Fundargerð 76. fundar safnaráðs

29. janúar 2009, kl. 15:00 – 17:00, Setbergi, Þjóðminjasafni Íslands

Viðstödd: Margrét Hallgrímsdóttir formaður, Halldór Björn Runólfsson, Helgi Torfason, Sveinn Kristinsson, AlmaDís Kristinsdóttir og Rakel Halldórsdóttir. 

1. Fundargerð 75. fundar var samþykkt og undirrituð.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra. Útvistun verkefna sem tengjast rekstri safna. Safnaráð sendi sveitarstjórnum sem eiga og/eða reka söfn upplýsingabréf  í desember varðandi rekstrarform og skipulag safna með tilliti til útvistunar verkefna sem tengjast rekstri þeirra. Var bréfið sent því komið hafa upp tilfelli þar sem sveitarfélög hafa útvistað slíkum verkefnum eða íhuga það. Í bréfinu var bent á mikilvægi þess að safnaráð og viðkomandi höfusafn væru upplýst um slíkar ákvarðanir og hefðu möguleika á að veita umsögn um breytingar á rekstri, varðveislu gripa og annars áður en gengið er frá samningum, en skv. 3. gr. safnalaga nr. 106/2001 hefur safnaráð eftirlit með söfnum sem njóta ríkisstyrkja. Greinargerðir vegna nýtingar styrkja úr safnasjóði 2008. Í desember óskaði safnaráð eftir greinargerðum frá söfnum um nýtingu þeirra styrkja sem veittir voru úr safnasjóði árið 2008. Öll söfn hafa skilað inn greinargerðum, en þær verða hafðar til hliðsjónar við úthlutun 2009. Evrópsku safnaverðlaunin 2010 (European Museum of the Year Award 2010). Safnaráð óskaði eftir tillögum höfuðsafnanna, Félags íslenskra safna og safnmanna og Íslandsdeildar ICOM að tilnefningu safns til Evrópsku safnaverðlaunanna 2010. Engin svör hafa borist. Málið verður tekið upp á næsta fundi. Umsögn vegna frumvarps til laga um Landsbókasafn Ísland – Háskólabókasafn. Safnaráði barst frá Alþingi ósk um umsögn ráðsins á frumvarpi til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Ráðið skilaði umsögn, en engar efnislegar athugasemdir voru gerðar við frumvarpið. Nefndarlaun. Safnaráð hefur óskað eftir útreikningi þóknananefndar menntamálaráðuneytis á nefndarlaunum til fulltrúa hagsmunasamtaka í ráðinu (Félags íslenskra safna og safnmanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga) fyrir tímabilið maí 2007 – desember 2008. Kynning á Leikmyndagerð Sögusafnsins. Safnaráði barst frá menntamálaráðuneyti bréf þar sem óskað er að ráðið kynni þjónustu Leikmyndagerðar Sögusafnsins, Perlunni, fyrir söfnum landsins. Safnaráð samþykkti að senda bréf til framkvæmdastjóra Leikmyndagerðarinnar og benda honum á Safnlistann, rafrænan samskiptavettvang safnmanna, sem vettvang fyrir slíkar kynningar.

3. Fjárlög og safnasjóður. Á árinu 2008 óskaði safnaráð ítrekað eftir heimild menntamálalráðuneytis til fundar með fjárlaganefnd. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu var formanni safnaráðs (MH) veitt heimild ráðuneytisins til slíks fundar í lok nóvember. Formaður og framkvæmdastjóri (RH) áttu fund með fjárlaganefnd þann 5. desember 2008 og töluðu fyrir eflingu safnasjóðs og mikilvægi þess að fjárveitingar ríkissjóðs til safnastarfs færu fram á faglegum grundvelli. Fjárveiting til safnasjóðs á afgreiddum fjárlögum 2009 er 105,9 millj. Um er að ræða 18, 2 millj. kr. hækkun frá árinu áður (87,7 millj. 2008).

4. Fundaáætlun safnaráðs 2009. Farið var yfir fundaáætlun ráðsins fyrir árið 2009 en ekki gengið endanlega frá henni.

5. Þjónustusamningur og rekstraráætlun safnaráðs 2009. Safnaráð hefur gert þjónustusamning við Listasafn Íslands um áframhaldandi leigu á skrifstofuaðstöðu í skrifstofuhúsnæði safnsins að Laufásvegi 12, samningurinn gildir til 31. desember 2009. Rekstraráætlun safnaráðs 2009 var samþykkt.

6. Útflutningur textíla úr Reykholtsrannsókn. Safnaráði barst í lok árs 2008, umsókn frá Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, umsjónarmanns fornleifahluta Reyholtsrannsókna, um leyfi til tímabundins útflutnings allra textíla úr Reykholtsrannsókn, í rannsóknarskyni. Safnaráð óskaði eftir umsögnum Fornleifaverndar ríkisins og forvarða Þjóðminjasafns Íslands á umsókninni. Umsagnir beggja voru jákvæðar með tilliti til tímabundins útflutnings minjanna. Safnaráð veitti leyfi til útflutningsins í samræmi við umsókn.

7. Þjónustusamningur Söguseturs 1627 og Vestmannaeyjabæjar vegna reksturs Byggðasafns Vestmannaeyja. Safnaráði bárust, til yfirlestrar, drög að þjónustusamningi Söguseturs 1627 og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Byggðasafns Vestmannaeyja. Ráðið samþykkti að benda á fáein atriði sem mætti skýra betur í samningnum.

8. Umsóknir í safnasjóð 2009. Farið var stuttlega yfir umsóknir í safnasjóð fyrir árið 2009. Alls bárust sjóðnum umsóknir frá 52 safnastofnunum.  50 umsóknir bárust um rekstrarstyrki og 42 umsóknir um verkefnastyrki. 

9. Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur, úthlutunarfundur 2009, var ákvarðaður 12. febrúar n.k.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 17:00/RH