Fundargerð 54. fundar Safnaráðs, 30. nóvember 2006, kl. 11:30 – 13:00, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík
Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Karl Rúnar Þórsson, Sveinn Kristinsson, Anna Guðný Ásgeirsdóttir og Rakel Halldórsdóttir.
1.      Fundargerðir 52. og 53. fundar voru samþykktar og undirritaðar.

2.      Skýrsla framkvæmdastjóra. Nýr tölvubúnaður Safnaráðs. Sökum lélegrar frammistöðu og tíðra bilana tölvu Safnaráðs hefur tölvubúnaður á skrifstofu ráðsins verið endurnýjaður. Málstofa Safnaráðs með Gísla Sverri Árnasyni 15. nóvember sl., kl. 12-13 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands gekk vel og var mæting góð. Gísli Sverrir kynnti niðurstöður mastersverkefnis síns í opinberri stjórnsýslu en verkefnið ber heitið Umdæmissöfn á Íslandi og skoðar endurskipulag safnamála í landinu með umdæmissöfnum. Norræna safnanefndin á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar verður lögð niður um næstu áramót eftir 10 ára starf. Fundur 9. nóvember sl. í Kaupmannahöfn miðaði að því að koma á nýju netverki um samband milli opinberra safnastofnana á Norðurlöndunum. Formaður Safnaráðs, sem setið hefur í nefndinni frá upphafi, frkv.stj. og Eiríkur Þorláksson, sérfræðingur í menntamálaráðuneyti sóttu fundinn. Safnaráð verður hluti af fyrrnefndu netverki. European Museum of the Year Award 2008. Óskað hefur verið eftir tillögum að tilnefningu safns til EMYA2008 frá Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Félagi íslenskra safna og safnmanna og Íslandsdeild ICOM, alþjóðaráðs safna. Svör berist fyrir 15. nóvember n.k. Flugminjanefnd, sem skipuð var af menntamálaráðherra til skoðunar á málefnum á sviði íslenskra flugminja,  hefur lokið störfum skilað menntamálaráðuneyti skýrslu með tillögum sínum. RH var starfsmaður nefndarinnar en MH stýrði henni. Samráðsfundur Safnaráðs um menntunarhlutverk safna.  Drög að skýrslu um starf fundarins, sem haldinn var 19. og 20. október sl. og stefnumótun voru kynnt ráðsmönnum. Umsóknir í Safnasjóð 2007. Farið var stuttlega yfir umsóknir sem borist hafa í Safnasjóð. Stefnt er að því að úthlutun verði lokið um mánaðarmót janúar-febrúar eða í byrjun febrúar.
3.      Fjárlaganefnd – styrkir til safnastarfs – umræður á Alþingi. Safnaráð fjallaði um styrkveitingar fjárlaganefndar til safnastarfs og umræður á Alþingi um málið. Brýnt er að styrkveitingum til safna á fjárlögum verði í auknum mæli beint í gegnum Safnasjóð með faglegri umfjöllun Safnaráðs.
4.      Útflutningur menningarverðmæta. Erindi þar sem óskað er tímabundins útflutnings gripa úr fornleifauppgreftri á Hrísbrú í Mosfellsdal 2006, hefur verið sent Þjóðminjasafni Íslands og Fornleifavernd ríkisins til umsagnar.
5.      Umsókn Náttúrugripasafnsins í Neskaupsstað um framlengingu á nýtingu styrks. Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað hefur óskað eftir framlengingu á nýtingu styrks úr Safnasjóði fyrir árið 2006. Erindið var samþykkt.
6.      Erindi rekstrarfélagsins Sarps. Safnaráð fjallaði um erindi Rekstrarfélagsins Sarps þar sem óskað er staðfestingar ráðsins á Sarpi sem viðurkenndu skráningarkerfi skv. 10. gr. safnalaga nr. 106/2001. Samþykkt var staðfesting Sarps sem viðurkennds skráningarkerfis skv. 10. gr.
7.      Náttúrusöfn – umsókn um verkefnastyrk í Safnasjóð 2006 vegna skráningarkerfis fyrir náttúrugripasöfn. Málinu hefur verið frestað á síðustu fundum þar sem umbeðnar upplýsingar frá menntmálaráðuneyti hafa ekki borist. Málinu var enn frestað.
8.      Næsti fundur og önnur mál. Næsti fundur skv. fundaáætlun er 30. nóvember.
Önnur mál:
Rafrænt aðgengi að menningar- og náttúruarfi. Skipulagning ráðstefnu um rafrænt aðgengi að menningar- og náttúruarfi í febrúar 2007 er hafin. um skráningarkerfi og skráningarmál safna. Ráðstefnan verður framhald á ráðstefnu síðasta árs og samráðsfundar í ár um menntunarhlutverk safna. Skoðir verða grunnþættir eins og hverjum þjónar menningar- og náttúruarfur, lýðræðislegt mikilvægi aðgengis að honum, sviðsetning og túlkun menningar- og náttúruarfs og samstarf milli stofnana um nýtingu hans . Markhópur verði m.a. safnmenn og kennarar. Stefnt er að því að halda ráðstefnuna 14. febrúar. Félag íslenskra safna og safnmanna vinnur að skipulagningu endurmenntunarnámskeið um svipað efni, þ.e. skráningarmál á söfnum. Stefnt er að tengingu þar á milli. Formaður og framkv.stj. munu vinna að málinu áfram, einnig í samstarfi við KRÞ.
Skipun nýs formanns og varaformanns á næsta leyti. ÓK lætur af störfum sem safnstjóri Listasafns Íslands 1. mars 2007, en þá lýkur 10 ára starfstímabili hans skv. lögum. Skv. Safnalögum mun ÓK þá ekki eiga sæti áfram í Safnaráði. Frkv.stj. mun rita menntamálaráðuneyti bréf þar sem vakin er athygli á þessu og óskað eftir að menntamálaráðherra skipi nýjan formann og varaformann Safnaráðs frá 1. mars n.k.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 12:45/RH