Fundargerð 49. fundar Safnaráðs, 30. mars 2006, kl. 11:30 – 13:00,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík 

Viðstödd voru:  Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Sveinn Kristinsson, Karl Rúnar Þórsson og Rakel Halldórsdóttir. Ólafur Kvaran boðaði forföll.

1.      Fundargerð 48. fundar var samþykkt og undirrituð.

2.      Skýrsla framkvæmdastjóra. Tæknisafn Íslands. Fjallað var um grein úr Morgunblaðinu 14. mars 2006, um Tæknisafn Íslands. Rætt var um möguleika á því að sýningar, í takt við þær sem fjallað er um í greininni og byggja á náttúruvísindum, verði hluti af áætluðu Náttúruminjasafni Íslands. Skv. safnalögum skulu sérlög sett um Náttúruminjasafn Íslands og er áríðandi að því verði komið á fót sem fyrst. Umsókn Dr. Bjarna F. Einarssonar hjá Fornleifastofunni, um leyfi til úflutnings dýrabeina í rannsóknarskyni var send til afgreiðslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í samræmi við lög. Lógó Safnaráðs. Framkvæmdastjóri hefur rætt við hönnuðina Hildigunni Gunnarsdóttir og Svanfríð Þorsteins um hönnun lógós fyrir Safnaráð. Hafa þær meðal annars unnið verkefni fyrir Listasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Samþykkt var að óska eftir hugmyndum frá þeim, sem kynntar verða ráðinu. Könnun Safnaráðs á stöðu skráningar á söfnum, mars 2006 verður send söfnum, setrum og ákveðnum stofnunum sem hafa að geyma safnkost af einhverju tagi föstudaginn 31. mars. Framkvæmdastjóri hefur flutt fyrirlestra um Safnaráð, safnalög, lagaumhverfi safna og heildræna stöðu safnamála hér á landi á Staðarvarðanámskeiði við Háskólann á Hólum (í fjarkennslu) og á námskeiði í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Íslenski safnadagurinn 2006. Starfshópur um kynningu Íslenska safnadagsins 2006 hefur hafið störf v. útfærslu á kynningu Íslenska safnadagsins í ár.

3.      Endurbætt vefsíða Safnaráðs. Vinnsla við uppsetningu nýrrar vefsíðu Safnaráðs er á lokastigi. Framkvæmdastjóri kynnti síðuna fyrir ráðsmönnum af vefsvæði þar sem síðan er vistuð tímabundið. Skv. upplýsingum frá EC Hugbúnaði var ætlunin að opna síðuna 30. eða 31. mars á léninu www.safnarad.is.

4.      Náttúrusöfn – umsókn um verkefnastyrk í Safnasjóð 2006 v. skráningarkerfis fyrir náttúrusöfn. Áframhaldandi umfjöllun um umsóknina frá síðustu fundum. Samþykkt var að fresta ákvörðun þar sem munnleg skilaboð bárust frá menntamálaráðuneyti þess efnis að það væri eindreginn vilji ráðuneytisins að verkefninu yrði frestað þar til áætlað Náttúruminjasafn Íslands hefur verið stofnað, enda hafi safnið umsjón með verkefninu. Samþykkti Safnaráð að óska eftir formlegu bréfi með rökstuðningi varðandi þennan vilja ráðuneytisins.

5.      Vettvangsferð Safnaráðs 2006. Vettvangsferðir ráðsins hafa verið mikilvægur þáttur í að mynda þá heildarsýn á aðstæðum stofnana í safnastarfi á Íslandi sem nauðsynlegur er starfsemi ráðsins. Í samræmi við ákvörðun síðasta fundar verður vettvangsferð Safnráðs 2006 farin á Austurland. Ferðin var áætluð 26. og 27. apríl en ákveðið var að flýta henni um einn dag, til 25. og 26. apríl. Vonir standa til að upplýsingar úr könnun um stöðu skráningar á söfnum hafi borist fyrir ferðina.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH