráðsins. Safnaráð væntir niðurstöðu lögfræðilegrar athugunar menntamálaráðuneytis á úthlutun til Safnasafnsins. Samþykkt var að óska eftir nánari upplýsingum um fjárhag safnsins með vísan til eftirlitshlutverks safnaráðs skv. 3. gr. safnalaga og jafnframt með vísan til 12.  gr. laganna, vegna fullyrðinga bréfritara um yfirvofandi gjaldþrot safnsins.

8. Íslenski bærinn – ósk um mat skv. 11. gr. safnalaga.  Fjallað var um erindi Íslenska bæjarins þar sem óskað er mats skv. 11. gr. safnalaga. Ljóst er að stofnunin, sem er í uppbyggingu, uppfyllir ekki skilyrði mats skv. 11. gr. eins og staðan er í dag. Umfjöllun um málið verður haldið áfram á næsta fundi.

9. Málefni Byggðasafnsins í Görðum.  Safnaráði barst erindi frá starfandi bæjarstjóra Akraneskaupstaðar þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða breytingu á rekstri safnsins með útvistun um rekstur þess og starfsemi.  Umsagnar er jafnframt óskað um drög að verklagsreglum safnsins um útlán gripa og endurskoðaða söfnunarstefnu. Fyrrgreindum drögum var vísað til forstöðumanna höfuðsafnanna til nánari athugunar. Samþykkt var að benda starfandi bæjarstjóra Akraneskaupstaðar á að eðlilegt væri að leita umsagnar safnaráðs og menntamálaráðuneytis á efnisinnihaldi samningsdraganna. Jafnframt verði bent á hina almennu reglu hvað varðar útboð umfangsmikilla verkefna opinberra aðila. Umfjöllun um málið verður haldið áfram á næsta fundi. SK tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

10. Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur er áætlaður skv. fundaáætlun 2009, fimmtudaginn 30. apríl n.k.  

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH