Fundargerð 48. fundar Safnaráðs, 13. mars 2006, kl. 13:30 – 15:00,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík

Viðstödd voru:  Ólafur Kvaran, Margrét Hallgrímsdóttir, Sveinn Kristinsson, Karl Rúnar Þórsson, Álfheiður Ingadóttir og Rakel Halldórsdóttir.

1.       Fundargerð 47. fundar var samþykkt og undirrituð.

2.       Skýrsla framkvæmdastjóra. Könnun Safnaráðs á stöðu skráningar á söfnum, mars 2006. Farið var yfir könnunina, sem gerð verður í vefforritinu QuestionPro.com. Könnunin var samþykkt og verður send styrkhæfum söfnum. Málstofa um aðgengi fatlaðra á söfnum, 23. febrúar 2006 gekk vel. Myndaður var á málstofunni verkefnahópur um aðgengi fatlaðra á söfnum. Framkvæmdastjóri hefur samþykkt að flytja fyrirlestra um Safnaráð, safnalög, lagaumhverfi safna og heildræna stöðu safnamála hér á landi á Staðarvarðanámskeiði við Háskólann á Hólum og námskeiði í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn á Staðarvarðanámskeiðinu verður í fjarkennslu. Endurbætt vefsíða Safnaráðs. Framkvæmdastjóri hefur hafist handa við að flytja efni af gömlu vefsíðu ráðsins yfir á þá nýju. Gert er ráð fyrir að vefsíðan verði tekin í notkun fyrir marslok.

3.       Listasafnið á Akureyri – umsókn 2005. Fjallað var um umsókn Listasafnsins á Akureyri. Ákvörðun varðandi umsóknina hefur dregist þar sem Safnaráð hefur beðið svars við fyrirspurn til menntamálaráðuneytis varðandi túlkun safnalaga hvað viðkemur rekstrarformi safna. Svar við þeirri fyrirspurn hefur ekki borist frá menntamálaráðuneyti en í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Safnaráðs varðandi möguleika ráðsins á að vísa í siðareglur ICOM við rökstuðning, bendir ráðuneytið á að siðareglur ICOM voru hafðar til hliðsjónar við gerð frumvarps til safnalaga. Með hliðsjón af því svari samþykkti ráðið að hafna umsókn Listasafnsins á Akureyri í Safnasjóð árið 2005, þar sem rekstrarform safnsins stangast á við 2. gr. samþykkta ICOM.

4.       Náttúrusöfn – umsókn um verkefnastyrk í Safnasjóð 2006 v. skráningarkerfis fyrir náttúrusöfn. Haldið var áfram með umfjöllun frá síðasta fundi um umsóknina. Samþykkt var að fresta ákvörðun.

5.       Breytingar á safnalögum. Samþykkt var bréf til nefndar þeirrar er vinnur að endurskoðun safnalaga á vegum menntamálaráðuneytis. Í bréfinu eru tilgreind í megindráttum þau atriði sem Safnaráð telur mikilvægt að nefndin taki til athugunar við endurskoðun laganna. Jafnframt er óskað eftir fundi með nefndinni til að ræða þessi atriði nánar.

6.       Uppbygging safnafræðideildar við Háskóla Íslands. Bréf hefur borist frá Ólafi Þ. Harðarsyni, deildarforseta Félagsvísindadeildar, þar sem stuðningur deildarinnar við uppbyggingu safnafræðideildar kemur fram. Í bréfinu leggur Ólafur til að settur verði á fót starfshópur til að vinna að hugsanlegri samvinnu félagsvísindadeildar og Safnaráðs að þessari uppbyggingu. Safnaráð samþykkti að tilnefna framkvæmdastjóra sem fulltrúa ráðsins í starfshópnum og að bréf þess efnis yrði sent deildarforseta. Jafnframt verði í bréfinu tekið fram að Safnaráð hefur, skv. núgildandi lögum, ekki heimild til að styrkja fjárhagslega verkefni sem ekki eru á vegum safna. Taldi ráðið eðlilegt að höfuðsöfnin athuguðu möguleika að samstarfi við félagsvísindadeild vegna þessa verkefnis, kæmist starfshópurinn að niðurstöðu um að óska eftir slíku samstarfi.

7.       Næsti fundur og önnur mál.
Önnur mál:
Íslenski safnadagurinn 2006. Safnaráð hafði umsjón með kynningu á Íslenska safnadeginu 2005 og samþykkti ráðið að gera umsjón með kynningu Íslenska safnadagsins að árlegu verkefni hjá ráðinu. Framkvæmdastjóri mun halda utan um samráð og útfærslu.

Vettvangsferð Safnaráðs 2006. Borin var upp tillaga að vettvangsferð Safnaráðs 2006 á söfn, setur og sýningar á Austurlandi, 26. – 27. apríl n.k. Tillagan var samþykkt. Vettvangsferðir ráðsins hafa verið mikilvægur þáttur í að mynda þá heildarsýn á aðstæðum stofnana í safnastarfi á Íslandi sem nauðsynlegur er starfsemi ráðsins.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 15:00/RH