Fundargerð 50. fundar Safnaráðs, 18. maí 2006, kl. 11:30-13:00,
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík.

Viðstödd voru:  Margrét Hallgrímsdóttir, Jón Gunnar Ottósson, Sveinn Kristinsson, Karl Rúnar Þórsson, Júlíana Gottskálksdóttir og Rakel Halldórsdóttir.

 1.      Fundargerð 49. fundar var samþykkt og undirrituð.

2.      Skýrsla framkvæmdastjóra. Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu Evrópuráðs safna (European Museum Forum) á aðalfundir ráðsins í Lissabon 10.-13. maí sl., þar sem úrslit í samkeppni European Museum of the Year Award 2006 voru tilkynnt. Safnaráð tilnefndi safnið til samkeppninnar í janúar 2005. Tvö íslensk söfn hafa verið tilnefnd til keppninnar og hafa bæði hlotið viðurkenningu, en Síldarminjasafnið á Siglufirði, sem Safnaráð tilnefndi til keppninnar 2004, hlaut Micheletti verðlaunin það ár. Svar hefur borist frá menntamálaráðuneyti við erindi Safnaráðs, dags. 18. nóvember 2004, þar sem ráðið leggur til við ráðuneytið að settur verði á fót starfshópur til að skoða möguleika þess að fella niður aðgangseyri að ríkissöfnum. Svar ráðuneytisins er svohljóðandi: ?Ráðuneytið mun taka erindið til skoðunar þegar tilraunaverkefni því, sem nú fer fram í Listasafni Íslands um niðurfellingu aðgangseyris, er lokið og árangur þess hefur verið metinn.? Minjavernd ehf. og Þyrping ehf. lögðu fyrir borgarráð Reykjavíkurborgar hugmynd um flutning Árbæjarsafns í Viðey, en ráðið fjallaði um hugmyndina á fundi þann 4. maí sl. þar sem samþykkt var að skoða hugmyndina nánar. Starfsfólk Minjasafns Reykjavíkur, Félag íslenskra safna og safnmanna og Félag íslenskra safnafræðinga hafa ályktað um málið og bent á mikilvægi þess að hagsmunir safnsins verði hafðir í fyrirrúmi við ákvarðanatöku. Safnaráð samþykkti að setja fram opinberlega stutta ályktun sama efnis. Vettvangsferð Safnaráðs 2006, áætluð dagana 25. og 26. apríl sl. féll niður. Samþykkt var ný dagsetning vettvangsferðarinnar 25. og 26. september n.k.  Ferðinni verður þá lokið á Egilsstöðum í tæka tíð fyrir Farskóla safnmanna 2006, sem haldinn verður á Egilsstöðum dagana 27. – 29. september. Vefsíða Safnaráðs. Ný vefsíða Safnaráðs hefur fengið góðar móttökur, en heimsóknir á vefsíðuna eru nokkur hundruð í viku hverri (sem dæmi voru 664 heimsóknir skráðar vikuna 9. – 15. maí). Framkvæmdastjóri mun vinna áfram að þróun vefsíðunnar. Íslenski safnadagurinn 2006. Starfshópur um kynningu Íslenska safnadagsins 2006 hefur hafið skipulagningu og hafin er söfnun þátttakenda í auglýsingu fyrir daginn, sem birt verður í Morgunblaðinu laugardaginn 8. maí n.k. Skilafrestur vegna þátttöku verður framlengdur til 1. júní n.k. Háskóli Íslands – safnafræðideild. Forstöðumenn höfuðsafna og framkvæmdastjóri funduðu með fulltrúum HÍ og öðrum sem koma að uppbyggingu safnafræðideildar við háskólann þann 8. maí sl. Háskólinn mun skipa í  starfshóp sem vinna mun að fjáröflun til verkefnisins og að skipulagningu og uppbyggingu deildarinnar í framhaldi. 

3.      Ársreikningur Safnasjóðs 2005. Ársreikningur síðasta árs var undirritaður af aðalfulltrúum og framkvæmdastjóra í tveimur eintökum sem send verða Ríkisendurskoðun.

4.      Lógó Safnaráðs. Skoðaðar voru tillögur að lógói Safnaráðs frá hönnuðunum Hildigunni Gunnarsdóttur og Snæfríð Þorsteins. Samþykkt var að óska eftir að ein tillaganna yrði þróuð áfram með hliðsjón af athugasemdum sem fram komu á fundinum.

5.      Könnun Safnaráðs á stöðu skráningar – niðurstöður. Umfjöllun um niðurstöður könnunar Safnaráðs á stöðu skráningar var frestað til næsta fundar.

6.      Erindi bæjarstjórnar Árborgar varðandi málefni Draugasetursins á Stokkseyri. Samþykkt var svarbréf vegna erindis bæjarstjórnar Árborgar þar sem óskað er mats Safnaráðs á því hvort Draugasetrið á Stokkseyri fellur undir safnalög nr. 106/2001. Ráðinu hafa ekki borist þau gögn, s.s. stofnskrá/skipulagsskrá/samþykkt, söfnunar- og sýningarstefna, heildarstefna, ársskýrslur o.fl., sem nauðsynleg eru til mats á starfseminni.

7.      Erindi Gísla Sverris Árnasonar. Fjallað var um erindi Gísla Sverris Árnasonar og samþykkt að fresta ákvörðun.

8.      Umsóknareyðublöð vegna umsókna í Safnasjóð 2007. Samþykkt voru ný umsóknareyðublöð vegna umsókna í Safnasjóð 2007, með lítilsháttar athugasemdum.

9.      Auglýsing vegna umsókna í Safnasjóð 2007. Samþykkt var auglýsing vegna umsókna í Safnasjóð 2007. Ákveðið var að ekki yrði áhersla á ákveðin verkefni varðandi úthlutun verkefnastyrkja líkt og var í fyrra. Auglýst verður eftir umsóknum í helstu fjölmiðlum, á Safnlistanum og vefsíðum menntamálaráðuneytis og Safnaráðs í byrjun júní.

10.  Málþing Safnaráðs haust 2006. Ákveðið var á 46. fundar, þann 19. janúar sl. að umræðuefni málþings haustsins yrði í beinu framhaldi af umræðu á málþingi síðasta árs um menntunarhlutverk safna. Hugsunin var sú að vinna nánar með þetta hlutverk og á þann hátt að það nýttist söfnunum. Með hliðsjón af þeim áformum var á 50. fundi samþykkt að málþingið haust 2006 verði í formi samráðsfundar um framtíðarsýn á sviði menntunarhlutverks safna. Markmið fundarins verður að vinna, í nánu samstarfi við umsjónarmenn miðlunar-/fræðslusviða safna í landinu, samræmda stefnu/framkvæmdaáætlun á sviði menntunarhlutverks safna. Starfshópur mun sjá um undirbúning fundarins og skiplag dagskrár, en gert er ráð fyrir tveggja daga fundi, þar sem unnið verður í vinnuhópum að gerð skýrslu/áætlunar um framtíðarstefnu varðandi menntunarhlutverk safna. Byggt verður á erlendum fyrirmyndum, með hliðsjón af innlendum lögum, reglum og samþykktri heildarstefnu (Safnasstefnu á sviði þjóðminjavörslu fyrir árin 2003-2008). Framkvæmdastjóri mun kalla saman og stýra starfshópi um undirbúning samráðsfundarins. Rætt var um að verkefnið yrði unnið í samráði við menntamálaráðuneyti. Tillaga að dagsetningu fundarins er 19. og 20. október n.k.

11.   Náttúrusöfn – umsókn um verkefnastyrk í Safnasjóð 2006 v. skráningarkerfis fyrir náttúrusöfn. Áframhaldandi umfjöllun um umsóknina frá síðustu fundum. Samþykkt var að fresta ákvörðun þar til borist hefur frá menntamálaráðuneyti formlegt bréf til staðfestingar á munnlegum skilaboðum þess efnis að það væri eindreginn vilji ráðuneytisins að verkefninu yrði frestað þar til áætlað Náttúruminjasafn Íslands hefur verið stofnað, enda hafi safnið umsjón með verkefninu.

12.  Næsti fundur og önnur mál. Ekki er fundað í júní og júlí. Næsti fundur var ákvarðaður 24. ágúst n.k.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13:00/RH


Ályktun Safnaráðs varðandi hugmynd um framtíð Árbæjarsafns:
Safnaráð ályktaði á fundi ráðsins þann 18. maí sl. um hugmyndir Minjaverndar ehf. og Þyrpingar ehf. um flutning Árbæjarsafns í Viðey, sem fjallað var um í borgarráði þann 4. maí sl. Safnaráð bendir á mikilvægi þess að allar ákvarðanir um framtíð og uppbyggingu Árbæjarsafns verði byggðar á faglegum grunni.